Beint í efni

Sam­eig­in­legt átak skilar bættri heilsu

Fjarðabyggð og Krabbameinsfélag Austfjarða hafa undirritað samning sem tryggir einstaklingum sem greinst hafa með krabbamein gjaldfrjálsan aðgang að sundlaugum og líkamsrækt á vegum sveitarfélagsins.

Hreyfing getur haft verndandi áhrif gegn myndun krabbameins, en hún er ekki síður mikilvæg meðan krabbameinsmeðferð stendur yfir og eftir að henni er lokið. Hún hefur jákvæð áhrif á líkamsstarfsemina, eykur lífsgæði og getur dregið úr aukaverkunum á borð við þreytu. Með nýjum samningi sem Fjarðabyggð og Krabbameinsfélag Austfjarða hafa undirritað er einstaklingum sem greinast með krabbamein gert auðveldara að njóta ávinningsins.

„Sveitarfélagið okkar hefur verið mjög viljugt að styðja við okkar starf og fannst velkomið að gera þennan samning við okkur,“ segir Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða. „Fyrirtæki og félög sem eiga tækjasali vildu síðan endilega vera með og úr varð að okkar skjólstæðingum býðst ókeypis aðgangur að líkamsrækt í heimabyggð. Við erum líka í samtali við þjálfara á okkar svæði um að kenna fólki á tækin.“

Vonast til að verkefnið verði öðrum hvatning

Hrefna er tengiliður verkefnisins og í samstarfi við Krabbameinsfélag Austurlands er stefnan að bjóða íbúum Múlaþings og Vopnafjarðarhrepps upp á sambærilega þjónustu. „Við erum alltaf að berjast fyrir jöfnuði og viljum auðvitað að þessi þjónusta standi öllum á svæðinu til boða. Við stöndum frammi fyrir fjölgun krabbameinstilfella og þetta er eitt af fyrstu skrefum okkar í að halda betur utan um okkar hóp.“

Hrefna vonast til þess að verkefnið verði öðrum sveitarfélögum hvatning til að gera sambærilega samninga. „Samtakamátturinn í samfélaginu okkar er frábær og það eru einhvern veginn allir með okkur í liði. Þetta var auðsótt um leið og við höfðum samband,“ segir hún. „Það er öflugt og verðugt fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og félagasamtök að standa með krabbameinsfélögunum og vera þeim bakland.“