Beint í efni
Bleika slaufan sjósund

Lífs­stíll og brjósta­krabba­mein

Rannsóknir sýna að það eru nokkrir þættir tengdir því hvernig við borðum og hreyfum okkur sem hafa áhrif á líkurnar á að greinast með brjóstakrabbamein.

Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðakrabbameinsrannsóknarsjóðnum sem byggir á yfirferð fjölda rannsókna eru nokkrir lífsstílsþættir sem geta haft áhrif á líkurnar á myndun brjóstakrabbameins. Þessum staðfestu tengslum er í skýrslunni skipt eftir því hvort meinið greinist fyrir eða eftir tíðahvörf. Einnig er þar farið yfir rannsóknir á áhrifum lífsstíls á horfur eftir greiningu með brjóstakrabbamein.

Staðfest áhrif

Rannsóknir hafa staðfest að ákveðnir lífsstílsþættir (þ.e. hvernig við borðum og hreyfum okkur) hafa áhrif á líkurnar á að greinast með brjóstakrabbamein ýmist fyrir eða eftir tíðahvörf:

Regluleg hreyfing. Varðandi líkur á að greinast fyrir tíðahvörf er staðfest að regluleg hreyfing af mikilli ákefð (t.d. hlaup og hjólreiðar) minnkar líkur. Eftir tíðahvörf þarf regluleg hreyfing að vera af miðlungs- eða mikilli ákefð til að minnka líkur.

Brjóstagjöf minnkar líkur hjá móður.

Áfengisneysla eykur líkur á greiningu.

Há líkamsþyngd eða mikil þyngdaraukning á fullorðinsárum auka líkur á greiningu eftir tíðahvörf.

Vísbendingar um áhrif

Samkvæmt rannsóknum eru vísbendingar um að eftirtaldir lífsstílsþættir geti haft áhrif:

Mikil neysla á grænmeti (hér eru kartöflur ekki taldar með) virðist minnka líkur á brjóstakrabbameini af tegund meins sem er án estrógenviðtaka.

Mikil neysla á karótínóíðum (andoxunarefni sem finnast að miklu leyti í grænmeti) virðist minnka líkur.

Mikil kalkneysla virðist minnka líkur.

Neysla á mjólkurvörum virðist minnka líkur á greiningu fyrir tíðahvörf.

Hreyfing af öllu tagi virðist minnka líkur á greiningu fyrir tíðahvörf.

Jákvæð áhrif á horfur eftir greiningu

Ef konur greinast með brjóstakrabbamein hafa rannsóknir gefið vísbendingar um að eftirfarandi lífstílsþættir hafi jákvæð áhrif á horfur þeirra:

  • Að vera í hæfilegri líkamsþyngd
  • Að hreyfa sig reglulega
  • Að borða matvæli sem innihalda trefjar (t.d. heilkornavörur, ávextir og grænmeti)
  • Að borða matvæli sem innihalda soja
  • Að forðast fiturík matvæli og þá sérstaklega mettaða fitu

Aðrir þættir tengdir brjóstakrabbameini

Fyrir utan næringu og hreyfingu eru nokkrir áhrifaþættir sem tengjast líkum á því að greinast með brjóstakrabbamein.

Því fleiri tíðahringi sem konur upplifa á ævinni, því meiri er áhættan á brjóstakrabbameini. Þannig auka eftirfarandi þættir líkurnar:

  • Að byrja á blæðingum fyrir 12 ára aldur
  • Að fara seint í tíðahvörf (eftir 55 ára aldur)
  • Að verða ekki barnshafandi eða ekki fyrr en  eftir 30 ára aldur

Ofangreindir þættir eru verndandi sé þeim öfugt farið þ.e. að byrja seint á blæðingum, fara snemma í tíðahvörf og verða barnshafandi fyrir þrítugt.

Notkun tíðahvarfahormóna ætti að takmarka eins og hægt er og mikilvægt að ráðfæra sig við lækni um notkun slíkra lyfja.

Ættarsaga um brjóstakrabbamein eykur líkur á meininu hjá afkomendum. Einnig aukast líkur á brjóstakrabbameini meðal þeirra sem eru með arfgenga stökkbreytingu á BRCA1, BRCA2 eða p53 geninu.

Ekki er mælt með notkun fæðubótarefna til að minnka líkur á krabbameini. Eina fæðubótarefnið sem mælt er með að taka á Íslandi er D-vítamín, annað hvort með lýsi, lýsispillum eða D-vítamíntöflum.

Brjóstakrabbamein er eitt fárra krabbameina sem skimað er fyrir með skipulagðri hópleit. Einnig er mikilvægt að skoða sjálf brjóstin. Sjá leiðbeiningar um sjálfsskoðun brjósta.