Lífið er alls konar og þú ræður hvernig þú tekst á við það
Nína Elísabet Sandberg missti báða foreldra sína úr krabbameini og greindist sjálf fyrir ári síðan með ólæknandi krabbamein. Fyrst upplifði hún vonleysi, en hugsar nú öðruvísi og segist sjálf stjórna því hvernig hún tekst á við allt sem lífið hefur upp á að bjóða.
„Þegar ég fékk að vita að ég væri með ólæknandi krabbamein var eins og það lokaðist svört hurð fyrir framan mig,“ segir Nína Elísabet. „Ég var svo stillt inn á það að ég hefði bara þrjá mánuði eftir til að lifa. En svo byrjaði ég á lyfjum og fann út úr því að það er hægt að lifa með ólæknandi krabbameini og þá fór ég að hugsa öðruvísi.“
Fyrir Nínu Elísabetu er mikilvægt að halda áfram að lifa nokkuð óbreyttu lífi, mæta til vinnu, halda áfram að æfa og hitta vini og fjölskyldu sem mest. „Það getur breyst ef mér fer að líða verr, en það er það sem ég vil gera akkúrat núna.“ Viðhorf hennar er að hún sjálf hafi mikið um það að segja hvernig henni líður. „Það er bara í boði að fara í sturtu og hafa sig til og þá verður dagurinn miklu betri. Og hann verður alltaf betri. Lífið er alls konar og þú þarft bara að takast á við það. En þú ræður því hvernig, enginn annar.“
Viðtalsupptaka Nínu Elísabetar Sandberg
Sendir Bleiku slaufuna alltaf til Svíþjóðar
Þau fjölskyldan hafa nýtt sér þjónustu Krabbameinsfélagsins strax frá upphafi. „Ég er afar þakklát fyrir hvað Krabbameinsfélagið greip mig bara strax,“ segir Nína Elísabet. „Daginn eftir að ég fékk greiningu fékk ég tíma hjá Krabbameinsfélaginu, sem gjörsamlega bjargaði mér.“ Hún hefur líka sterka og hjartnæma tengingu við Bleiku slaufuna.
„Ég keypti Bleiku slaufuna hvert einasta ár og sendi til Svíþjóðar til mömmu eftir að hún greindist 2015. Henni fannst svo skemmtilegt að vera í Svíþjóð með bleiku slaufuna frá Íslandi. Hún var svo stolt og fór með hana í partý og í vinnuna og út um allt. Þegar mamma féll frá ákvað ég að halda áfram og hef keypt Bleiku slaufuna handa bestu vinkonu hennar. Ég geri það enn í dag og sendi til Svíþjóðar.“