Krabbamein í endaþarmsopi
Krabbamein í endaþarmsopi (e. anal cancer) er fremur sjaldgæft krabbamein, að meðaltali greinast um sex tilfelli árlega á Íslandi.
Krabbamein sem myndast í endaþarmsopi er frábrugðið ristil- og endaþarmskrabbameini þar sem það myndast í annars konar frumum, svokölluðum flöguþekjufrumum. Flest tilfelli krabbameins við endaþarmsop tengjast HPV-veirusýkingum.
Helstu einkenni
- Blæðing frá endaþarmi.
- Kláði í endaþarmsopi.
- Slímkennd útferð frá endaþarmi.
- Endaþarmskveisa (Tenesmus), sem er tilfinning um að þurfa að hafa hægðir þrátt fyrir að endaþarmurinn sé tómur.
- Fyrirferð (hnúður eða þykkildi).
- Breytingar á hægðavenjum, t.d. að þurfa að fara oftar á klósettið, að eiga erfitt með að tæma alveg, lausari eða harðari hægðir en áður, sársauki/óþægindi.
Greiningaraðferðir
Við endaþarmsskoðun þreifar læknir endaþarmsopið, m.a. til að athuga hvort hann greini þykkildi.
Við endaþarmsspeglun er grannt speglunartæki sett inn um endaþarminn til að skoða innra yfirborð hans. Með tækinu er hægt að taka vefjasýni.
Þegar sýni hefur verið tekið eru gerðar svokallaðar ónæmislitanir og það skoðað í smásjá.
Tölvusneiðmynd er gerð af lungum og kviðarholi til að sjá hvort meinið hafi dreift sér til annarra líffæra.
Segulómun (MRI) er notuð til að fá nákvæmar upplýsingar, t.d. um stærð og útbreiðslu æxlis og til að hjálpa til við ákvarðanir um hvers konar meðferð sé vænlegust.
Meðferð
Lyfja- og geislameðferð. Meðferð felst aðallega í samsettri lyfja- og geislameðferð.
Skurðaðgerð. Skurðaðgerð er beitt í um þriðjungi tilfella. Oftast er einungis æxlið sjálft fjarlægt en í einstaka tilfellum þarf að fjarlægja allan endaþarminn og varanlegt ristilstóma sett upp. (Nánari upplýsingar um stóma).
Áhættuþættir og forvarnir
Meirihluti tilfella krabbameins í endaþarmsopi tengjast HPV-veirusýkingum. Það er því líklegt að tilfellum muni fækka í framtíðinni þegar áhrif HPV-veiru bólusetninga koma að fullu fram. (Nánari upplýsingar um HPV-veirur).
HPV-veirur sem geta valdið krabbameinum smitast nær alfarið með kynlífi og líkurnar á að sýkjast af HPV-veiru aukast með auknum fjölda bólfélaga.
Smokkanotkun getur dregið úr smiti.
Tölfræði og lífshorfur
Almennt eru meðferðarsvörun og horfur fremur góðar. Rannsóknir hafa sýnt að árangur af samsettri lyfja- og geislameðferð skilar svipuðum árangri og skurðaðgerð; lifun er álíka góð og einnig eru líkurnar á endurkomu sjúkdómsins svipaðar. Þó getur þurft að beita skurðaðgerð ef meðferðarsvörun er ekki góð eða ef meinið tekur sig upp aftur.