Blómlegt starf í Bleikum október
Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins stóðu fyrir fjölmörgum feiknaflottum viðburðum um land allt í október. Við erum stolt af þeirra góða starfi og þökkum kærlega fyrir samstarfið nú sem endranær.
Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins eru 27 talsins, 20 svæðafélög sem starfa víðs vegar um landið og sjö stuðningsfélög. Starfsemi þeirra er mismikil og áherslur ólíkar milli félaga en öll vinna þau ötullega í þágu einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra og miðast við að vera þeim bæði félagslegt og fjárhagslegt bakland eftir þörfum.
Samhliða Bleiku slaufunni er mikið um að vera hjá félögunum og víða staðið fyrir stórum viðburðum sem hafa fyrir löngu fest sig í sessi sem árlegir og ómissandi. Um land allt eru fallegar byggingar sveipaðar bleikum ljóma og fólk safnast saman til að hlýða á hugvekjur og reynslusögur, nýtur samveru hvors annars og skemmtir sér saman. Við fjöllum hér um nokkra eftirminnilega viðburði í mánuðinum og deilum með ykkur myndum með góðfúslegu leyfi aðildarfélaganna.
Fjórar kynslóðir í bleiku boði í Skagafirði
Í tilefni af bleikum október stóð Krabbameinsfélag Skagafjarðar fyrir styrktarviðburði á Löngumýri. Boðið var upp á súpu, söng og skemmtun úr héraði, auk þess sem sr. Halla Rut Stefánsdóttir sagði frá reynslu sinni af því að lifa með ólæknandi krabbamein. Viðburðinn sótti meðal annarra góðra gesta María Sjöfn Jónsdóttir. María Sjöfn er ung stúlka með hjartað á réttum stað því hún tók það upp hjá sjálfri sér að búa til armbönd og selja til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar. Með henni á viðburðinum voru mamma hennar, ömmur og langamma og því fjórar kynslóðir þar samankomnar.
Kyrrðarstundir í bleikum rökkurgöngum
Krabbameinsfélag Borgarfjarðar hefur tvinnað saman bleikar messur og rökkurgöngur undanfarin ár og stóðu fyrir þremur slíkum viðburðum í mánuðinum. Í bleikum rökkurgöngum fá þátttakendur bleika filmu til að setja yfir vasaljós og síðan er gengið í þögn og hugleiðslu að fyrirfram ákveðnum stað þar sem staldrað er við og haldin stutt kyrrðarstund. Á viðburðunum var tvinnað saman hugvekjum og reynslusögum, auk þess sem Krabbameinsfélag Borgarfjarðar kynnti starfsemi sína og minnti konur á mikilvægi þess að sinna skimun.
Fullt hús á Kröftugri kvennastund
Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, héldu sína fjórðu Kröftugu kvennastund þann 29. október. Viðburðurinn er haldinn í tilefni af Bleiku slaufunni og tileinkaður ungum konum sem þekkja af eigin raun glímuna við krabbamein. Þær Sara Ísabella Guðmundsdóttir, Hildur Björnsdóttir og Arna Ösp Herdísardóttir sögðu á einlægan hátt frá sinni reynslu og frásagnir þeirra létu engan í salnum ósnortinn. Viðburðurinn er dýrmætur vettvangur fyrir konur til að hlýða á reynslu annarra sem hafa verið í þeirra sporum og finna samhug hver með annarri.
Fjölmennt í bleikri messu í Grundarfjarðarkirkju
Krabbameinsfélag Snæfellsness tók þátt í bleikri messu í Grundarfjarðarkirkju þann 15. október. Þar deildi Lísa Ásgeirsdóttir reynslu sinni af krabbameini og Kirkjukór Grundarfjarðar söng ljúfa tóna. Eftir messu var boðið upp á samverustund í safnaðarheimilinu. Þar var hægt að fá bleikar vöfflur með bleikum rjóma sem Selma Rut Þorkelsdóttir kirkjuvörður útbjó. Viðburðurinn var vel sóttur og mikil ánægja meðal viðstaddra með hvernig til tókst.


Á döfinni
Október er liðinn en aðventan er handan við hornið og mörg félög standa fyrir aðventuviðburðum í aðdraganda jóla. Við hvetjum áhugasöm til að kynna sér það sem er á döfinni hjá sínu félagi. Nánari upplýsingar má nálgast í viðburðadagatali, en við hvetjum ykkur einnig til að fylgja facebook-síðum félaganna þar sem auglýsingar fyrir viðburði eru jafnan birtar.



