Oft gott að setjast niður með hlutlausum aðila
Lóa Björk Ólafsdóttir er reynslumikill hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu. Hún segir það oft koma fólki á óvart hversu gott það geti verið að ræða málin við hlutlausan aðila og hvetur fólk til að nýta gjaldfrjálsa þjónustu Krabbameinsfélagsins.
Lóa Björk Ólafsdóttir starfar sem hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu og hittir fjölda fólks á ári hverju sem lifir með ólæknandi krabbameini. Hún segir ekki langt síðan staðan hafi verið sú að ekki hafi verið mikið hægt að gera til að hafa áhrif á framgang sjúkdómsins, en í dag séu hlutirnir öðruvísi. „Í dag þá er veruleikinn þannig að ef þú greinist með ólæknandi krabbamein, þá geturðu í mörgum tilfellum átt von á því að geta bara svolítið lifað með sjúkdómnum eins og með hverjum öðrum langvinnum sjúkdómi.“
Viðtalsupptaka Lóu Bjarkar
Það fylgi því þó auðvitað áskoranir, bæði fyrir þann sem greinist og aðstandendur. „Þú kannski ert með hugmyndir um að þú óttist ekki dauðann og annað slíkt, en svo þegar þú stendur frammi fyrir þessu þá held ég að það setji hlutina í eitthvað allt annað samhengi,“ segir Lóa Björk. Það fari eftir ýmsu hvernig fólki líði í kjölfarið. „Það er mjög erfitt að vera bjartsýnn og halda í vonina þegar kannski verkir taka bara alltaf sviðið.“
Að ræða það sem liggur á hjartanu
Lóa Björk mælir alltaf með því að fólk leiti sér aðstoðar ef það glími við slík einkenni, því margt sé hægt að gera til að bæta lífsgæði. Þá sé jafnframt mikilvægt að reyna að hafa áfram eitthvað dagskipulag. „Margir eru kannski að uppgötva í fyrsta skiptið hvað þessir hlutir eru stór partur af sjálfsmyndinni,“ segir hún. „Við hvetjum alltaf fólk til að reyna að halda áfram að hafa rútínu í lífinu. Að það sé smá dagskrá, það gefur ákveðið akkeri og öryggi.“
Hjá Krabbameinsfélaginu býðst fólki að koma og hitta ráðgjafa, eitthvað sem Lóa Björk hvetur alla til að prófa. „Að setjast niður með hlutlausum aðila og svolítið bara ræða það sem liggur á hjartanu og huganum.“ Hún segir það oft vera eitthvað sem fólk sé að gera í fyrsta skiptið. „Það getur verið svolítið erfitt skref að taka. En það kemur oft fólki á óvart eftir á hvað þetta getur hjálpað mikið og hvað það getur fylgt þessu mikill léttir.“
Ráðgjöf og stuðningur þér að kostnaðarlausu
Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.