Beint í efni
Stína sterka

Hver var Stína sterka – Krist­ín Björns­dótt­ir?

Velgjörðafólk Krabbameinsfélagsins er gríðarlega margt og láta sumir jafnvel til sín taka eftir sinn dag. Við hvetjum öll til að stilla á Rás 1 klukkan 10:15 sunnudaginn 3. ágúst og 11:15 mánudaginn 4. ágúst og kynnast sögu Kristínar Björnsdóttur sem átti stóran þátt í stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins.

Lífshlaup Kristínar Björnsdóttur var ævintýralegt, en hún var sannkallaður kvenskörungur og starfaði í áratugi fyrir Sameinuðu þjóðirnar í New York. Hún fór ung að heiman og á millistríðsárunum flutti hún erlendis, fyrst til Englands þar sem hún starfaði m.a. sem fyrirsæta og síðar til Frakklands þar sem hún vann við að gæta barna. Í stríðsbyrjun fluttist hún til Ítalíu og átti þar eftir að kynnast hörmungum styrjaldarinnar af eigin raun.

Kristín ánafnaði Krabbameinsfélaginu veglegri erfðagjöf sem rann inn í Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins og átti þannig stóran þátt í stofnun hans. Vilji Kristínar var að með hennar gjöf væri hægt að styðja við rannsóknir á krabbameinum hjá börnum og umönnun barna með krabbamein. Er það því m.a. að hennar upplagi að samkvæmt skipulagsskrá ber Vísindasjóðnum að styrkja slík verkefni sérstaklega.

Lífshlaup Kristínar er til umfjöllunar í tveimur þáttum á dagskrá Rásar 1 sem bera heitið Stína sterka – Arfleifð heimskonu. Fyrri þátturinn er á dagskrá klukkan 10:15 sunnudaginn 3. ágúst og sá síðari klukkan 11:15 mánudaginn 4. ágúst. Umsjón með þáttunum hefur Guðrún Hálfdánardóttir og á meðal viðmælenda er Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Myndin af Kristínu sem fylgir fréttinni er fengin frá Rúv.

Stofnun Vísindasjóðsins hefur verið lýst sem byltingu í krabbameinsrannsóknum á Íslandi og með áframhaldandi styrkveitingum Krabbameinsfélagsins og annars öðlingsfólks eins og Kristínu til sjóðsins, hefur Krabbameinsfélagið getað veitt 655,5 milljónum til krabbameinsrannsókna á Íslandi í gegnum sjóðinn.