Beint í efni
Styrkleikar_rokkstjarna 1

„Manni líð­ur bara eins og rokk­stjörnu“

Þau Bjarni Ólafur, Helena og Berglind eiga það sameiginlegt að hafa öll viljað láta gott af sér leiða í nærsamfélagi sínu og styrkja um leið Krabbameinsfélagið. Þau eru nýjustu skipuleggjendur Styrkleikanna, Bjarni Ólafur í Vestmannaeyjum og Helena og Berglind á Húsavík. Við ræddum við þau um verkefnið, tenginguna við málstaðinn og fyrst og fremst, hvort þau mæli með því að aðrir feti í þeirra fótspor og skipuleggi Styrkleika í sínu nærsamfélagi. 

Krabbamein á ekki að vera feimnismál

Bjarni Ólafur, eða Daddi eins og hann er alltaf kallaður, er þaulvanur skipuleggjandi alls kyns viðburða, auk þess sem hann hefur reynslu af því að vera veislustjóri á risastórum samkomum, m.a. hjá Krabbavörn, Krabbameinsfélagi Vestmannaeyja. Hann segir reynsluna hafa nýst við undirbúning Styrkleikanna, en að einnig hafi mikil reynsla safnast sem muni nýtast fyrir næstu Styrkleika. 

„Við erum auðvitað með annan risastóran viðburð, Þjóðhátíð, sem var helgina á undan Styrkleikunum,“ segir Daddi, sem hefur sinnt hlutverki kynnis á Þjóðhátíð síðan 2006. „Maður áttaði sig ekki alveg á hvernig þetta myndi raðast saman, en af því að við erum svo rík af duglegu, góðu og gefandi fólki hérna í Eyjum þá tókst þetta allt saman mjög vel.“ Hann segir Styrkleikana fyrst og fremst snúast um að virkja samfélagið og fá sem flesta með sér. 

„Það er engin fjölskylda á Íslandi sem ekki þekkir krabbamein“

Daddi þekkir áhrifin sem krabbamein hafa á líf fólks sem aðstandandi og hefur undanfarin ár staðið fyrir golfmóti í Vestmannaeyjum þar sem ágóðinn, samtals um 5.000.000, hefur runnið til Krabbavarnar. Þegar hnippt var í hann varðandi Styrkleikana fannst honum engin spurning að taka þátt. „Ég vissi að við værum að styðja við gott málefni og það er mér hjartans mál að gefa til baka.“ Honum er einnig hugleikið að krabbamein eigi ekki að vera feimnismál. „Það er engin fjölskylda á Íslandi sem ekki þekkir krabbamein út frá einhverri reynslu,“ segir hann. „Styrkleikarnir hjálpa til við að gera baráttuna sýnilegri og eru þeir fólki vonandi hvatning til að tala opinskátt um hlutina og deila reynslu.“ 

Styrkleikar_rokkstjarna 2
Styrkleikar_rokkstjarna 3

Fengu alltaf strax já

Berglind og Helena þekktust ekki mikið áður en þær tóku að sér að skipuleggja Styrkleikana á Húsavík saman, en segjast hafa vitað af hvor annarri. Helena var búin að sjá umfjöllun um Styrkleikana á Egilsstöðum og ákvað að bjóða Berglindi að framkvæma þetta með henni. „Ég hafði sett mér það markmið að ganga 49 sinnum á Húsavíkurfjall áður en ég yrði 49 ára og Berglind var búin að spyrja hvort hún mætti koma með mér í eina fjallgönguna,“ segir Helena. „Ég nefndi þetta við hana þegar við vorum að koma niður af fjallinu og hún var strax til.“ 

Berglind segir það hafa komið sér á óvart hvað skipulagið reyndist í raun auðvelt, en fyrsta skrefið var að fá fleira fólk til liðs við þær. „Við gerðum lista yfir fólk sem við vissum að hefði persónulega tengingu, annað hvort sem aðstandendur eða sem hefðu sjálf lokið meðferð gegn krabbameini og sögðum að ef þeim dytti einhverjir fleiri í hug væri allir velkomnir með,“ segir Berglind. Á endanum taldi hópurinn 15 manns og á fyrsta fundi röðuðu þau sér niður í minni verkefnahópa. „Hugmyndin hjá okkur með því var að létta álagi af þeim sem starfa þegar fyrir krabbameinsfélögin, að minnka sjálfboðaliðaþreytu og dreifa álaginu á fleiri hendur,“ segir Helena. 

Auk þess að njóta stuðnings hvor frá annarri og frá starfsmanni Krabbameinsfélagsins, Rakel Ýr Sigurðardóttur, fengu þær líka að leita til Hrefnu Eyþórsdóttur, sem hefur reynslu af skipulagningu Styrkleikanna á Egilsstöðum, og segja það hafa verið gríðarlega gagnlegt. „Við fengum heldur betur að nýta okkur reynslu þeirra við skipulagið og í raun alls staðar þar sem við leituðum eftir aðstoð var það auðsótt mál. Við þurftum í raun aldrei að leita eitthvert annað, því við fengum alltaf já hjá fyrsta aðila sem við spurðum,“ segir Helena. 

Styrkleikar_rokkstjarna 4
Styrkleikar_rokkstjarna 5

Samkennd og samstaða

Öll eru þau Daddi, Berglind og Helena sammála um að það sé bæði gott og gefandi að koma að skipulagningu Styrkleikanna. „Tilfinningin er bara svo góð af því þú færð svo mikið af góðu fólki með þér og allir sem taka þátt eru þakklátir og gera það af heilum hug,“ segir Daddi. „Manni leið dálítið eins og rokkstjörnu eftir á,“ segir Berglind. „Við vorum mikið stoppaðar á förnum vegi af fólki sem vildi þakka fyrir sig. Það var alveg dásamlegt að upplifa svona mikla samkennd.“ 

„Það var eiginlega bara heilandi að taka þátt í þessu,“ segir Helena, sem hefur líkt og þau hin reynslu af því að vera aðstandandi oftar en einu sinni. „Það tók okkur dálítinn tíma að skilja hvað þessi viðburður gengi út á og ég vil meina að maður skilji það ekki almennilega fyrr en hann er í gangi. En þegar við fórum að lesa um liðin, hvers vegna þau væru að taka þátt, þá small þetta. Þá sáum við að þar værum við sannarlega að ná markmiðum Styrkleikanna um samkennd og samhug. Fólk er ekki eitt að ganga í gegnum þetta og á heldur ekki að ganga í gegnum þetta eitt.“ 

Hafir þú áhuga á að halda Styrkleika í þinni heimabyggð, hvetjum við þig til að nálgast upplýsingar og aðstoð með því að senda tölvupóst á styrkleikarnir@krabb.is

Myndband frá Styrkleikunum á Húsavík 2025