Beint í efni

„Kíkju­gata­að­gerð“ við lungna­krabba­meini stytt­ir legu­tíma um helm­ing

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Á dögunum birtist í tímaritinu Interdisciplinary CardioVascular and Thoracic Surgery (ICVTS) vísindagrein um árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Aðgerðin, sem einnig kallast VATS-blaðnám, er nýjung sem tekin var upp hér á landi fyrir 5 árum, nánast á einni nóttu, og hefur í 90% tilfella tekið við af brjóstholsskurði sem krefst flóknari verkjastillingar. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming.

Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið sem greinist í körlum á Íslandi og í þriðja sæti hjá konum, en reykingar eru taldar skýra 85% tilfella. Skurðaðgerð, þar sem æxlið er fjarlægt með umlykjandi lungnavef, er helsta og best rannsakaða læknandi meðferðin. Kemur hún til greina hjá u.þ.b. þriðjungi sjúklinga en annars er beitt lyfja- og/eða geislameðferð. Oftast er gert svokallað blaðnám, þ.e. eitt af þremur blöðum hægra lunga eða annað af tveimur blöðum vinstra lunga er fjarlægt. Hefðbundið er að gera slíka aðgerð í gegnum 12-14 sm brjótholsskurð og er komist að lunganu með því að glenna rif í sundur, sem er sársaukafullt og gerir verkjameðferð flóknari. Því var um mikla framför að ræða þegar svokallað VATS-blaðnám (e. video-assisted thoracopic surgery) kom til sögunnar. Þá er notast við brjóstholssjá sem tengd er við sjónvarp og aðgerðin gerð í gegnum þrjá litla skurði sem eru frá 0,5-4 sm langir. Ekki þarf deyfilegg inn að mænutaugum þar sem rif eru ekki glennt í sundur sem styttir legutíma. Á hinn bóginn eru VATS-aðgerðir mun tæknilega flóknari en brjóstholsskurði er þó enn beitt við stærstu æxlin og þau sem vaxin eru inn í æðar.

Við VATS-blaðnám er notast við brjóstholssjá sem tengd er við sjónvarp og aðgerðin gerð í gegnum þrjá litla skurði sem eru frá 0,5-4 sm langir. Ekki þarf deyfilegg inn að mænutaugum þar sem rif eru ekki glennt í sundur sem styttir legutíma.

Rannsóknin í tímaritinu Interdisciplinary CardioVascular and Thoracic Surgery náði til 147 VATS-blaðnámsaðgerða á Landspítala á 4 ára tímabili, 2019-2022. Allir sjúklingarnir lifðu af aðgerðina og reyndist tíðni alvarlegra fylgikvilla mjög lág (2,7%) og lægri en eftir blaðnám með brjóstholsskurði. Sama átti við um viðvarandi loftleka, sem er langalgengasti fylgikvilli lungnaaðgerða en ekki lífshættulegur. Lækkaði tíðni hans umtalsvert og átti stærstan þátt í að legutími styttist í 4 daga borið saman við 9 daga eftir blaðnám með brjóstholsskurði. Þessi stytting legutíma hefur gert kleift að framkvæma mun fleiri lungnakrabbameinsaðgerðir í færri leguplássum en áður og því sparað umtalsvert fé.

Með því að greina frá jákvæðri reynslu af innleiðingu VATS-blaðnámsaðgerða er það von höfunda rannsóknarinnar að fleiri stofnanir erlendis taki upp þessa tegund aðgerða, jafnvel þótt um ekki stærri sjúkrahús en Landspítala sé að ræða.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Viktor Ásbjörnsson, læknanemi á 4. ári við Læknadeild HÍ, en hann hefur unnið að rannsókninni með fram námi síðastliðin tvö ár. Leiðbeinandi hans í verkefninu, sem unnið var við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, var Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir og prófessor við Læknadeild HÍ.

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina.

Hér má nálgast greinina

Viktor Ásbjörnsson, læknanemi á 4. ári við Læknadeild HÍ, er fyrsti höfundur greinarinnar sem birtist í Interdisciplinary CardioVascular and Thoracic Surgery (ICVTS).

Háskóli Íslands: „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming | Háskóli Íslands (hi.is).Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins

Á sjö árum (2017-2023) hefur Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins veitt 83 styrki, alls 455,5 milljónir króna, til 45 rannsókna. Síðast var úthlutað úr sjóðnum 21. júní 2023.

Hér má lesa um allar rannsóknirnar sem hlotið hafa styrki.