Dagur sjálfboðaliða er í dag - kærar þakkir
Á degi sjálfboðaliða 5. desember velja Almannaheill sjálfboðaliða ársins úr innsendum tilnefningum frá sínum aðildarfélögum. Í ár tilnefndi Krabbameinsfélagið Jóhönnu Lilju Eiríksdóttur, formann Brakkasamtakanna, fyrir hennar kröftuga framlag.
Jóhanna kom fyrst inn í stjórn Brakkasamtakanna árið 2021 sem varaformaður, en tók við sem formaður félagsins árið 2023. Jóhanna er jákvæð, með mikinn drifkraft og einlægan vilja til að bæta þjónustu og réttindi fólks í aukinni áhættu fyrir krabbameini. Í starfi sínu hefur hún verið sannkallaður brautryðjandi og staðið fyrir öflugri vitundarvakningu og fræðslu.
Árangursrík réttindavarsla
Á meðal þeirra réttindamála sem Jóhanna hefur unnið að og fengið í gegn eru mál tengd greiðsluþátttöku vegna kostnaðar sem fylgir eftirliti og áhættuminnkandi aðgerðum og að Sjúkratryggingar greiði ferðakostnað fyrir fólk utan af landi þrátt fyrir að heilbrigðisstofnun felli niður tíma þegar það er komið á staðinn. Jóhanna býr sjálf í Vestmannaeyjum og sýnir í verki að kröftugri hagsmunabaráttu er hægt að sinna óháð búsetu.
Á tíma Jóhönnu sem formanns Brakkasamtakanna varð átak félagsins „Þreifaðu þann þriðja" einnig að veruleika, þar sem er fólk hvatt til að skoða brjóst sín þriðja dag hvers mánaðar og vera vakandi fyrir breytingum.
Jóhanna hefur auk þess flutt fjölda erinda á fundum og ráðstefnum tengdum málefnum félagsins, en einnig staðið að skipulagi og framkvæmd ráðstefna. Ber þar hæst að nefna ráðstefnuna „Skref fyrir skref" sem Brakkasamtökin og Krabbameinsfélagið stóðu sameiginlega að síðastliðið haust. Í tengslum við ráðstefnuna var fluttur einleikurinn „Why me?" og í fyrsta skipti boðið upp á lokaðan viðburð þar sem konur sem höfðu farið í áhættuminnkandi aðgerðir og uppbyggingar á brjóstum sýndu brjóst sín og sátu fyrir svörum.
Dýrmætt framtak sjálfboðaliða
Nánast daglega varðar starfsemi almannaheillasamtaka líf okkar á einhvern hátt og að baki slíkum félögum stendur iðulega fólk eins og Jóhanna, sem hefur brennandi áhuga á að láta gott af sér leiða og drifkraftinn til að láta hendur standa fram úr ermum. Margt af því sem okkur þykir sjálfsagt í dag er afrakstur frumkvæðis og vinnuframlags sjálfboðaliða. Það er því við hæfi á þessum degi að staldra við og hugsa með hlýju til allra sem leggja með þessum hætti sitt af mörkum til að móta samfélagið.
Krabbameinsfélagið þakkar Jóhönnu og öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins og aðildarfélögum þess af heilum hug þeirra mikilvæga framlag. Til hamingju með daginn!
