Beint í efni

Evr­ópu­sam­starf gegn ójöfn­uði skilar ár­angri

Við hjá Krabbameinsfélaginu einsetjum okkur að vera öflugur bakhjarl fólks sem hefur fengið krabbamein og gæta hagsmuna þess af krafti. Einn liður í því er þátttaka í vinnuhópi Evrópsku skráarinnar um ójöfnuð tengdan krabbameinum (ECIR).

Skráin var stofnuð árið 2022 og markmið hennar er fyrst og fremst að vinna að jöfnu aðgengi að krabbameinsþjónustu fyrir alla Evrópubúa. Hún byggir á umfangsmiklum gögnum úr alþjóðlegum gagnabönkum sem notuð eru til að greina þróun, mismun og ójöfnuð milli aðildarríkja, svæða og þjóðfélagshópa. Úr skránni hefur verið gefinn út fjöldi skýrslna, bæði um tiltekin viðfangsefni og eftir löndum. Auk þess er gagnvirkt tæki aðgengilegt á netinu þar sem skoða má krabbamein og ójöfnuð frá ýmsum hliðum.

Gögn veita mikilvæga innsýn

Vinnuhópur skráarinnar fundaði síðast þann 12. nóvember og mikill hugur var í fólki. Helsta niðurstaða fundarins var að verkefnið sé að skila raunverulegum árangri, gögnin veiti mikilvæga innsýn og nýtist til að móta aðgerðir sem draga úr ójöfnuði.

Samkvæmt síðustu landskýrslu fyrir Ísland sem kom út í febrúar 2025 er áætlað nýgengi og dánartíðni af völdum krabbameins tiltölulega lágt á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd, aðgengi að krabbameinsþjónustu tryggt og þátttökuhlutfall í krabbameinsskimunum um og yfir meðaltali þó það sé umtalsvert lægra en á hinum Norðurlöndunum.

Hins vegar eru fjárhagslegar hindranir til staðar í einhverjum tilfellum, þar sem sjúklingar þurfa að greiða fyrir tiltekna grunnþjónustu, auk þess sem þátttökuhlutfall kvenna sem fæddar eru í öðru landi í skimunum hefur lækkað og helst lágt í sumum landshlutum. Vert er að nefna að þegar skýrslan kom út var vinna við að mæta þeim áskorunum yfirstandandi, en hún hefur meðal annars falið í sér að veita betri upplýsingar um skimanir á ýmsum tungumálum og lækka verulega gjald sem tekið er fyrir legháls- og brjóstaskimanir.

Þá er viðbúið að hlutfall krabbameinsþjónustu af heilbrigðisútgjöldum verði hærra á Íslandi en að meðaltali innan Evrópusambandsins vegna þess hvað krabbameinstilfellum mun fjölga hlutfallslega hratt á næstu árum á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd. Einnig er ört hækkandi kostnaður af nýjum krabbameinslyfjum vandamál sem mögulega væri hægt að leysa með samkaupum með öðrum norrænum ríkjum. Notkun samheitalíftæknilyfja gegn krabbameini er jafnframt hlutfallslega minni hérlendis, aðeins um helmingur á við meðaltal innan Evrópusambandsins, og tækifæri til aukins samstarfs við Norðurlöndin til að bæta tímanlegt aðgengi að samheitalíftæknilyfjum.

Von á nýrri skýrslu í byrjun næsta árs

Hrefna Stefánsdóttir, fulltrúi félagsins, segir starf sem þetta mjög mikilvægt fyrir land eins og Ísland. „Bæði til þess að sjá hvar við stöndum samanborið við önnur lönd, en einnig vegna þess að hjá vinnuhópnum fer fram mikilvæg greiningarvinna sem annars hefði ef til vill ekki orðið.“ Hún segir jafnframt von á nýrri skýrslu í byrjun næsta árs um samanburð á krabbameinsþjónustu á milli landa, en í fjórum köflum hennar verður fjallað um nýgengi, biðtíma, gæði og skilvirkni, og notendamiðaða nálgun á veitingu heilbrigðisþjónustu. Skýrslan, auk annars efnis sem unnið er upp úr skránni, geti gagnast stjórnvöldum og öllum sem koma að veitingu krabbameinsþjónustu við ákvarðanatöku.