Beint í efni
Kristgerður forsíðumynd

Per­sónu­ger­ir krabba­mein­ið og tal­ar við það

Kristgerður Garðarsdóttir greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2014 og síðan aftur með ólæknandi krabbamein í ársbyrjun 2025. Hún segir reynsluna hafa kennt sér hversu sterk hún og aðstandendur hennar séu. 

„Þar sem þetta er dreifðara brjóstakrabbamein núna, þá er þetta verkefni lífsins og þess vegna miklu þyngra högg en áður,“ segir Kristgerður. Hún á að eigin sögn yndislegan mann, tvo uppkomna drengi, stóra fjölskyldu og mjög stóran vinahóp og segir reynsluna hafa kennt sér hversu sterk þau öll séu. „Þessi reynsla hefur kennt mér mjög margt, í fyrsta lagi hversu sterk ég er orðin og hversu dásamlega sterka fjölskyldu ég á.“ 

Viðtalsupptaka Kristgerðar

Kristgerður segir erfiðasta tímann hafa verið biðina eftir því að hitta lækninn. „Ég átti ansi erfiðar tvær vikur, í raun og veru þangað til ég hitti lækninn.“ Hún upplifði alls konar tilfinningar, en er í eðli sínu bjartsýn og segist hafa tekið ákvörðun um að horfa fram á veginn. „Ég tekst á við þetta þannig að ég lít á þetta sem samspil hugar, sálar og líkama og ég ákvað að vinna með alla þessa þætti eins vel og ég gæti.“ 

Í þeirri stöðu að lifa með sjúkdómnum

Kristgerður hefur nýtt þjónustu Krabbameinsfélagsins og lært tæki og tól sem nýtast þegar erfiðu tímarnir koma. Hún sækir andlega næringu á marga staði og eitt af því sem hjálpar henni mest er að fara í langa göngutúra, þar sem hún talar stundum við krabbameinið. „Í þessum löngu göngutúrum mínum þá hefur það hjálpað mér mjög mikið að ég persónugeri krabbameinið mitt,“ segir Kristgerður og bætir síðan hlæjandi við að samtalið sé einhliða. „Auðvitað tala ég mest. En hann er þarna. Hann er með mér og mun verða með mér út lífið.“ 

Ein góða vinkona Kristgerðar sagði að það að lifa með krabbameini væri í dag eins og að lifa með krónískum sjúkdómi. Kristgerður segist ekki hafa leitt hugann að þessu áður, fyrr en hún var sjálf í þessari stöðu. „Að lifa með krabbameini er eitthvað sem ég spáði aldrei í áður, en nú er ég í þessari stöðu að lifa með sjúkdómnum. Og sem betur fer hefur tæknin þróast svo mikið að það er hægt að gera mikið.“ 

Myndir úr einkasafni