© Mats Wibe Lund

Skagafjörður

Krabbameinsfélag Skagafjarðar var stofnað 12. júní 1996 og eru félagsmenn um 500 talsins. Þjónustuskrifstofa er á Heilbrigðisstofuninni á Sauðárkróki. Starfsmaður er María Reykdal og formaður félagsins er Dalla Þórðardóttir. Stuðningshópur félagsins heitir Dugur. 

Starfsemi 2016-2017

María Reykdal hefur verið með viðveru á skrifstofunni þrjá daga í viku og er alltaf með auglýstan síma. Hún hefur verið með stuðningsviðtöl í síma og á stofu og einnig nokkur sálfræðiviðtöl.
Formannafundur ársins 2016 var haldinn á Bakkaflöt í Skagafirði laugardaginn 24. september. Var fundurinn ágætlega sóttur. Aðalerindi á dagskrá flutti Inga Margrét Skúladóttir og fjallaði um heilbrigðisþjónustu við krabbameinssjúka á Akureyri. Þjónustan nær til til Norðurlands vestra og Austfjarða auk Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Þá voru kynningar á starfi þriggja svæðafélaga og stuðningshópa, Stómasamtakanna og Krafts. Farið var í kynnisferð í Kakalaskálann á Kringlumýri og uppbygging starfs þar skoðuð.

Fimmtugsafmæli Krabbameinsfélags Skagafjarðar var haldið hátíðlegt 19. mars 2017. Vegna anna í félagslífi síðla árs 2106 þótti skynsamlegt að bíða með hátíðahöld þar til um hægðist. Stjórn félagsins afréð að bjóða íbúum Skagafjarðar til skemmtunar og kaffisamsætis í Miðgarði til þess að þakka þeim stuðning, framlög og gjafir í áranna rás. Kvenfélög Seyluhrepps og Lýtingsstaðahrepps sáu um veitingar og svignuðu borð undir kræsingum, svo sem vænta mátti. Eftir skemmtunina var stjórn tilkynnt að kvenfélögin legðu fram vinnu og veitingar endurgjaldslaust og er stórhugur þeirra þakkarverður. Hljóðfæraleikur var í höndum Stefáns R. Gíslasonar og Guðrún Helga Jónsdóttir, Íris Olga Lúðvíksdóttir og Gunnar Rögnvaldsson sungu auk Jóns Halls Stefánssonar, sem var leynigestur dagsins. Sigríður Garðarsdóttir í Miðhúsum flutti minningar sínar um kynni af stofnfélögum Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Kvenfélag Akrahrepps, Kiwanismenn og Kaupfélag Skagfirðinga færðu félaginu þennan dag höfðinglegar gjafir. Á skemmtuninni fjölgaði félögum í Krabbameinsfélagi Skagafjarðar um rúmlega tuttugu manns og bættust þeir við þá sem gengu í félagið í átaki í haust. Félagar eru nú tæplega 500.

Fyrirtæki, félög og einstaklingar hafa reynst félaginu ötull bakhjarl. Síðasta sumar veitti stjórnin viðtöku 700.000 kr. frá hjónunum Pálma og Ásu í Garðakoti, sem þau gáfu í tilefni af stórafmælum sínum. Kiwanismenn hafa safnað fjármunum og gefið speglunartæki. Fleiri dæmi mætti nefna. Krabbameinsfélag Skagafjarðar er ágætlega statt fjárhagslega, þökk sé fjáröflun og framlögum. 

En þörfin á aðstoð er stöðug, til þeirra sem greinast í fyrsta sinn eða fara í framhaldsmeðferð. Félagið greiðir, sem fyrr, viðtöl hjá sálfræðingi og dvöl fyrir þá sem þurfa að fara til Akureyrar eða Reykjavíkur í langvarandi meðferð. Einnig hefur félagið veitt fjárhagsaðstoð. Framboð á húsnæði fyrir krabbameinssjúka er augljóslega alltof lítið. Starfsmaður félagsins þarf að hringja vítt og breitt í leit að dvalarstað fyrir sjúklinga héðan og stundum fæst ekki rými í íbúðum Krabbameinsfélags Íslands eða á sjúkrahóteli. Þarf þá að leita annarra leiða til að finna fólki stað á meðan það er í meðferð. Þetta er mál sem brýnt er að leysa.

Dalla Þórðardóttir.


Var efnið hjálplegt?