Börnin á Brekkuborg láta gott af sér leiða
Í vikunni sem leið lögðu starfsmenn Krabbameinsfélagsins í skemmtilega ferð á leikskólann Brekkuborg í Grafarvogi þar sem afar vel var tekið á móti þeim. Tilefnið var að taka við 55.040 króna styrk sem börnin höfðu safnað í Bleikum október.
Okkur hjá Krabbameinsfélaginu langaði að vita hvernig þetta kom til að krakkarnir hófu þessa söfnun. Að sögn Marcel Radix, deildarstjóra á Brekkulaut, byrjaði umræðan þegar börnin sáu alla starfsmenn leikskólans með Bleiku slaufuna. „Þau voru forvitin og vildu vita af hverju allir væru með þessa slaufu. Við á Brekkulaut, elsta árgangi skólans, útskýrðum fyrir börnunum að þetta væri til að styrkja Krabbameinsfélagið, svo þau gætu m.a. styrkt rannsóknarvinnu til að lækna krabbamein,” segir Marcel.
Þá langaði börnunum líka að fá slaufur en því miður var ekki hægt að kaupa slaufu fyrir hvern og einn. Í kjölfarið hófst umræða um hvað þau gætu gert til að safna peningum til að styrkja Krabbameinsfélagið. „Fyrst kom hugmynd frá barni um að selja dótið sitt, en annað barn sagði frá því að stóri bróðir hefði safnað flöskum til að safna fyrir ferð með íþróttafélagi. Þar væri kannski komin hugmynd sem þau gætu nýtt. Þegar við ræddum hugmyndina við hinar deildirnar á Brekkuborg var ljóst að allir tóku vel í hugmyndina og var ákveðið að safna dósum og flöskum vikuna 16. til 20. október.”
Skólinn var skreyttur með allskyns bleikum skreytingum og ein ruslafata sett í fataklefanntil að safna flöskunum í. Allar deildir (Brekkulaut, Brekkulund, Brekkulyng og Brekkulind) tóku þátt i söfnuninni. Fljótlega varð ljóst að fatan var ekki nógu stór fyrir allt flöskuflæðið. Á Bleika deginum, 20. október, var flöskufjallinu fagnað með bleiku balli og bleikri köku í síðdegishressingu.
„Þegar öllum flöskunum var skilað í endurvinnsluna var niðurstaðan að safnast höfðu 55.040 kr. sem var eiginlega tífalt meira en við vorum að búast við þegar við byrjuðum á söfnuninni. Við erum afar stolt af þessum flottu krökkum og frábæra foreldrahóp,” segir Marcel að lokum.
Krabbameinsfélagið þakkar þessum frábæru krökkum og starfsfólki Brekkuborgar kærlega fyrir stuðninginn, góðar móttökur og fallegan söng.