Beint í efni

Álykt­un að­al­fundar 25. maí

Því lífið liggur við

Appelsínugul viðvörun áfram í kortunum

Í ályktun aðalfundar Krabbameinsfélagsins í maí 2023 var vakin athygli á appelsínugulri viðvörun í kortunum, vegna spár um gríðarlega mikla áframhaldandi fjölgun krabbameinstilvika á næstu árum. Í ályktuninni voru stjórnvöld hvött til að koma upp virkri krabbameinsáætlun með markvissum aðgerðum til að geta brugðist við. Því miður er viðvörunin enn í fullu gildi.  

Birtir til?

Afar ánægjulegt er að heilbrigðisráðherra brást við áskoruninni og skipaði í byrjun þessa árs samráðshóp um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum til fimm ára. Fundurinn bindur miklar vonir við vinnu samráðshópsins og að niðurstaðan leiði til tímasettrar og fjármagnaðrar aðgerðaáætlunar sem geri mögulegt að takast á við áskoranirnar. Fundurinn hvetur til þess að forvarnir, skimanir og staðlaðir greiningar- og meðferðarferlar verði hluti af aðgerðunum.

Stöndum vörð um það sem gott er; Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins hvetur heilbrigðisráðherra í samstarfi við önnur stjórnvöld, að setja forvarnir í forgang, með virkum stjórnvaldsaðgerðum til að efla lýðheilsu. Margir erlendis horfa til Íslands varðandi árangur í forvarnarmálum, tóbaksvörnum og áfengisneyslu ungmenna sérstaklega. Standa þarf vörð um þennan árangur og gera enn betur.  

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins skorar á stjórnvöld að taka skýra afstöðu með lýðheilsu og fólkinu í landinu, virða gildandi lög og reglur og auðvelda ekki aðgengi að áfengi, tóbaks- og nikótínvörum. Ef einhver vafi leikur á, láta lýðheilsuna njóta vafans. Markmiðið: að auðvelda almenningi að fylgja ráðleggingum embættis landlæknis um mataræði, hreyfingu og áfengisneyslu. Með samstilltu átaki er hægt að koma í veg fyrir fjögur af hverjum tíu krabbameinum. Því lífið liggur við.

Hámarksárangur af krabbameinsskimunum

Aðalfundurinn skorar einnig á heilbrigðisráðherra að styðja við þær stofnanir sem sinna krabbameinsskimunum þannig að hámarksárangur verði af skimununum. Grípa þarf til kerfisbundinna aðgerða til að auka þátttöku, gera brjóstaskimun gjaldfrjálsa, tryggja nægt aðgengi að tímum og að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem hefst seint á þessu ári, verði sem fyrst innleidd að fullu. Því lífið liggur við.

Stöðluð ferli allt frá því að rökstuddur grunur um krabbamein vaknar

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins skorar einnig á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að hér á landi verði innleidd stöðluð greiningar- og meðferðarferli allt frá því að rökstuddur grunur vaknar um krabbamein þar til endurhæfingu eftir krabbamein er lokið. Um er að ræða stórt framfaraskref til að auka líkur á að krabbamein greinist snemma, sem eykur batahorfur og fyrirsjáanleika fyrir sjúklinginn. Ferlið er til  þess fallið að auka jöfnuð, óháð búsetu, þjóðerni og samfélagsstöðu, koma í veg fyrir óþarfa biðtíma og auka öryggi sjúklinga. Því lífið liggur við.

Jöfnuður

Allt ofangreint á það sameiginlegt að vinna gegn ójöfnuði tengdum krabbameinum sem er vaxandi hér á landi líkt og annars staðar. Aðalfundurinn undirstrikar mikilvægi þess að í allri krabbameinsþjónustu sé hugað að því að draga úr ójöfnuði sem getur tengst búsetu, uppruna, tungumáli og samfélagsstöðu.