Beint í efni
Mynd af Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, Hólmfríði Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Blue Lagoon Skincare, Hrefnu Stefánsdóttur, sérfræðingi hjá Krabbameinsfélaginu og Árna Reyni Alfredssyni, forstöðumanni fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.

Bláa Lón­ið styrk­ir Vís­inda­sjóð Krabba­meins­fé­lags­ins um rúm­ar 5 millj­ón­ir króna

Líkt og fyrri ár studdi Bláa Lónið Krabbameinsfélagið með þátttöku í Bleiku slaufunni sem er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Bláa Lónið hefur veitt verkefnum Krabbameinsfélagsins mikilvægan stuðning í rúman áratug. 

Hluti af sölu varasalva Blue Lagoon Skincare síðastliðinn október rann eins og fyrri ár til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins. Að þessu sinni söfnuðust 5.146.113 krónur sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, og Hólmfríður Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Blue Lagoon Skincare, afhentu Krabbameinsfélaginu.

„Það er okkur hjá Bláa Lóninu mikilvægt að styðja við samfélagsverkefni sem þetta og vinnur Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins gríðarmikilvægt starf sem er samfélaginu öllu til góða. Það er okkur einlæg ánægja að geta veitt jafnmikilvægu verkefni árlegan fjárstuðning" segir Grímur.

Bláa Lónið hefur á árunum 2012-2025 veitt um 42 milljónir króna til rannsókna á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga og hefur verið einn af helstu stuðningsaðilum Vísindasjóðsins allt frá stofnun. Tilgangur Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum. 

„Stuðningur Bláa Lónsins hefur verið okkur mjög mikilvægur. Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur veitt 655,5 milljónum króna til 63 íslenskra krabbameinsrannsókna frá árinu 2017 og Bláa Lónið á drjúga hlutdeild í því framlagi," segir Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu. 

„Við hjá Blue Lagoon Skincare erum stolt af því að geta stutt Krabbameinsfélagið og er ánægjulegt að sjá viðskiptavini endurtekið kaupa varasalvann í október til að styrkja gott málefni. Framtakinu var vel tekið og salan mun meiri í ár en í fyrra, sem er okkur mikill innblástur, auk þess sem sérhönnuðu bleiku umbúðirnar vöktu mikla athygli,” segir Hólmfríður Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Blue Lagoon Skincare. 

  • Nánari upplýsingar um Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins og rannsóknirnar sem styrktar hafa verið má nálgast hér

Meðfylgjandi er mynd af Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, Hólmfríði Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Blue Lagoon Skincare, Hrefnu Stefánsdóttur, sérfræðingi hjá Krabbameinsfélaginu og Árna Reyni Alfredssyni, forstöðumanni fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.