Beint í efni

Mál­þing Perlu­vina um mergæxli

Perluvinir, eitt aðildarfélaga Krabbameinsfélagins, stóðu á dögunum fyrir málþingi um mergæxli, í samvinnu við Háskóla Íslands og Landspítala.

Perluvinir, eitt aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins, er félag þeirra sem greinst hafa með mergæxli (multiple myeloma) og aðstandenda þeirra. Félagið sinnir margs konar fræðslu um mergæxli og hefur undanfarin ár meðal annars staðið fyrir ráðstefnum í samvinnu við International Myeloma Foundation (IMF) þar sem félagsmenn og aðrir áhugasamir geta fræðst um aukaverkanir, nýjustu meðferðir, þjónustu og annað.

„Tilgangurinn er fyrst og fremst að fræða okkur sjálf og efla okkur til að geta fylgst betur með okkar sjúkdómi og meðferð,“ segir Kristín Einarsdóttir, formaður Perluvina, sem hélt erindi um aukaverkanir og bjargráð við þeim á málþinginu. „Þegar ég greindist sjálf árið 2013 vissi hvorki ég né neinn annar sem ég talaði við hvað mergæxli væri eiginlega.“

Mikil vitundarvakning orðið

Málþingið var haldið í húsi Íslenskrar erfðagreiningar þann 14. október síðastliðinn og var vel sótt, en um 50 manns mættu til að hlýða á fjölbreytt erindi. Sigurður Yngvi Kristinsson, læknir og prófessor, hóf málþingið með erindi sínu um einkenni, meðferðir og nýjungar í lyfjameðferð. Hann hélt einnig annað erindi um það sem er framundan í tengslum við verkefnið Blóðskimun til bjargar, einkum í tengslum við mergsýnatöku.

„Sú rannsókn hefur haft gífurlega jákvæð áhrif,“ segir Kristín. „Það hefur orðið vitundarvakning og í dag þekkja miklu fleiri til sjúkdómsins. Þetta er orðið eitt af því sem er alltaf skoðað þegar fólk er með óræð einkenni og það skiptir auðvitað mjög miklu máli.“

Auk þeirra Sigurðar og Kristínar hélt Kjartan Þorri Kristjánsson, læknanemi, erindi um tengsl líkamsþyngdar við mergæxli og forstig þess. Fundarstjóri við Guðrún Agnarsdóttir, fyrrverandi forstjóri Krabbameinsfélags Íslands og Kjartan Gunnarsson, stjórnarmeðlimur Perluvina, flutti lokaorð.

  • Mynd af fyrirlesara