Einhvern veginn heldur maður alltaf áfram
Helena Gylfadóttir greindist með ólæknandi brjóstakrabbamein sem var búið að dreifa sér í hrygg og mjöðm árið 2023. Hún lætur verki sem hún glímir við daglega ekki aftra sér frá því að lifa lífinu og gera skemmtilega hluti.
„Brjóstakrabbameinið var búið að dreifa sér, komið í hrygginn á mér og beinin í mjöðminni,“ segir Helena Gylfadóttir, sem greindist með ólæknandi brjóstakrabbamein árið 2023. Hún fór með sjúkrabíl á bráðamóttökuna þar sem hryggurinn hafði gefið sig. Þrátt fyrir það segist hún ekki leiða hugann mikið að veikindunum dagsdaglega. „Ég eiginlega hugsa ekkert út í það að ég sé svona veik. Þetta er bara áskorun sem ég þarf að takast á við. Einhvern veginn heldur maður alltaf áfram.“
Viðtalsupptaka Helenu
Fyrst um sinn fannst henni reiðin ætla að taka yfir, en segist sem betur fer hafa náð tökum á henni. Helena hlúir að sér með því að hitta vinkonur og sinna handavinnu og lætur verki sem hún glímir við daglega ekki aftra sér frá því að gera skemmtilega hluti. „Ég er náttúrulega á sterkum verkjalyfjum til þess að lifa út daginn, en ég held að ég sé þannig týpa að ég get ekki setið kyrr,“ segir hún. „Maður er einhvern veginn sáttur þegar maður kemur heim dauðþreyttur eftir að hafa skilað góðu af sér í hjartanu.“
Krabbameinið hlutur sem fellur að lífinu
Hún sótti aðstoð til Krabbameinsfélagsins strax í upphafi og fór á námskeið, auk þess sem hún hitti sálfræðing og félagsráðgjafa. „Þeir hlúðu að mér svona í fyrstu skrefum mínum sem krabbameinssjúklingur,“ segir Helena. Í dag er krabbameinið bara hluti af hennar lífi og hún líkir því við að mæta í vinnuna. „Þetta er bara hlutur sem fellur að lífi mínu í dag. Það er bara rútína hjá mér að mæta í blóðprufu eða segulómun til að passa upp á það að krabbameinið sé ekki að dreifa sér.“
