Beint í efni

Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Við hjá Krabbameinsfélaginu finnum ætíð fyrir miklum velvilja frá fólki og fyrirtækjum í landinu í öllu okkar starfi. Það á ekki síst við í kringum stóru árvekni- og fjáröflunarátökin okkar í mars og október. Eitt þeirra fyrirtækja sem sýnir stuðning í verki með ómetanlegum hætti er TVG-Zimsen, sem hefur séð um flutning og dreifingu bleiku slaufunnar í fimmtán ár. Þeirra aðstoð gerir félaginu kleift að halda kostnaði við átakið í lágmarki.

„Við erum afar stolt af því að vera bakhjarlar Bleiku slaufunnar og þetta skiptir okkur miklu máli,“ segir Elísa Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, um samstarfið. Í myndbandi hér fyrir neðan má sjá afhendingu slaufunnar og stutt viðtal við Elísu Dögg.

https://www.youtube.com/watch?v=kmt1vlFFn04

Sala Bleiku slaufunnar hefst 29. september næstkomandi, en átakið hefst formlega þann 28. september með opnunarviðburði í Þjóðleikhúsinu. Einungis örfá sæti eru laus á viðburðinn og því hver að verða síðastur að næla sér í miða.