Aðalfundur 24. maí 2025
Gögn vegna aðalfundar Krabbameinsfélags Íslands 24. maí 2025.
- Fundarstjóri: Kristján B. Thorlacius
- Fundarritari: Anna Margrét Björnsdóttir
Efni væntanlegt.
Ársreikningurinn er endurskoðaður, samþykktur af stjórn, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins og félagskjörnum skoðunarmönnum og lagður fram til samþykktar aðalfundar.
Starfs- og fjárhagsáætlun kynnt á fundinum.
Engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum.
Frá uppstillingarnefnd:
Uppstillingarnefnd Krabbameinsfélags Íslands hefur unnið samkvæmt vinnureglum félagsins um kjör í stjórn félagsins og kosningu félagslegra endurskoðenda (skoðunarmanna), sem voru samþykktar á aðalfundi félagsins 13. maí 2006.Á aðalfundi 2025 ber að kjósa formann félagsins til tveggja ára, þrjá meðstjórnendur í stjórn félagsins til tveggja ára auk tveggja varamanna í stjórn til eins árs.
Hlíf Steingrímsdóttir, sem var kjörin formaður félagsins á aðalfundi árið 2023 gefur kost á sér til endurkjörs.
Hildur Björk Hilmarsdóttir, sem hefur verið meðstjórnandi frá árinu 2021 gefur ekki kost á sér til frekari stjórnarstarfa.
Sama gildir um Sigríði Zoëga sem hefur verið í stjórn félagsins frá árinu 2019, fyrst ritari stjórnar en varaformaður frá árinu 2022.
Þráinn Þorvaldsson, sem var kjörinn meðstjórnandi árið 2023 gefur heldur ekki kost á sér til frekari stjórnarstarfa.
Hlédís Sveinsdóttir sem hefur verið varamaður í stjórn frá árinu 2023 gefur ekki kost á sér til frekari stjórnarstarfa.
Pétur Þór Jónasson hefur verið varamaður í stjórn frá árinu 2024 en gefur nú kost á sér í aðalstjórn.
Nefndin leggur eftirfarandi tillögu sína um kjör í stjórn félagsins beint fyrir aðalfund þann 24. maí 2025:
Formaður félagsins, til tveggja ára:
Hlíf Steingrímsdóttir, blóðmeinafræðingur býður sig fram til áframhaldandi starfa sem formaður félagsins. Hlíf hefur yfirgripsmikla reynslu sem læknir og stjórnandi á Landspítala og hefur verið yfirlæknir þróunar dag- og göngudeilda, formaður og varaformaður lyfjanefndar auk þess að sinna klínísku starfi, yfirlæknir blóðlækningadeildar og framkvæmdastjóri lyflækningasviðs og aðgerðasviðs á Landspítala. Hlíf er nú forstöðulæknir hjarta-, augn- og krabbameinsþjónustu á Landspítala. Hlíf hefur verið formaður stjórnar Krabbameinsfélagsins frá árinu 2023 og hefur á þeim tíma fengið góða innsýn í starf félagsins.
Meðstjórnendur, til tveggja ára:
Áslaug Kristjánsdóttir:
Ferilskrá:
- B.Sc. í hjúkrunarfræði, frá Háskóla Íslands
- MFS (Master of Forensic Sexology) með láði frá Curtin University of Technology í Perth í Ástralíu
- PGDip PST (psychosexual therapist) frá Háskólanum í Hull á Englandi í samstarfi við The Relate Institute
Áslaug sat í stjórn Kynfræðifélags Íslands í rúman áratug, sem formaður og gjaldkeri. Einnig var hún formaður NACS (Nordic Association of clinical sexology) frá 2009-2010.
Áslaug vann á geðsviði Landspítalans um árabil. Þar sinnti hún kynlífsráðgjöf, bráðaþjónustu geðsviðs og áfallavinnu auk almennrar göngudeildarþjónustu. Áslaug er stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Hún vann við kynlífsráðgjöf hjá Krabbameinsfélagi Íslands um árabil. Auk þess hefur hún haldið fyrirlestra um kynheilbrigði fyrir ýmis félagasamtökum og var hluti af kennarahópi á námskeiðum hjá Ljósinu í mörg ár.
Áslaug hefur miðlað af sérþekkingu sinni sem pistlahöfundur í tímaritum, á netmiðlum og birts í sjónvarpsþáttum um ást, samskipti og kynlíf.
Áslaug er höfundur bókarinnar Lífið er kynlíf – handbók kynfræðings um langtímasambönd sem kom út í ágúst 2023.
Jóhanna Eyrún Torfadóttir:
Menntun:
- BS próf í matvælafræði 1998
- MS próf í næringarfræði 2021
- Gestastúdent við hinn Konunglega landbúnaðarháskóla í Kaupmannahöfn 2000-2001
- Doktorspróf í lýðheilsuvísindum 2012
- Næring á mismunandi æviskeiðum og tengsl hennar við áhættu á krabbameini í blöðruhálskirtli
- Leiðbeinandi í sambærilegu verkefni sem skoðaði næringu og tengsl við krabbamein í brjóstum (2014-2019)
- Nýdoktor 2014-2017
- Tengsl milli D-vítamínbúskaps mælt fyrir greiningu við lifun með krabbameini
Starfsreynsla:
- Verkefnisstjóri næringar hjá embætti landlæknis (EL) og lektor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla íslands
- 2018 til 2022 starfaði í hlutastarfi hjá Krabbameinsfélagi Íslands (KÍ) sem sérfræðingur í fræðslu og forvörnum
- Árið 2020 settum við hjá KÍ af stað Áttavitann sem er rannsókn um reynslu af greiningu og meðferð krabbameina á íslandi (er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar)
- Fulltrúi Íslands (tilnefnd af Heilbrigðisráðuneytinu) í aðgerðum Evrópusambandsins í krabbameinsforvörnum
- Fulltrúi EL í samráðshópi um krabbamein sem gerði tillögur að aðgerðaáætlun til 2030
Pétur Þór Jónasson, formaður KAON, Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis gefur kost á sér sem meðstjórnandi í stjórn félagsins. Pétur hefur langan starfsferil, einkum á sviði búvísinda og sveitarstjórnarmála, sem sveitarstjóri og framkvæmdastjóri sambands sveitarfélaga. Pétur er með meistarapróf í búvísindum en hefur til viðbótar lokið námi í verkefnastjórnun og fleiru. Hann hefur víðtæka reynslu af setu í stjórnum og vinnuhópum. Ástæða þess að Pétur býður sig fram er eigin reynsla af því að vera með krabbamein og reynsla hans af setu í stjórn KAON frá árinu 2022. „KAON er öflugt félag með metnaðarfulla stjórn og starfsmenn. Ég tel að reynsla mín úr öflugu landsbyggðarfélagi eigi erindi við Krabbameinsfélag Íslands og sé liður í því að efla tengsl.“ Pétur var kjörinn varamaður í stjórn KÍ árið 2024.
Varamenn til eins árs:
Eygló Kristjánsdóttir formaður Krabbameinsfélags Snæfellsness gefur kost á sér sem varamaður í stjórn félagsins.
Ég er fædd og uppalin á Snæfellsnesi og bý í sveit á sunnuanverðu Snæfellsnesi. Ég er formaður Krabbameinsfélags Snæfellsness og hef verið það frá því í mars 2024 en sat áður í stuttan tíma í varastjórn hjá félaginu. Hef einnig setið í stjórn hjá sóknarnefnd og kvenfélagi. Ég starfa í ferðaþjónustu og er með stúdentsmenntun ásamt því að vera með diplomu sem andlegur einkaþjálfi. Ég hef mikinn áhuga á málefnum krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Þekki það að greinast með krabbamein af eigin raun og ekki síst hvernig það er að glíma við alls konar lífsgæðaskerðingu eftir það ferli. En ég greindist með brjóstakrabbamein í lok árs 2019 og var í meðferð í eitt ár. Ég hef því miður eins og svo margir aðrir einnig setið hinum megin við borðið og misst vinkonu og fjölskyldumeðlim úr krabbameini.
Málefni krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra eru mér hugfólgin og ég tel að ég geti verið talsmaður landsbyggðarinnar að einhverju leyti í varastjórn Krabbameinsfélags Íslands.
Kjartan Gunnarsson gefur kost á sér sem varamaður í stjórn félagsins.
Kjartan er fæddur í Reykjavík 1951. Hann lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands og hóf störf sem framkvæmdstjóri Sjálfstæðisflokksins 1980 og gegndi því starfi til 2006. Hann hefur síðan starfað við rekstur eigin fyrirtækja. Á starfstíma sínum hjá Sjálfstæðisflokknum tók Kjartan þátt í starfi fjölmargra opinberra nefnda og sat í stjórnum bæði á vegum hins opinbera og einkaaðila. Árið 2009 greindist Kjartan með mergæxli og hefur síðan tekið þátt í starfi Perluvina sem er félag mergæxlissjúklinga og aðstandenda þeirra.
Kjartan er kvæntur Sigríði Á Snævarr sendiherra og þau eiga einn son.
Birna Guðmundsdóttir, Jón Auðunn Jónsson og Ólafur Dýrmundsson gefa öll kost á sér til áframhaldandi starfa sem skoðunarmenn reikninga.
Birna og Jón Auðunn voru fyrst kosin árið 2014 og Ólafur árið 2017.
Skoðunarmenn reikninga til eins árs:
- Birna Guðmundsdóttir.
- Jón Auðunn Jónsson.
Skoðunarmaður, til eins árs, til vara:
- Ólafur Dýrmundsson.
Á aðalfundi 2024 voru Guðjón Hauksson, Jón Þorkelsson, Ragnar Davíðsson, Sigrún Lillie Magnúsdóttir og Svanhildur Ólafsdóttir kjörin í uppstillingarnefnd til eins árs.
Þau Guðjón, Jón og Svanhildur gefa ekki kost á sér áfram í uppstillingarnefnd en Ragnar og Sigrún eru tilbúin til þess.
Í kjöri eru:
- Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða og stjórnarkona í Brakkasamtökunum.
- Kristján Freyr Helgason. Kristján hefur verið félagi í Stómasamtökum Íslands frá 1994 og tekið virkan þátt í starfi félagsins. Kristján Freyr var formaður samtakanna frá 2003-2007 og situr í núverandi stjórn samtakanna. Kristján Freyr hefur einnig tekið þátt í starfi Öryrkjabandalags Íslands fyrir Stómasamtökin. Hann hefur áður setið í uppstillingarnefnd félagsins.
- Ragnar Davíðsson, viðskiptafræðingur og formaður Nýrrar raddar. Ragnar var kjörinn í uppstillingarnefnd árið 2022.
- Sigríður Zoega, hjúkrunarfræðingur sem nú hættir sem varaformaður stjórnar félagsins.
- Sigrún Lillie Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og starfsmaður Krabbameinsfélagsins til fjölda ára, bæði í Heimahlynningu og sem forstöðumaður ráðgjafar og stuðnings. Sigrún var kjörin í uppstillingarnefnd árið 2022.
Verður birt síðar.
Verður birt síðar.
Jafnt aðgengi að krabbameinsþjónustu óháð búsetu
Greiðsluþak á dvalarkostnað vegna heilbrigðisþjónustu
Þak á greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu, lyf og greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í ferðakostnaði tryggja ákveðinn jöfnuð þegar kemur að greiningu og meðferð krabbameina. Greiðsluþak fyrir heilbrigðisþjónustu er 35.824 kr. og almennt greiðsluþak lyfja er 62.000 kr. að hámarki á 12 mánaða tímabili.
Jöfnuði er hins vegar ekki náð þegar horft er til búsetu. Krabbameinslyfjameðferðir fyrir íbúa af landsbyggðinni fara að stórum hluta fram á Landspítala. Þar eru sértækar, lífsnauðsynlegar meðferðir í boði sem ekki er hægt að veita alls staðar á landinu. Hluti fólks dvelur í íbúðum Krabbameinsfélagsins en margir nýta þjónustu sjúkrahótelsins. Flestir eru sem betur fer í þeirri stöðu að geta haft með sér aðstandanda en stuðningur þeirra er gríðarlega mikilvægur í gegnum erfiðar meðferðir.
Fyrir sólarhringsdvöl á sjúkrahóteli greiða sjúklingar 1.890 kr. á sólarhring með fæði. Fyrir aðstandanda kostar gistingin 1.890 kr. og fæði 4.970 kr. á sólarhring. Sólarhringurinn getur því kostað allt að 8.750 kr. Margir þurfa því miður að dvelja langdvölum fjarri heimili sínu vegna lyfja- og/eða geislameðferða og dæmi eru um að einstaklingar hafi þurft að greiða yfir 500.000 kr. á ári fyrir dvöl á sjúkrahóteli vegna nauðsynlegra meðferða sem þeir geta ekki sótt í sinni heimabyggð.
Til samanburðar má nefna að þurfi sjúklingur að nýta heilbrigðisþjónustu erlendis taka Sjúkratryggingar þátt í kostnaði vegna uppihalds sjúklings og aðstandenda með greiðslu dagpeninga eftir ákveðnum reglum.
Aðalfundur Krabbameinsfélagsins haldinn þann 24. maí 2025 skorar á heilbrigðisráðherra að endurskoða greiðsluþátttöku vegna sjúkradvalar innanlands og tryggja að kostnaður sjúklings og aðstandenda vegna nauðsynlegrar dvalar á sjúkrahóteli sligi ekki fólk af landsbyggðinni. Slíkt mætti til dæmis útfæra með greiðsluþaki, líkt og þekkist nú þegar varðandi greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf.
Með þessu væri stigið mikilvægt framfaraskref í átt að auknum jöfnuði óháð búsetu.
Niðurfelling virðisaukaskatts hjá almannaheillafélögum
Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands haldinn í Reykjavík þann 24. maí 2025 tekur undir með Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og skorar á stjórnvöld að tryggja Krabbameinsfélagi Íslands og aðildarfélögum þess niðurfellingu á virðisaukaskatti vegna starfsemi sinnar.
Krabbameinsfélag Íslands og aðildarfélög þess eru félög til almannaheilla og gegna mjög þýðingarmiklu starfi í íslensku samfélagi. Krabbameinsfélagið hefur með aðildarfélögum sínum, frá því það var stofnað árið 1951, sinnt ótal framfaraverkefnum, krabbameinsforvörnum, vísindastarfi og stuðningi við sjúklinga og aðstandendur. Félagið hefur átt frumkvæði að veigamiklum verkefnum sem sum hafa síðar færst til opinberra stofnana eftir að hafa sannað gildi sitt sem sjálfsagður hlutur í samfélaginu. Þar má til dæmis nefna krabbameinsskimanir og líknarþjónustu í heimahúsum.
Krabbameinsfélagið er að undanskildum ca 5% rekstrarfjár, alfarið rekið fyrir söfnunarfé, styrki frá almenningi og fyrirtækjum í landinu. Sama gildir um aðildarfélög þess, sem eru 27, bæði svæðafélög um allt land og félög um ákveðin krabbamein eða aldurshópa. Allt starf félagsins og aðildarfélaganna er til almannaheilla og því skýtur skökku við að greiddar séu stórar fjárhæðir í virðisaukaskatt.
Í ljósi mikilvægis Krabbameinsfélagsins er brýnt að rekstrar- og skattaumhverfi félagsins sé ekki íþyngjandi.
Þessi áskorun hefur það að markmiði að létta rekstur Krabbameinsfélagsins og aðildarfélaga til þess að þau geti sinnt sínu mikilvæga almannaheillahlutverki enn betur.
Útfærslan gæti verið sú að félagið greiddi virðisaukaskatt en fengi hann endurgreiddan.