Krabbamein - hafa allir sömu möguleika?
Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn er í dag 4. febrúar. Dagurinn er alþjóðlegur árveknidagur um krabbameinstengd málefni. Á vegum UICC - Alþjóðasamtaka gegn krabbameinum er áherslan þriðja árið í röð lögð á að draga úr ójöfnuði í tengslum við krabbamein, enda málið brýnt.
Jöfnuður í heilsu ríkir þegar ólíkir hópar fólks búa við jafn góða heilsu. Leiðirnar að því marki eru margar og felast meðal annars í að allir hafi jafnt aðgengi að upplýsingum og þjónustu. Það þýðir ekki að bjóða eigi öllum sömu þjónustu eða upplýsingar heldur þvert á móti að beita þarf fjölbreyttum leiðum til að allir sitji við sama borð. Með öðrum orðum, veita þarf upplýsingar, stuðning og þjónustu í réttu hlutfalli við þarfir hvers og eins.
Talsverður ójöfnuður í tengslum við krabbamein hefur komið í ljós í rannsóknum á Norðurlöndunum og birtist meðal annars í því að lífshorfur fólks með krabbamein eru betri ef félagsleg staða þess er sterk. Fátt bendir til þess að ójöfnuður sé minni hérlendis en í nágrannalöndunum. Í skýrslu Landlæknisembættisins, Ójöfnuður í heilsu á Íslandi, frá 2021 kemur fram að sterk tengsl eru milli heilsu og félagslegrar stöðu. Til dæmis býr fólk sem hefur hærra menntunarstig og/eða tekjur að jafnaði við betri heilsu en þeir sem hafa minni menntun og tekjur. Fólk sem býr með öðrum býr einnig að jafnaði við betri heilsu en þeir sem búa einir.
Jöfnuður kallar á fjölbreytta nálgun
Þegar rætt er um jöfnuð í tengslum við krabbamein þarf að huga að mörgu, til dæmis forvörnum, greiningu, meðferð og lífsgæðum fólks. Allir þurfa að hafa sömu tækifæri til að haga lífsvenjum sínum þannig að þær dragi úr líkum á krabbameinum, til dæmis að hafa ráð á að kaupa hollan mat, að hafa sömu möguleika á að krabbamein séu greind snemma með greiðu aðgengi að heilsugæslu þegar einkenna verður vart og bjóðast meðferðir, stuðningur og eftirfylgd við hæfi. Þetta er margþætt og flókið, jafnvel þannig að erfitt er að átta sig á hvar eða hvernig best sé að bera niður en nauðsynlegt til að tryggja hámarksárangur.
Til að auka líkur á að þjónusta Krabbameinsfélagsins nýtist öllum, óháð búsetu, tekjum eða uppruna, býður félagið fólki með krabbamein og aðstandendum þess gjaldfrjálsa ráðgjöf sálfræðinga, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga. Þjónustan er einnig í boði á ensku og pólsku til viðbótar við íslensku. Boðið er upp á fjarþjónustu sem nýtist þeim sem búa á landsbyggðinni. Talsvert af fræðsluefni félagsins er einnig í boði á fleiri en einu tungumáli, bæði prentuðu efni og á vef og fleira má nefna. Til að geta beitt sér í hagsmunagæslu starfrækir félagið Notendaráð þeirra sem hafa fengið krabbamein og aðstandenda sem veitir dýrmæta innsýn í það sem brennur á fólki.
Með rannsóknum sínum stuðlar félagið að aukinni þekkingu um áhrif ójöfnuðar, með það fyrir augum að hægt sé að bregðast við. Félagið hefur til dæmis með rannsókninni Áttavitanum rannsakað reynslu fólks af greiningu og meðferð, til að greina þætti þar sem úrbóta er þörf. Tilraunaverkefni félagsins tengt jöfnuði og krabbameinsskimunum, fyrir nokkrum árum, sýndi ótvírætt gildi gjaldfrjálsra skimana, þar sem umtalsverður hluti þátttakenda í verkefninu sagðist hafa þegið boð í skimun einungis vegna þess að hún var ókeypis. Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins leggja sömuleiðis sitt af mörkum til að jafna aðstöðumun þeirra sem þurfa að sækja krabbameinsþjónustu yfir langan veg, m.a. með endurgreiðslu kostnaðar og með því að bjóða upp á starfsemi í nærsamfélagi.
Aðgerða er þörf
Á vegum stjórnvalda er margt sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja að ekki halli á ákveðna hópa. Svo eitthvað sé nefnt má nefna að grípa þarf til ákveðnari aðgerða til að auka mætingu kvenna í krabbameinsskimun, sérstaklega kvenna af erlendum uppruna. Nýleg norræn rannsókn leiddi í ljós að bilið milli þátttöku innfæddra kvenna og kvenna af erlendum uppruna var langstærst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum, eða 60%. Að auki er almenn þátttaka kvenna í skimunum fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum minni hérlendis en á hinum Norðurlöndunum. Meðal aðgerða sem geta stuðlað að aukinni mætingu er að lækka til muna eða fella niður gjald fyrir brjóstaskimun, sem er 10 sinnum hærra en gjald fyrir leghálsskimun, og að úthluta fyrirframbókuðum tímum með boðum í skimun. Samhliða þarf að beita öllum leiðum til að fræða fólk af ólíkum uppruna um mikilvægi skimana.
Lýðgrundaðri skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi er brýnt að koma á hið fyrsta. Mjög lengi hefur verið unnið að verkefninu og þrátt fyrir að margir hafi sjálfir frumkvæði að því að fara í ristilspeglun upp úr fimmtugu er hætt við að það eigi fyrst og fremst við ákveðna hópa. Þá er afar mikilvægt að allt frá því að einkenni sem geta bent til krabbameina gera vart við sig séu til staðar skýr, stöðluð og aðgengileg ferli sem auðvelda fólki að fóta sig í krefjandi aðstæðum og koma í veg fyrir að fólk falli milli skips og bryggju.
Árangur til framtíðar
Verkefnin eru bæði mörg og brýn, en með því að tryggja að alls staðar í kerfinu sé meðvitund um mikilvægi þess að allir sitji við sama borð, óháð uppruna, búsetu, menntun eða öðru, er hægt að auka jöfnuð og þar með árangur. Markmið Krabbameinsfélagsins eru að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein. Að því miðar öll starfsemi félagsins og leggur félagið mikla áherslu á að vera vakandi fyrir ójöfnuði og að grípa til aðgerða hvar sem færi gefst.
Að mati félagsins er virk, tímasett og fjármögnuð krabbameinsáætlun lykiltæki stjórnvalda til að vinna gegn ójöfnuði í tengslum við krabbamein. Félagið á fulltrúa í samráðshópi stjórnvalda sem hefur það verkefni að útbúa aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum til næstu fimm ára. Félagið mun leggja sig fram um að þekking þess og reynsla sjúklinga og aðstandenda nýtist til að byggja framsækna og markvissa aðgerðaáætlun þar sem sjónarmið um jöfnuð eru höfð að leiðarljósi.
World Cancer day