Beint í efni

Rist­il- og endaþarms­krabbamein

Ristil- og endaþarmskrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið sem greinist á Íslandi. Til einföldunar eru krabbamein í ristli og endaþarmi oft kölluð einu nafni ristilkrabbamein.

Ristilkrabbamein byrja sem góðkynja separ sem á löngum tíma þróast yfir í krabbamein. Með ristilspeglun eða leit að blóði í hægðum má finna eða koma í veg fyrir þessi mein á byrjunarstigum og auka þannig líkur á lækningu.

Ef þú ert á aldrinum 50 - 70 ára ættir þú að ræða við lækni um mögulega leit að ristil- og endaþarmskrabbameini.

 • Ristil- og endaþarmskrabbamein eru um 10% allra krabbameina sem greinast.
 • Meðalaldur við greiningu er 69 ár.
 • Sjaldgæft er að meinin greinist fyrir fimmtugt.
 • 10 - 15 ár geta liðið frá því að góðkynja sepi myndast og þar til krabbameinsfrumur verða til.
 • Gera má ráð fyrir að um 5% Íslendinga fái ristil- og endaþarmskrabbamein á lífsleiðinni.

Hvað er krabbamein í ristli og endaþarmi?

Ristillinn er hluti af meltingarveginum og er um 1 - 1,5 metrar á lengd. Hann tekur við af smáþörmum og endar í endaþarminum sem er um 15 sentimetrar. 

Í ristlinum færist vatn og ýmis sölt, frá fæðunni sem verið er að melta, yfir í blóðið. Við það verður innihald ristilsins (hægðirnar) þéttara og tilbúið fyrir tæmingu. Meginhlutverk endaþarms er að geyma hægðir milli tæminga.

Í flestum tilvikum myndast ristilkrabbamein út frá góðkynja breytingum sem í daglegu tali eru kallaðir separ. Sú tegund sepa sem er forstig ristilkrabbameins er kölluð kirtilæxli.

Separ í ristli eru algengir og aðeins lítill hluti þeirra þróast í krabbamein. 

Helstu einkenni

Einkenni ristil- og endaþarmskrabbameins eru oft óljós til að byrja með, en þau gætu verið:

 • Blóð í hægðum án augljósra skýringa. Blóðið getur bæði verið sýnilegt með berum augum eða birst sem svartar hægðir. Blæðingar í hægðum ætti alltaf að taka alvarlega.
 • Kviðverkir eða krampar sem hætta ekki.
 • Viðvarandi breyting á hægðavenjum, aðallega tíðari ferðir á salerni eða niðurgangur sem varir vikum saman. 
 • Blóðleysi af óþekktri orsök.
 • Þyngdartap og þrekleysi.

Ef þú hefur einhver þessara einkenna skaltu ræða við lækni.

Þessi einkenni gætu verið vegna einhvers annars en krabbameins, en mikilvægt er að leita álits læknis á því hvað gæti valdið. 

Þarmastífla vegna ristilkrabbameins getur leitt til bráðrar skurðaðgerðar og hjá sumum sjúklingum greinist ristilkrabbamein fyrst þá.

Vegna þess að ristilsepum og ristilkrabbameini fylgja ekki alltaf einkenni, getur fólk verið með sjúkdóminn án þess að vita af því. Með því að greina ristilkrabbamein áður en einkenni koma fram er líklegra að meinið sé á byrjunarstigi og hægt sé að lækna það.

Greining ristils- og endaþarmskrabbameins

Sem stendur er ekki skipuleg skimun fyrir ristilkrabbameini á Íslandi, en unnið er að því verkefni hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Á meðan skipulögð skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi er ekki í boði ráðleggur Krabbameinsfélagið fólki að leita til læknis þegar það er um fimmtugt og spyrjast fyrir varðandi þessi mál. Töluvert margir eru meðvitaðir um það og óska eftir því við heimilislækni eða meltingarlækni að leitað sé að vísbendingum um krabbamein í ristli og endaþarmi.

Þar sem yfirleitt líður langur tími frá því að kirtilæxli (forstig ristilkrabbameins) myndast þar til einkenni koma fram, gefur greining meinsins á frumstigum góðar líkur á lækningu.

Ef grunur er um ristilkrabbamein eru nokkrar greiningaraðferðir sem koma til greina:

 • Með hægðaprófi er hægt að rannsaka hvort dulið blóð sé í hægðum. Ef blóð finnst getur það verið vísbending um krabbamein, þó einnig geti verið aðrar skýringar.

 • Í ristilspeglun er grannt, sveigjanlegt speglunartæki sett inn um endaþarminn og þrætt upp eftir ristlinum til að skoða innra yfirborð hans (slímhúðina). Með speglunartækinu er hægt að taka vefjasýni og fjarlægja ristilsepa ef þörf krefur.

  Ristilspeglun er mikilvægasta rannsóknin ef grunur er um krabbamein í ristli eða endaþarmi.

 • Með vefjarannsókn er hægt að komast að því hvort mein sé illkynja. Vefjarannsókn er líka notuð til að meta hversu alvarlegur æxlisvöxtur er, eftir að mein hefur verið fjarlægt í skurðaðgerð.

 • Hægt er að nota tölvusneiðmyndartæki til að taka myndir af ristlinum (e. virtual colonoscopy). Það er aðferð sem hægt er að nota ef ekki er hægt að framkvæma speglun.

  Tölvusneiðmyndataka af lungum og kviðarholi er gerð ef ristilkrabbamein hefur greinst, til að kanna hvort meinið hafi dreift sér til annarra líffæra, t.d. lifrar, lífhimnu, lungna eða eitla.

 • Segulómun er gerð ef endaþarmskrabbamein greinist, til að ákveða hvort gefa eigi formeðferð með geislum eða krabbameinslyfjum fyrir skurðaðgerð.

 • Hægt er að fylgjast með æxlisvísum (CEA, carcinoembryonic antigen) í blóði. Mæling á CEA er aðallega notuð við eftirlit eftir meðferð krabbameinsins.

Meðferð

Meðferð ristils- og endaþarmskrabbameins byggist á mörgum þáttum, þar á meðal því hvar meinið er staðsett, hversu alvarlegt það er og óskum sjúklings. Ef um læknanlegt mein er að ræða er skurðaðgerð algengasta meðferðin en ef meinvörp sem ekki er hægt að fjarlægja með skurðaðgerð hafa dreift sér í önnur líffæri er lyfjameðferð mikilvægust.

 • Algengustu skurðaðgerðir við ristil- eða endaþarmskrabbameini eru að ristill eða endaþarmur séu annað hvort fjarlægðir að hluta eða að öllu leyti. Til að minnka líkurnar á endurkomu krabbameinsins fjarlægir skurðlæknirinn ekki eingöngu sjálft æxlið heldur líka hluta af heilbrigðum vef í kringum æxlið, meðal annars til að ná út nálægum eitlum til frekari rannsókna. Oftast er hægt að tengja ristilendana saman á ný en í sumum tilvikum þurfa sjúklingar á stóma að halda, ýmist tímabundið eða ævilangt.

 • Ef meinvörp finnast í eitlum sem teknir hafa verið í skurðaðgerð við ristilkrabbameini er lyfjameðferð oftast veitt til þess að minnka líkur á að sjúkdómurinn taki sig upp aftur. 

  Í um fjórðungi tilfella hefur krabbameinið þegar náð að dreifa sér til annarra líffæra við greiningu. Þá er helsta meðferðin krabbameinslyfjameðferð með þann tilgang að lengja og bæta líf. Sum meinvörp sem borist hafa í önnur líffæri er hægt að fjarlægja með skurðaðgerð, gjarnan eftir að meinvörpin hafa minnkað við  lyfjameðferð.

 • Í vissum tilvikum er geislameðferð  veitt áður en gerð er aðgerð á endaþarmskrabbameini til þess að minnka líkur á endurkomu æxlisins og einnig í þeim tilgangi að minnka æxlið fyrir skurðaðgerð.

Áhættuþættir og forvarnir

Rannsóknir hafa sýnt að ákveðnir þættir og lífshættir auka líkur á að fá sjúkdóminn.

Erfðir og fjölskyldusaga

Um 5-10% ristil- og endaþarmskrabbameina má rekja til erfða.

Líkur á að fá sjúkdóminn eru auknar ef

 • þú átt einn eða fleiri náinn ættingja (foreldri, systkini eða barn) sem greinst hafa með ristilsepa (kirtilæxli) eða ristilkrabbamein.
 • þú hefur erfðasjúkdóm eins og familial adenomatous polyposis (FAP) eða hereditary nonpolyposis colorectal cancer (HNCPP, öðru nafni Lynch heilkenni).

Ef þú hefur grun um arfgengt mein er ráðlegt að leita til erfðaráðgjafar Landspítalans sem getur veitt ráðleggingar um hvenær og hve oft ætti að skima fyrir krabbameini, byggt á ættarsögu og rannsóknum á erfðamengi.

Aðrir sjúkdómar

Sjúkdómar sem vitað er að auka líkur á ristilkrabbameini:

 • Langvarandi bólgusjúkdómar í ristli og endaþarmi, sérstaklega sáraristilbólga (procto-colitis ulcerosa) auka hættuna.
 • Sykursýki er sjálfstæður áhættuþáttur þess að fá ristil- og endaþarmskrabbamein.

Fólk sem er í aukinni áhættu á að fá ristilkrabbamein gæti þurft að huga að leit fyrr og oftar en almennt er ráðlagt. Ræddu við heimilislækni eða meltingarlækni (sérfræðing í meltingarsjúkdómum) ef þú telur þig tilheyra hópi í aukinni áhættu.

Lífsstíll

Rannsóknir hafa sýnt að ákveðnir lífshættir auka líkur á ristilkrabbameini:

 • Áfengisneysla. Við niðurbrot áfengis verður til efnið acetaldehýð, sem er krabbameinsvaldandi efni. Áhættan eykst eftir því sem meira er drukkið.
 • Reykingar. Krabbameinsvaldandi efni í tóbaksreyk berast þau um allan líkamann og þar á meðal í meltingarveginn.
 • Rautt kjöt og unnar kjötvörur eru þekktir áhættuþættir. 
 • Offita. Fólk sem er í yfirþyngd hefur auknar líkur á því að fá ristil- og endaþarmskrabbamein.

Ef þú vilt minnka líkur á ristilkrabbameini:

 • Neysla ávaxta og grænmetis hefur verndandi áhrif. Mælt er með að minnsta kosti fimm skömmtum af ávöxtum eða grænmeti daglega.
 • Matur sem inniheldur mikið af trefjum, C- og D vítamíni er einnig talinn verndandi, ásamt fiski og mjólkurafurðum.
 • Regluleg hreyfing dregur úr líkum á ristilkrabbameini ásamt því að sporna gegn offitu sem eykur líkur á ýmsum gerðum krabbameina. Almennt er ráðlagt að hreyfa sig að minnsta kosti í 30-60 mínútur á dag.
 • Forðastu áfengisneyslu eða haltu henni í lágmarki.
 • Ekki reykja. Tóbaksreykingar auka mjög líkur á krabbameini, þar með talið ristilkrabbameini.
 • Forðastu rautt kjöt og unnar kjötvörur. Ekki er mælt með neyta meira en 350-500 gramma af rauðu kjöti á viku og sem allra minnst af unnum kjötvörum.

Tölfræði og lífshorfur

Almennt eru horfur sjúklinga með krabbamein í ristli og endaþarmi góðar. Ef krabbameinið uppgötvast snemma er langoftast unnt að lækna sjúklinga með skurðaðgerð en horfur versna eftir því sem sjúkdómsdreifingin er meiri.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri - Krabbameinsskrá