Boltar- og bandvefslosun
Boltar- og bandvefslosun er létt sjálfsnudd með blöðrubolta þar sem við erum annars vegar að mýkja þau svæði líkamans sem eiga það til að safna spennu, og hins vegar að virkja sefkerfið eða slakandi hluta taugakerfisins.
Við erum líka að losa um bandvefinn, sem er stoðvefur og hefur þann tilgang að tengja saman mismunandi vefi og vera milliliður í flutningi næringarefna og taugaboða. Bandvefurinn tengir líkamann saman. Hann umkringir vöðva, frumur, sinar, líffæri og bein. Ef rennsli milli bandvefslaga minnkar verður vefurinn þurr, sem getur haft áhrif á hreyfigetu. Bakverkir, höfuðverkir og stirðleiki eru algengar afleiðingar af of stífum bandvef.
Við notum djúpa öndun til að hjálpa okkur að slaka betur á, hreyfum okkur í takt við andardráttinn og æfum okkur í að hlusta á líkamann. Í lokin er stutt slökun.
Það er alltaf gott að byrja varlega og bæta frekar í eftir því sem við notum boltann oftar.
Hrafnhildur Sævarsdóttir, íþrótta- og yogakennari leiðir tímann. Unnið í samstarfi við Saga story house.
