Hjörtun slógu í takt á Opnunarhátíð Bleiku slaufunnar
Það er alltaf einstök stemming sem ríkir á Opnunarhátíð Bleiku slaufunnar. Það er erfitt að lýsa henni með orðum, maður verður eiginlega að koma og upplifa á eigin skinni. Það er andað í takt, hlegið í takt og það tekur í hjörtun í takt.
Opnunarhátíð Bleiku slaufunnar fór fram 2. október í Háskólabíói, sem var umvafið bleikum ljóma. Húsið opnaði kl. 18:00 og gestir létu ekki bíða eftir sér. Undir tónum frá Dj. Dóru Júlíu streymdu þeir að til að kynna sér vörur og þjónustu samstarfsaðila til styrktar átakinu.



Á stóra sviðinu tók svo við fjölbreytt dagskrá. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, fór stuttlega yfir starfsemi félagsins og mikilvægi Bleiku slaufunnar sem árverkni- og fjáröflunarátaks í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Í ár er sjónum beint að aðstandendum undir slagorðinu „Þú breytir öllu“. Vakin er athygli á aðstæðum þeirra og þeim þakkað fyrir það mikilvæga hlutverk sem þeir gegna í alvarlegum veikindum.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, flutti stutt ávarp þar sem hún hvatti til samstöðu með málstaðnum og að fólk sýndi hvert öðru samhug og hlýju. Sigga Soffía, hönnuður Bleiku slaufunnar 2024, sem sjálf hefur reynslu af því að fá krabbamein, sagði frá hugmyndinni og ferlinu á bak við slaufuna. Var henni þakkað kærlega fyrir sitt mikilvæga framlag.
Heiðurinn af útliti átaksins í ár á auglýsingastofan TVIST. Þau, ásamt framleiðslufyrirtækinu Norður, með leikstjórann Álfheiði Mörtu í fararbroddi eiga heiðurinn af auglýsingu herferðarinnar. Auglýsingin segir frá tímaskeiði í lífi konu sem greinist með krabbamein og þann stuðning sem hún fær frá sínu nánasta fólki í gegnum erfiða og krefjandi tíma.
Sjáðu auglýsingu Bleiku slaufunnar 2024 - Þú breytir öllu
Næst steig á svið frábært tónlistarfólk, þau Jón Ólafsson, Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson og fluttu nokkur lög af sinni alkunnu snilld.
Að því loknu var kvikmyndin „We live in Time” frumsýnd. Í henni segir frá Almut og Tobias sem verða ástfangin, stofna fjölskyldu og takast síðar á við erfiða áskorun sem breytir lífi þeirra varanlega og kennir þeim að meta og njóta til fulls hvers augnabliks.



Hér má sjá nokkrar myndir frá kvöldinu en á Facebooksíðu Bleiku slaufunnar getið þið nálgast enn fleiri myndir.
Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til að gera kvöldið ógleymanlegt. Sjáumst að ári.