Beint í efni

Saga Báru

Bára O‘Brien Ragnhildardóttir greindist með brjóstakrabbamein daginn fyrir afmæli sjö ára dóttur sinnar fyrir rúmu ári síðan. Hún segir mikilvægt að halda í vonina og velur að leggja Bleiku slaufunni lið til að vekja von hjá öðrum sem eru í sömu sporum.

Bára O‘Brien Ragnhildardóttir greindist með brjóstakrabbamein daginn fyrir afmæli sjö ára dóttur sinnar fyrir rúmu ári síðan. Hún gekk í kjölfarið í gegnum fleygskurð, lyfjameðferð og geisla. „Ef ég horfi á allt ferlið þá er óvissan fyrstu þrjá dagana erfiðust,“ segir Bára. „Um leið og það var búið að setjast niður með mér og útskýra hvað væri framundan þá var þetta allt annað.“ Bára segir endurgreiningaróttann vera óþægilegan og segist vera að reyna að finna sér leið til að tempra hann.

Ég hélt að þetta væri mest líkamlegt en það sem kemur mér mest á óvart í þessu er hvað þetta er mikið andlegt.

Bára hélt að ferlið myndi klárast þegar krabbameinsmeðferðirnar kláruðust, en uppgötvaði að áfallið hafði áfram áhrif á hana. „Sálin er ennþá í áfallinu og það þarf að hlúa vel að henni, þótt að líkaminn sé kannski fljótari að jafna sig.“

Bára sótti námskeiðið Mín leið hjá Krabbameinsfélaginu og fannst uppörvandi að heyra að flestir lifðu af og ættu langt og gott líf framundan að krabbameinsmeðferðum loknum.

Það að fá þessa von einhvern veginn, að ég ætti allt lífið framundan, það var svo gott. Það er mikilvægt að hafa vonina af því að hún kemur manni áfram.

Bleikur október hefur fengið nýja merkingu fyrir Báru eftir að hún greindist sjálf og hún vill leggja Bleiku slaufunni lið af því að hún veit hvað það skiptir miklu máli fyrir fólkið sem greinist á eftir henni að þjónusta sé til staðar og að rannsóknum sé sinnt.

Viðtalsupptaka Báru O'Brien Ragnhildardóttur

https://www.youtube.com/watch?v=nqrWzd0j7KQ