Með verkfærakassa fullan af bjargráðum
Maren Davíðsdóttir greindist með ólæknandi krabbamein fyrir 18 árum. Hún segist þurfa að vera hugrökk í 24 tíma á sólarhring vegna þess að það komi oft óvæntar fréttir sem hún þurfi að takast á við. Hún er þakklát Krabbameinsfélaginu fyrir verkfærakassann sinn, sem er fullur af bjargráðum.
„Fyrir 18 árum greindist ég með krabbamein sem heitir mergæxli, sem er illkynja æxlissjúkdómur sem á upptök sín í beinmergnum og er alvarlegur þar sem hann er ólæknandi,“ segir Maren. Hún segir það krefjast elju, seiglu og hugrekkis allan sólarhringinn að lifa með krabbameini og berjast við það um leið. „Það koma oft fréttir, bara nánast hvenær sem er, sem þú þarft að takast á við. Eitthvað blóðgildi hækkar og þú þarft að taka ákvarðanir um hvað eigi að gera í stöðunni.“
Viðtalsupptaka Maren
Maren tekst á við áskoranirnar með því að huga vel að líkamlegri heilsu og þeirri andlegu, sem hún segir ekki síður mikilvæga. „Það sem hjálpar mér mest í þessari baráttu er að búa til góða daglega rútínu þar sem ég passa að sinna þeim þáttum sem skipta mig mestu máli.“ Hún telur upp hollt mataræði, hreyfingu, íhugun og slökun, en segir einnig afar mikilvægt að velja sér starf við hæfi. „Að vinna við eitthvað sem maður hefur ástríðu fyrir. Það er mjög gefandi og ég mæli með því við hvern sem vill lifa innihaldsríku lífi.“ Samverustundir með drengjunum hennar eru jafnframt í algjörum forgangi hjá Maren, framar öllum verkefnum dagsins eins og hún orðar það.
Bleika slaufan stendur fyrir von og trú
„Ég veit hreinlega ekki hvar ég væri í dag ef að Krabbameinsfélagið hefði ekki verið til staðar fyrir mig,“ segir Maren. Hún hefur sótt fjöldann allan af námskeiðum þar sem hafa kennt henni ýmis bjargráð. „Í dag er ég búin að búa til stóran verkfærakassa með hjálp Krabbameinsfélagsins.“ Bleika slaufan hefur líka mikla þýðingu fyrir Maren. „Fæstir vita það að Krabbameinsfélagið er að mestu leyti rekið fyrir sjálfsaflafé, styrki frá almenningi og fyrirtækjum. Fyrir mig stendur þetta átak fyrir von og trú. Fyrir þá sem eru að berjast fyrir lífinu og vonandi auka líkurnar á því að þeir sigri sína baráttu.“

