Beint í efni

Sam­fé­lags­við­ur­kenn­ing Krabba­meins­fé­lags­ins veitt í þriðja sinn

Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins er veitt þeim aðilum sem félaginu þykir hafa lagt málstaðnum lið með eftirtektarverðum hætti. Viðurkenning var veitt í þriðja sinn 25. maí sl.

Samfélagsviðurkenningu Krabbameinsfélagsins í ár fær starfsfólk sjúkrahúsa um land allt fyrir að leggja sig fram, gera sitt besta og örlítið meira en það fyrir fólk sem er að takast á við krabbamein. 

Í kerfi, sem er yfirhlaðið, við aðstæður sem í mörgum tilvikum eru heldur bágar, undir miklu álagi og stundum við takmarkaðan skilning, heyrum við hjá Krabbameinsfélaginu, fólk með krabbamein næstum undantekningalaust hæla starfsfólki sjúkrahúsanna með orðum eins og:

Það eru allir að leggja sig fram 
Það eru allir að gera sitt besta

Samfélagsviðurkenning 2024_5

Í krabbameinsmeðferð er fólk, ásamt sínum nánustu, að takast á við ein erfiðustu verkefni lífs síns, jafnvel upp á líf og dauða. Á þeim tíma leikur starfsfólk sjúkrahúsanna algert lykilhlutverk í lífi fólks sem leggur allt sitt traust á það.  

Hluti af starfsfólkinu er mjög sýnilegt meðan aðrir vinna sína vinnu bak við tjöldin. Allir í keðjunni eru hins vegar ómissandi ef árangur á að nást. 

Samfélagsviðurkenning 2024_2

Það voru fulltrúar 15 fjölbreyttra fagstétta sem tóku á móti viðurkenningunni fyrir hönd sinnar stéttar. 

Samfélagsviðurkenning 2024_3

Við vitum að fólk með krabbamein og aðstandendur þess fær frábæra þjónustu á fleiri en einum stað í kerfinu en nú viljum við hjá Krabbameinsfélaginu veita starfsfólki sjúkrahúsa samfélagsviðurkenningu félagsins fyrir það dýrmæta starf sem það sinnir í þágu fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra með þökk fyrir þeirra frábæra og mikilvæga starf.  

Fagstéttirnar eru:

1.     Eðlisfræðingar

2.     Erfðaráðgjafar

3.     Félagsráðgjafar

4.     Geislafræðingar

5.     Hjúkrunarfræðingar

6.     Iðjuþjálfar

7.     Lífeindafræðingar

8.     Lyfjafræðingar

9.     Læknar

10.  Næringarfræðingar

11.  Prestar/djáknar

12.  Ritarar/aðstoðarfólk.

13.  Sálfræðingar

14.  Sjúkraliðar

15.  Sjúkraþjálfarar