Beint í efni
Brjóstamyndataka

Stökk­breyt­ingar í BRCA1- og BRCA2-gen­um

Stökkbreytingar í þessum genum geta valdið því að þau starfa ekki eðlilega og líkaminn framleiðir því ekki eðlileg viðgerðaprótín. Þetta veldur minni vörn gegn æxlismyndun heldur en í genum án stökkbreytinga.

Tilteknar stökkbreytingar í BRCA1- eða BRCA2-genunum hafa þau áhrif að líkur á brjósta- og eggjastokkakrabbameini í konum aukast. Einnig auka þær áhættu á nokkrum öðrum tegundum krabbameina. Um það bil 5-10% allra tilfella af brjóstakrabbameini eru talin tengjast erfðum. Þar af skýra stökkbreytt BRCA1- og BRCA2-gen allt að þriðjung. Að auki valda stökkbreytingar í þessum genum um 15% tilfella eggjastokkakrabbameins.

BRCA1-stökkbreytingar eru fremur fátíðar á Íslandi en sú gerð stökkbreytinga komst í heimspressuna fyrir nokkrum árum þegar leikkonan Angelina Jolie greindi frá því að hún hefði meðfædda BRCA1-stökkbreytingu. Hins vegar er ein tiltekin stökkbreyting í BRCA2- geni óvenju algeng á Íslandi miðað við önnur lönd og eru um 0,7% Íslendinga með hana.

Graf sem sýnir að einungis lítið hlutfall greindra brjóstakrabbameina stafa af BRCA2 arfberum.

Krabbamein hjá konum með BRCA2-stökkbreytingu eru aðeins lítið hlutfall allra brjóstakrabbameina sem greinast á Íslandi, eins og sést á þessari mynd sem sýnir aldursbundið nýgengi af hverjum 100.000 íslenskum konum fyrir árin 1980-2004.

Konur með BRCA2-stökkbreytingu á Íslandi eru að meðaltali mun yngri við greiningu brjóstakrabbameins en aðrar konur sem greinast með þennan sjúkdóm. Hjá konum með stökkbreytinguna er um fimmtungur greindra á aldrinum 40-44 ára, en algengast er að greinast með brjóstakrabbamein á aldrinum 60-64 ára.

Hvert barn erfir tvö samsvarandi gen af hvorri tegund, eitt frá móður og annað frá föður.  Stökkbreytt BRCA1- og BRCA2-gen geta erfst hvort sem er frá föður eða móður. Sé einstaklingur með stökkbreytingu í öðru af slíkum samsvarandi genum eru 50% líkur á að barn hans erfi það. Eðlilegt gen frá öðru foreldri kemur ekki í veg fyrir áhrif stökkbreytts gens frá hinu foreldrinu.

Hve mikil er áhættan hjá þeim konum sem hafa stökkbreytt BRCA1- eða BRCA2-gen samanborið við þær sem hafa ekki erft stökkbreytt gen af þessu tagi?

Um 11% líkur eru á að kona fái brjóstakrabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni. Líkurnar  aukast hins vegar verulega hafi hún erft annað hvort BRCA1- eða BRCA2-gen með áðurnefndum stökkbreytingum. Þannig eru 55-65% líkur á að kona sem hefur slíka stökkbreytingu á BRCA1-geni fái brjóstakrabbamein fyrir sjötugt og hugsanlega allt að 70% líkur hjá  konum sem eru með stökkbreytingu á BRCA2-geni. 

Líkur á eggjastokkakrabbameini aukast einnig hjá þeim sem hafa þessar stökkbreytingar, þannig eru um 1% líkur á því að kona fái eggjastokkakrabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni samanborið við 39% líkur á slíku krabbameini fyrir sjötugt hjá þeim sem hafa stökkbreytt BRCA1-gen og 11-17% líkur hjá þeim sem hafa stökkbreytt BRCA2-gen. Þess ber að geta að þessar líkur eru metnar út frá nýlegum upplýsingum en geta þó breyst eftir því sem niðurstöður fleiri rannsókna liggja fyrir.

Einnig er ljóst að aðrir þættir hafa áhrif á þessar líkur fyrir hverja og eina konu og því er áhætta á að fá brjóstakrabbamein mjög ólík milli kvenna þótt þær séu með BRCA2-stökkbreytingu. Víða um heim er unnið við gerð spáforrita til að spá fyrir um einstaklingsbundna áhættu út frá þekktum áhættuþáttum, erfðafræðilegum og öðrum. Slík forrit munu verða til mikils gagns fyrir konur með stökkbreytingu sem standa frammi fyrir erfiðri ákvarðanatöku, svo sem brottnámi brjósta og/eða eggjastokka. Þannig verður vonandi hægt að segja með nokkru öryggi á hvaða aldri viðkomandi kona sé líkleg til að greinast og hversu líklegt eða ólíklegt sé að hún fái yfirhöfuð brjóstakrabbamein eða krabbamein í eggjastokka.

Einnig skal nefnt að karlmenn sem hafa erft stökkbreytt BRCA-gen eru líklegri til að fá krabbamein í brjóst, blöðruhálskirtil og bris samanborið við aðra karlmenn. Sérstaklega er mikið hækkuð áhætta á brjóstakrabbameini hjá körlum með stökkbreytt BRCA2-gen, en almennt er brjóstakrabbameinsáhætta mjög lág hjá körlum.

Íslenskar rannsóknir hafa lagt sitt af mörkum

BRCA-genin fundust fyrir rúmum 20 árum og í ljós kom að þau eru  á litningum 13 og 17. Rannsóknirnar voru unnar í samvinnu fjölþjóðahóps vísindamanna. Íslenskir vísindamenn frá Krabbameinsfélaginu og Landspítalanum voru þar á meðal og hafði vinna þeirra markverð áhrif á niðurstöðurnar. Þar var byggt á ættum og sýnum frá Íslandi, ásamt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands.

Byggt að nokkru leyti á efni frá National Cancer Institute  – BRCA1 and BRCA2: Cancer Risk and Genetic Testing. Einnig er byggt á upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands.

Desember 2017 — með minni háttar orðalagsbreytingum 2023.