Beint í efni

Kíró­prakt­or­stöð­in styrk­ir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Sóley Björg Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi Kíróprakstorsstöðvarinnar, segir hugmyndina hafa komið til vegna þess að málefnið stendur nærri eigendum og starfsfólki stöðvarinnar. „Við erum ekki vön að halda opna viðburði, en þegar hugmyndin kom upp var strax tekið mjög vel í hana. Einn af eigendum stöðvarinnar hefur sjálfur misst nákominn ættingja úr brjóstakrabbameini og margir hafa tengingu við málstaðinn, svo hugmyndin kom í rauninni beint frá hjartanu.“

Þátttaka fram úr björtustu vonum

Konukvöldið var haldið 19. október og var umgjörðin öll hin glæsilegasta. Hönnuðir Bleiku slaufunnar mættu á svæðið ásamt fulltrúum Krabbameinsfélagsins, Ragga Hólm þeytti skífum og boðið var upp á léttar veitingar og drykki. Fyrstu gestir kvöldsins voru leystir út með gjafapokum, auk þess sem staðið var fyrir veglegu happdrætti. Fjölmörg fyrirtæki gáfu vinninga og rann ágóðinn óskiptur til Bleiku slaufunnar.

Sóley Björg segir þátttökuna hafa farið fram úr björtustu vonum. „Við höfum áður haldið viðburði sem hafa verið auglýstir innanhúss og sóttir af okkar viðskiptavinum, en þetta er í fyrsta sinn sem við höldum svona opinn styrktarviðburð. Við vissum ekki alveg við hverju við ættum að búast, áttum til dæmis von á að fólk myndi vera að tínast inn fram eftir kvöldi, en fimm mínútum áður en viðburðurinn átti að hefjast var húsið orðið fullt. Við áætlum að um 200 manns hafi tekið þátt í viðburðinum og það var reglulega gaman að sjá svona mörg ný andlit.“

Láta áfram til sín taka í þágu góðra verkefna

Einkunnarorð Kírópraktorstöðvarinnar eru bætt lífsgæði og segir Sóley Björg viðburð á borð við þennan falla einstaklega vel að stefnu stöðvarinnar um bætt heilbrigði og betri heilsu landsmanna. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt og við fundum það þegar við vorum að kynna viðburðinn fyrir okkar viðskiptavinum að þetta snerti svo marga. Allt starfsfólkið var tilbúið að leggja hönd á plóg og þetta hafði því góð áhrif á hópinn, sem þó var þéttur fyrir.“ Sóley Björg bætir að endingu við að starfsfólk Kírópraktorstöðvarinnar sé þegar byrjað að huga að því hvernig þau geti látið til sín taka í þágu góðra verkefna á næsta ári.

Krabbameinsfélagið þakkar Kírópraktorstöðinni enn og aftur fyrir framtakið og fyrir að hugsa hlýlega til félagsins. Framlög til Bleiku slaufunnar nýtast meðal annars til að veita endurgjaldslausan stuðning og ráðgjöf við þá sem greinast með krabbamein, aðstandendur og syrgjendur, til rannsókna á krabbameinum, forvarna og fræðslu.