Beint í efni

App­el­sínu­gul við­vörun í kort­un­um

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins haldinn 13. maí 2023 skorar á stjórnvöld að hefjast handa þegar í stað og setja á dagskrá viðbrögð við fyrirsjáanlegri fjölgun krabbameinstilvika og lifenda, með öflugri krabbameinsáætlun sem leiði til samhæfðra og markvissra aðgerða.

Félagið leggur til að áætlunin fái sérstakan sess hjá heilbrigðisráðuneytinu með ákveðinn ábyrgðaraðila sem vinni með teymi sérfræðinga og samtökum sjúklinga.

Ef unnið verður samkvæmt skýrri, tímasettri, forgangsraðaðri og fjármagnaðri krabbameinsáætlun mun ekki þurfa að grípa til neyðaráætlana. Þá getur Ísland verið í fremstu röð í baráttunni gegn krabbameinum.

Nýta má fyrirmyndir úr nýlegri krabbameinsáætlun Evrópusambandsins vegna aukningar krabbameinstilvika um 21% til ársins 2040 og áætlanir nágrannalandanna sem fyrirmyndir.

Á Íslandi getum við alltaf átt von á náttúruhamförum. Við höfum ýmsar leiðir til að verjast þeim, byggjum varnargarða og styrkjum brýr en reynum líka alltaf að vera búin undir að bregðast við til að draga úr áhrifum af þeim. Til þess höfum við viðbragðsáætlanir. Við stillum saman strengi, deilum verkum og ábyrgð og samhæfum vinnu til að hámarka árangur aðgerða.

Almennt eru viðbragðsáætlanir teknar alvarlega og jafnvel æfðar svo ekkert fari úrskeiðis. Án þeirra er hætt við að aðgerðir séu handahófskenndar og skili litlum árangri.

Á komandi árum má búast við gríðarlegri fjölgun krabbameinstilvika, 28% fjölgun til ársins 2030 og 52% til ársins 2040. Ástæðan er fyrst og fremst breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og fólksfjölgun.

Vegna framfara í greiningu og meðferð krabbameina mun lifendum einnig fjölga mjög mikið. Gera má ráð fyrir að þeim fjölgi úr 17.000 í dag í 23.000 árið 2030 og að þeir verði rúmlega 30.000 árið 2040. Stækkun lifendahópsins er auðvitað ekki hamfarir heldur miklar framfarir og mikið fagnaðarefni. Aukningin mun hins vegar gera gríðarlega miklar kröfur til heilbrigðiskerfisins og samfélagsins. Kerfið eins og það er í dag er ekki undir þetta búið og því verður að bregðast við.

Ólíkt náttúruhamförum er aukning krabbameinstilvika og fjölgun lifenda fyrirsjáanleg. Þess vegna þarf ekki að útbúa neyðaráætlun sem gripið er til þegar byrjar að gjósa. Við þurfum hins vegar annars konar áætlun, krabbameinsáætlun, þar sem brugðist er við fyrirfram, jafnt og þétt.

Líkt og í viðbragðsáætlunum þarf í krabbameinsáætlun að samhæfa aðgerðir, hafa tímasett markmið, skipta verkum, deila ábyrgð og tryggja fjármagn. Fyrirsjáanlegri aukningu verður að gefa sérstakan gaum og mæta með markvissum aðgerðum.

Við viljum að árangur á Íslandi sé framúrskarandi, bæði varðandi forvarnir og árangur tengdan krabbameinum, þannig að líf fólks með krabbamein og að lokinni meðferð verði eins gott og mögulegt er.

Það gildir einu hvort litið er til forvarna, meðferða, endurhæfinga eða þjónustu að lokinni krabbameinsmeðferð, alltaf þarf að vinna gegn ójöfnuði. Viðeigandi þjónusta og úrræði þurfa að vera tiltæk, aðgengileg og hagkvæm fyrir alla notendur.

Það er Krabbameinsfélaginu tilhlökkunarefni að vinna með stjórnvöldum á markvissan hátt að því að fækka í hópi þeirra sem greinast með krabbamein, draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina og bæta líf fólks með og eftir krabbamein og aðstandenda þess.