Beint í efni
Krabbameinsfélagið

Álykt­un stjórn­ar Krabba­meins­fé­lags­ins

Krabbameinsfélagið skorar á stjórnvöld að tryggja nægt fjármagn í fjárlögum næstu ára til að snúa þróuninni við og búa þannig um hnúta að fólk með krabbamein hafi aðgengi að bestu meðferðum hér á landi. Félagið tekur undir með heilbrigðisráðherra að innviðaskuld í heilbrigðiskerfinu er stór og þegar kemur að krabbameinum

Á fundi stjórnar Krabbameinsfélagsins þann 15. október var samþykkt eftirfarandi ályktun: 

Eins og Krabbameinsfélagið hefur ítrekað vakið athygli á hefur krabbameinstilvikum fjölgað hratt á undanförnum árum og áratugum án þess að nauðsynlegir innviðir hafi verið styrktir til samræmis. Spár benda til 63% fjölgunar tilvika til ársins 2045 auk þess sem bættur árangur í meðferð krabbameina leiðir til þess að verulega fleiri lifa með krabbamein sem þarfnast langvarandi meðferðar. Spáð er 96% fjölgun lifenda til ársins 2045. 

Fjárlög næstu ára

Krabbameinsfélagið skorar á stjórnvöld að tryggja nægt fjármagn í fjárlögum næstu ára til að snúa þróuninni við og búa þannig um hnúta að fólk með krabbamein hafi aðgengi að bestu meðferðum hér á landi. Félagið tekur undir með heilbrigðisráðherra að innviðaskuld í heilbrigðiskerfinu er stór og þegar kemur að krabbameinum snýr hún meðal annars að: 

  • Geislameðferð 
  • Lyfjameðferð 
  • Aðstöðu  
  • Sérhæfðri mönnun 
  • Endurhæfingu 

Kaup á nýjum línuhröðlum til geislameðferðar og uppbygging aðstöðu fyrir þá eru óhjákvæmileg. Tryggja þarf lausn á aðstöðu dag- og göngudeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala og eftir atvikum á öðrum heilbrigðisstofnunum og að fullnægjandi heimildir til kaupa á nýjum krabbameinslyfjum séu fyrir hendi. Þá eru ónefndar aðgerðir til að tryggja nægjanlegan fjölda sérhæfðs starfsfólks. 

Lækkun fjárframlaga til krabbameinsendurhæfingar í frumvarpi til fjárlaga næsta árs er í engu samræmi við fjölgun krabbameinstilvika eða aðgerð 11 í aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum fyrir árin 2025 – 2029. Markmið með þeirri aðgerð er að einstaklingar hafi aðgang að krabbameinsendurhæfingu sem miðar að því að viðhalda bestu mögulegu virkni og lífsgæðum, sem kemur í veg fyrir færniskerðingu og gerir fólki kleift að vera þátttakandi í samfélaginu þrátt fyrir afleiðingar krabbameins og krabbameinsmeðferðar. 

Félagið skorar á stjórnvöld að tryggja í fjárlögum aðgengi fólks með krabbamein að þverfaglegri endurhæfingu við hæfi. Hún er lykilatriði til að viðhalda lífsgæðum fólks, í meðferð og að henni lokinni.