Beint í efni

Minn­ing­ar­orð um Jón Þor­ge­ir Hall­gríms­son

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Jón Þorgeir var kosinn í stjórn Krabbameinsfélags Íslands 1988 og var formaður þess frá 1992 til 1998. Hann sat í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur (nú Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins) frá 1979 til 1992, sem formaður frá 1988 til 1992.

Öll störf sín hjá félögunum vann hann af vandvirkni og með víðsýni að leiðarljósi og reyndist tillögugóður á miklum mótunarárum félaganna. Hann var mjög áhugasamur um allt sem varðaði baráttuna gegn krabbameini og vann að því af heilum hug að félögin næðu markmiðum sínum, ekki síst varðandi fræðslu, forvarnir og málefni sjúklinga og aðstandanda.

Mjög fróðlegt var að hlusta á frásagnir Jóns Þorgeirs frá fyrstu árum skipulagðrar skimunar fyrir leghálskrabbameini á landsbyggðinni. Fyrsta skimunin á landsbyggðinni mun hafa verið í Strandasýslu árið 1966, en Jón Þorgeir var þá héraðslæknir þar. Auk þess að skoða á Hólmavík fór hann með strandferðaskipi í Norðurfjörð og í Djúpavík og skoðaði konur þar í heimahúsum meðan skipið beið.

Næstu ár var farið að skima annars staðar utan Reykjavíkur. Jón Þorgeir fór í mörg ár um Norðausturland, Austurland og hluta Suðurlands og sagði í blaðaviðtali að þetta hefði verið ánægjulegur tími þó aðstæður hafi ekki verið eins góðar og síðar varð. „Þetta var áður en farið var að byggja allar heilsugæslustöðvarnar. Á Húsavík skoðuðum við innan um uppstoppuð dýr í náttúrugripasafninu, á Vopnafirði í eldhúsinu í félagsheimilinu, á Norðfirði í sjómanna­heimilinu, á Egilsstöðum í skóla og á Fáskrúðsfirði í félagsheimilinu, í búningsherbergi bak við leiksviðið.“ Ferðirnar voru farnar vor og haust og gat brugðið til beggja vona með veður og færð. „Stundum voru varðskip fengin til að flytja okkur á milli staða og ég man eftir að hafa verið ferjaður í land á þyrlu.“

Jón Þorgeir var kjörinn í heiðursráð Krabbameinsfélags Íslands árið 1988 og sæmdur gullmerki félagsins. Hann var kjörinn heiðursfélagi Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins árið 1999. Þessar viðurkenningar eru veittar fyrir mikilsvert framlag og til baráttunnar gegn krabbameini.

Leiðir Jóns Þorgeirs og félaganna lágu saman í meira en hálfa öld, bæði á Leitarstöðinni og í félagsstarfinu. Hann var farsæll í sínum störfum og sýndi félögunum mikinn áhuga alla tíð. Sem stjórnarmaður og heiðursfélagi sat hann aðalfundi félaganna í áratugi, allt fram á síðustu ár.

Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum Jóns Þorgeirs vottar félagið innilega samúð.