MILDI 2025 - góðgerðarviðburður til styrktar Bleiku slaufunni
Viðburðurinn Mildi 2025 fer fram, fimmtudaginn 30. október, í fallegu umhverfi veislu- og viðburðastaðarins Sjálands sem stendur á glæsilegum stað við sjávarsíðuna í Garðabæ. Þar mynda hafið og róin kjörinn bakgrunn fyrir kvöld fullt af vellíðan, samveru og sjálfsumhyggju.
Markmið viðburðarins er að gefa 100 konum tækifæri til að koma saman, slaka á og næra líkama og sál og í leiðinni láta gott af sér leiða.
Áhersla kvöldsins verður að hægja á, sýna sér mildi, leita inn á við og næra sálina í rólegu og kærleiksríku umhverfi.
Kvöldið sameinar rólegt jóga – yin og nidra, ásamt léttri hreyfingu þar sem lögð verður áhersla á öndun og að sleppa tökunum. Allar geta tekið þátt og er ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af jóga.
Einnig verður farið í kærleikshugleiðslu og dýpri hlustun um leið og við njótum fallegrar samveru.
Allir sem að verkefninu koma gefa vinnu sína, og allur ágóði rennur óskiptur til Bleiku slaufunnar.


