Beint í efni
Thelma Björk og Hjálmar Örn við Tjörnina

Ára­móta­kveðja - Hjálm­ar Örn og Thelma Björk gera upp árið með Krabba­meins­fé­lag­inu

Hjartans þakkir fyrir hlýhug, samstarf og stuðning á árinu sem er að líða.

Í lok árs er alltaf gott að líta um öxl. Við settumst niður með söguhetjum Mottumars og Bleiku slaufunnar, þeim Hjálmari Erni Jóhannssyni, skemmtikrafti og hlaðvarpsstjórnanda, og Thelmu Björk Jónsdóttur, hönnuði, og spurðum þau út í árið með Krabbameinsfélaginu, lífið og tilveruna, áramótin, hjartaáfallið og símtalið um að hafa verið valin sem næsti hönnuður Bleiku slaufunnar.

„Ég hugsaði bara að þetta væri stærsta verkefni sem ég hefði fengið,“ segir Thelma Björk um þátttökuna í Bleiku slaufunni. „Ef ég hefði hugsað fyrir fimm árum, eða tíu eða eitthvað, að ég ætti eftir að hanna Bleiku slaufuna, bara glætan. En ég trúi því að allt svona sem bara kemur til manns, það sé bara meant to be.

„Það héldu allir að þetta væri partur af prógramminu, auglýsingaherferð ofan á auglýsingaherferð,“ segir Hjálmar Örn, en hann fékk hjartaáfall 1. mars, daginn eftir að Mottumarsauglýsingin var frumsýnd. „En þetta endaði á því að vera fín forvörn, vegna þess að fullt af mönnum í kringum mig fóru og létu tékka á alls konar.“

Thelma Björk er brennukona, að eigin sögn. „Eftir mat löbbum við á brennuna og horfum á hana brenna allt í burtu - nýtt ár, ný tækifæri.“ Hjálmar Örn á eftir að finna sér nýja brennu eftir flutninga og segir Thelmu Björk að láta sér ekki bregða þótt hann mæti á brennuna til hennar þetta árið.

Saman náum við árangri

Með dyggum stuðningi Velunnara, almennings og fyrirtækja í landinu höfum við gert ótal margt á árinu:

  • Félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar okkar hafa veitt sjúklingum og aðstandendum um allt land yfir 3.800 viðtöl.
  • Maturinn sem við borðum getur bæði aukið og dregið úr krabbameinsáhættu. Með nýja matarvefnum, Gott og einfalt, höfum við gert fjölskyldunum í landinu auðveldara að tileinka sér mataræði sem dregur úr krabbameinsáhættu með spennandi uppskriftum.
  • Við höfum talað fyrir hagsmunum fólks með krabbamein, til dæmis varðandi bið eftir geislameðferðum og fjármögnun nýrra krabbameinslyfja og verið óþreytandi að benda á nauðsyn þess að heilbrigðisþjónustan sé í stakk búin fyrir þá miklu fjölgun krabbameinstilvika sem spár félagsins gera ráð fyrir.
  • Við erum nú á kafi við að vinna úr þúsundum svara landsmanna við spurningum um lífsgæði. Svörin munu vísa veginn við þróun á þjónustu við fólk sem hefur fengið krabbamein en glímir við erfiðar aukaverkanir.
  • Við trúum því að vísindin varði leiðina fram á við og erum mjög stolt af því að hafa getað veitt 93 milljónum í styrki til 13 rannsóknarverkefna úr Vísindasjóði félagsins í vor. Frá árinu 2017 hefur sjóðurinn styrkt íslenskar krabbameinsrannsóknir um rúmlega 655 milljónir.
  • Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins eru 27, starfandi um allt land. Mörg félaganna fá styrki frá Krabbameinsfélaginu til sinnar starfsemi og geta þess vegna staðið fyrir félagsstarfi, fræðslu og forvarnarstarfi, endurhæfingu og fleiru á sínum svæðum.

Við hjá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum óskum þér og þínum farsældar á komandi ári. Hjartans þakkir fyrir hlýhug, samstarf og stuðning á árinu sem er að líða.