Jóga Nidra djúpslökun
Tilgangur hugleiðslunnar er að vinna með slökun líkamans og fara inn í djúpa kyrrð og ró.
Jóga Nidra hugleiðsla hentar til að draga úr streitu, hægja á hugsunum og bæta svefn. Við hvetjum þig að taka tíma frá fyrir þig og koma þér vel fyrir á rólegum stað þar sem þú verður ekki fyrir truflun, helst í liggjandi stöðu (eða sitjandi í stól) með lokuð augu, púða undir höfði og hnésbótum og njóta hugleiðslunnar.
Hugleiðslan virkjar heilunarmátt líkamans, losar um venjur og viðbrögð líkama og huga. Þú sleppir tökum á hugsunum og hverfur til bakgrunnsins þar sem þú hvílir í eigin vitund. Ásamt því að opna á orkuflæði líkamans, finnurðu aukið jafnvægi og hugarró tengt viðbrögðum og venjum daglegs lífs.
Í Jóga Nidra djúpslökun sefur líkaminn en undirmeðvitundin vakir. Ef þú sofnar, mundu að þú getur alltaf komið rólega til baka að röddinni sem leiðir hugleiðsluna. Þér á fyrst og fremst að líða vel, því þessi stund er fyrir þig, aðeins þig. Gott er að hafa teppi eða sæng yfir sér þar sem líkaminn kólnar í Joga Nidra.
Hér má hlýða á Jóga Nidra djúpslökun.
Ólafur Sigvaldason er Jóga Nidra kennari og eigandi Míró/Svefn yoga í Lífsgæðasetri St. Jó. í Hafnarfirði. Hann hefur m.a. lokið framhaldsnámi í Jóga Nidra fræðum hjá Kamini Desai, I am Yoga Nidra og heldur hann reglulega námskeið í Lífsgæðasetrinu. Heimasíða Svefn yoga ersvefnyoga.is.
Krabbameinsfélagið býður upp á ráðgjöf og stuðning við þá sem hafa greinst með krabbamein, aðstandendur og þá sem misst hafa ástvin úr krabbameini, þeim að kostnaðarlausu.
Hafðu samband í síma 800 4040 eða á radgjof@krabb.is.