„Mjög góðir strengir“ að afloknum Styrkleikum á Egilsstöðum
Frábærum Styrkleikum lauk um hádegi í gær á Egilsstöðum. Þátttakendur gengu rúmlega 5 hringi í kringum landið eða tæpir 7.000 kílómetra. Líkt og í lífinu sjálfu skiptust á skin og skúrir, steikjandi hiti, sólskin og úrhellisrigning þá 24 klukkutíma sem leikarnir stóðu.
Hætt er við að margir séu með sára fætur og strengi í líkamanum í dag en líkt og Björg Eyþórsdóttir, sem gekk fyrir lið Ladies Circle og Fólksins hennar Birnu með fjölskyldu sinni sagði eru það „mjög góðir strengir“. Samstaðan var allt umlykjandi allan tímann og stemmningin sýndi óyggjandi gildi Styrkleikana fyrir samfélagið allt, fólk sem hafði fengið krabbamein, aðstandandur eða þá sem vildu sýna stuðning í verki. Það er nefnilega þannig að „það þarf fólk eins og mig, fyrir fólk eins og þig“ eins og í texta Rúnars Júlíussonar sem Øystein Gjerde söng svo fallega við slit Styrkleikanna.
Í áheitasöfnuninni hafa safnast rétt tæplega 4.000.000 auk þess sem fyrirtæki styrktu myndarlega við Styrkleikana. Þar fyrir utan lögðu ótrúlega margir sjálfboðaliðar, einstaklingar og félagasamtök hönd á plóg við skipulagningu leikanna, undir forystu Krabbameinsfélags Austurlands og Austfjarða. Stuðningur sveitarfélagsins Múlaþings var ómetanlegur.
Á myndinni eru Björg Eyþórsdóttir og fjölskylda sem gekk ótal, ótal hringi á Styrkleikunum; Guðmundur Birkir Jóhannsson og bræðurnir Eyþór Sindri Guðmundsson, Unnsteinn Liljar Guðmundsson og Arnór Stirnir Guðmundsson en á myndina vantar Jóhann Birti sem hljóp hraðar en hinir í fjölskyldunni.