Beint í efni

Auka­verk­an­ir

Það markar kaflaskil að ljúka krabbameinsmeðferð. Tímum á sjúkrahúsi fækkar, eftirlit minnkar og fólk þarf að finna taktinn í daglegu lífi á ný.

Upplifunin getur verið mismunandi. Á meðan sumir upplifa mikinn létti og horfa bjartsýnir fram á veginn, þurfa aðrir andlegan og/eða líkamlegan  stuðning til að ná kröftum aftur.

Langvinnar og síðbúnar aukaverkanir

Margir glíma við einhvers konar langvinnar eða síðbúnar aukaverkanir sem ýmist eiga rót sína að rekja til meðferðarinnar eða krabbameinsins sjálfs en samkvæmt erlendum rannsóknum búa um 50-60% lifenda við slíkar aukaverkanir.

Birtingarmynd aukaverkanna er ólík milli einstaklinga, það á við um hvaða einkenni koma fram og hversu mikil áhrif þau hafa á líðan fólks. Sumar þeirra tengjast ákveðnum tegundum krabbameina eða ákveðnum meðferðarúrræðum á meðan aðrar eru almennari. Aðrir þættir sem hafa áhrif á birtingarmynd þeirra eru t.d. lífsstíll, aðrir sjúkdómar, aldur og félagslegar aðstæður. 

Aukaverkanir geta verið til staðar löngu eftir meðferðarlok (langvinnar)  eða gert fyrst vart við sig mánuðum eða jafnvel árum síðar (síðbúnar). Líklegt er að nýjustu meðferðarúrræðin geti valdið slíkum aukaverkunum en þar sem einkennin koma oft ekki fram fyrr en mörgum árum eftir að meðferð lýkur er ekki enn vitað nákvæmlega hverjar þær eru. Mjög alvarlegar langvinnar eða síðbúnar aukaverkanir eru þó fátíðar.

Langvinnar og síðbúnar aukaverkanir geta haft áhrif á lífsgæði og líðan fólks og verið áskorun bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og aðstandendur en það eru til leiðir til að draga úr áhrifum flestra þeirra.

Ef þú finnur fyrir einkennum sem þú hefur áhyggjur af og telur að gætu verið síðbúnar aukaverkanir ættir þú að leita ráða hjá heimilislækni eða heilbrigðisstarfsfólki sem sinnti þér í krabbameinsmeðferðinni.

Skýringarmynd með ólíkum langvinnum og síðbúnum aukaverkunum

Langvinnar og síðbúnar aukaverkanir

Kvíði og þunglyndi

Algengt er að finna fyrir áhyggjum, depurð, kvíða og þunglyndi í tengslum við sjúkdóminn og meðferðina. Að sama skapi létti þegar krabbameinsmeðferð lýkur en einnig kvíða, sorg og áhyggjur af framtíðinni. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð við krefjandi lífsreynslu.

Sjá nánar um kvíða og þunglyndi.

Vitrænar áskoranir

Með vitrænum áskorunum er átt við áskoranir tengdar vitrænni getu. Og með viðrænni getu er átt við starfsemi heilans sem á sér stað þegar við eigum m.a. í samskiptum, lærum og leysum vandamál. Það er ýmislegt hægt að gera til að minnka áhrif þeirra. 

Sjá nánar um vitrænar áskoranir.

Þreyta og magnleysi

Þú getur upplifað aukna þreytu eftir krabbameinsmeðferð, en það er einstaklingsbundið hversu mikil hún er. Við skiptum krabbameinstengdri þreytu upp í tvennt, eftir því hve lengi hún stendur yfir.

Sjá nánar um krabbameinstengda þreytu.

Svefntruflanir

Meðan á krabbameinsmeðferð stendur og/eða eftir að henni lýkur verða margir fyrir svefntruflunum. Andlegt álag, verkir, streita og fleira í tengslum við krabbamein og meðferð þess, geta haft áhrif á svefninn.

Sjá nánar um svefntruflanir.

Að takast á við krabbameinstengda þreytu

Rannsóknir ásamt reynslu heilbrigðisstarfsfólks og þeirra sem hafa lokið krabbameinsmeðferð sýna að það er ýmislegt hægt að gera til að draga úr krabbameinstengdri þreytu.

Hreyfing

Mikilvægt er að þú finnir hreyfingu sem hentar og stundir hana reglulega, byrja  rólega en lengja  síðan tímann eftir aðstæðum. Sund, jóga, göngutúr og styrktaræfingar geta til að mynda dregið úr þreytu, aukið orku, vellíðan og bætt svefngæði. Þá getur hreyfing auðveldað þér að slaka á.

Virkni og hvíld

Gættu að jafnvægi milli virkni og hvíldar, skipuleggðu hvíld inn í dagskrá dagsins. Þetta á sérstaklega við fyrir og eftir krefjandi verkefni. Forgangsraðaðu svo orkan nýtist í það sem er mikilvægt fyrir þig og veitir þér gleði. Fylgstu með á hvaða tíma dagsins þér líður best og hefur mesta orku og skipuleggðu mikilvægustu athafnir þínar á þeim tíma. Nauðsynlegt getur verið að ákveða hvaða verkefni þarf að gera í dag, hvað getur beðið og biðja um aðstoð þegar þörf krefur.

Margir upplifa streitu og kvíða við að sinna sömu hlutverkum í lífinu með minni orku. Þá er mikilvægt að ræða við fólkið sitt og vinnuveitendur, þegar það á við, til þess að stilla væntingar þeirra af í samræmi við getu. Streitustjórnunaraðferðir á borð við núvitund eða jóga geta einnig reynst gagnlegar.

Mataræði

Þrátt fyrir þreytu er mikilvægt að nærast vel. Borða fjölbreyttan og næringarríkan mat sem þér finnst góður og lystugur og drekka vel af vökva. 

Svefn

Krabbameinstengd þreyta getur valdið svefntruflunum. Það er því ráð að viðhalda góðri svefnrútínu, vakna og fara að sofa á svipuðum tíma, á hverjum degi. Reyndu að sofa sem minnst yfir daginn. En sé þess þörf er best að hafa blundinn ekki lengri en 20 mínútur og helst fyrir klukkan 17. 

Sálfræðimeðferð

Fyrir marga getur sálfræðimeðferð létt á einkennum krabbameinstengdrar þreytu. Til dæmis hefur námskeið í hugrænni atferlismeðferð reynst mörgum vel. Í slíkri meðferð er til að mynda mögulegt að vinna með hugsanir og atferli sem hafa truflandi áhrif á svefn.

Heimildir

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/traethed/

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/fatigue-utmattelse/

https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/cancer/in-depth/cancer-fatigue/art-20047709

Breytt líkamsímynd

Líkamsímynd er hluti af sjálfsmynd fólks og snýr að hugsun, upplifun og tilfinningu til eigin líkama. Hún hefur áhrif á andlega heilsu og lífsgæði og því mikilvægt að hún sé jákvæð.

Sumar breytingar sem fólk upplifir á líkama sínum við krabbameinsgreiningu og/eða meðferð eru sýnilegar en aðrar ekki. Þyngdartap, þyngdaraukning, sogæðabjúgur eða ör eftir skurðaðgerð eru allt sýnilegar breytingar á meðan ófrjósemi og þreyta sjást ekki en hafa engu að síður mikil áhrif. Þá upplifa sumir að líkaminn hafi svikið sig og eiga erfitt með að treysta honum eftir að hafa greinast með krabbamein.

Breytt líkamsímynd getur falið í sér breytingar á:

 • Hvernig líkaminn lítur út
 • Hvernig líkaminn starfar
 • Hvernig þú upplifir líkamann

Birtingarmynd breyttrar líkamsmyndar er ólík hjá hverjum og einum. Sumir eru óánægðir með líkama sinn og hafa minna sjálfstraust. Aðrir finnast þeir eldast hratt í útliti í kjölfar krabbameinsmeðferðar og kannast ekki við sig í speglinum. Breytt líkamsímynd getur líka falist í því að einstaklingar upplifi sig aðlaðandi.

Mörgum er það áhyggjuefni hvernig þau koma öðrum fyrir sjónir eða hvaða áhrif breyttur líkami hefur á náin sambönd og breytt líkamsímynd getur í sumum tilfellum orðið til þess að fólk einangrar sig. Áhyggjur af því hvað öðrum finnst verða þá til þess að þau forðast aðstæður þar sem aðrir geta séð líkama þeirra (t.d. sund eða líkamsrækt), forðast líkamlega nánd og jafnvel að fara út á meðal fólks. Slík hegðun getur til lengri tíma valdið enn meiri vanlíðan og áhyggjum og haft hamlandi áhrif á samskipti og athafnir daglegs lífs. 

Heimildir

Body image and cancer booklet - Macmillan Cancer Support

MAC14192 Body image and cancer (macmillan.org.uk)

senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf (cancer.dk)

Hvað er líkamsmynd? | Heilsuvera

Frjósemi

Sumar krabbameinsmeðferðir geta dregið úr frjósemi. Í einhverjum tilfellum eru áhrifin tímabundin, en í öðrum valda meðferðir ófrjósemi til frambúðar.

Skert frjósemi getur orsakast af:

 • Krabbameinsæxli sem skaðar innri eða ytri kynfæri
 • Skurðaðgerð þar sem hluti af kynfærum eins og eggjastokkum, legi, leghálsi, eistum eða typpi, eru fjarlægð
 • Ákveðnar krabbameinsmeðferðir geta valdið skaða á eggjastokkum eða eistum með þeim afleiðingum að framleiðsla kynhormóna truflast og hefur þannig skaðleg áhrif á frjósemi
 • Sálfræðileg eða tilfinningaleg viðbrögð vegna krabbameins, t.d. streita og kvíði

Þessi atriði geta hvert fyrir sig eða saman, haft neikvæð áhrif á frjósemi og getuna til að eignast barn.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi kvenna:

 • Ef báðir eggjastokkar eða leg er fjarlægt verða konur ófrjóar.
 • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi hjá konum. Áhrifin á frjósemina eru þó mismunandi og fara meðal annars eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.
 • Geislameðferð nálægt æxlunarfærum kvenna getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.
 • Andhormónameðferð hjá konum byggist á því að minnka eða hindra virkni estrógens, en það hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist aftur eftir að meðferðinni lýkur.

Ef konur vilja eiga möguleika á því að eignast börn eftir krabbameinsmeðferð er mjög mikilvægt að ræða fyrirfram við lækni eða hjúkrunarfræðing, hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemina. Í sumum tilfellum eru egg fryst áður en meðferð hefst.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi karla:

 • Ef bæði eistu eru fjarlægð verða menn ófrjóir.
 • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi. Áhrif á frjósemina eru þó mismunandi og fara meðal annars eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.
 • Ef eitlar nálægt kynfærum, blöðruhálskirtli eða sáðblöðrum eru fjarlægðir í skurðaðgerð getur það valdið skertri frjósemi.
 • Geislameðferð nálægt kynfærum getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.
 • Andhormónameðferð byggist á því að minnka eða hindra virkni testósteróns og hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist eftir að meðferð lýkur.

Ef karlar vilja eiga möguleika á því að eignast börn eftir krabbameinsmeðferð er mjög mikilvægt að ræða fyrirfram við lækni eða hjúkrunarfræðing, hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemina. Í sumum tilfellum er sæði fryst áður en meðferð hefst.

Framleiðsla á testósteróni getur minnkað eða stöðvast alveg í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Þeir sem upplifa einkenni á borð við þreytu og orkuleysi, hitakóf, minni afköst, skerta kynlöngun og/eða kyngetu þurfa í sumum tilfellum á testósterón meðferð að halda.

Heimildir

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader/fertilitet/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-kvinder/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-maend/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-kvinder/

Hjarta- og æðasjúkdómar

Geislameðferð á brjóstkassa, þar sem hjartað er hluti af geislunarsvæðinu, eykur hættu á kransæðasjúkdómi sem og hjartabilun, hjartsláttartruflunum og lokugalla síðar í lífinu. Ákveðnar tegundir krabbameinslyfja t.d. Trastuzumab, Antracycline og Cisplatin geta aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum síðar í lífinu.

Sem betur fer upplifir aðeins lítill hluti sjúklinga aukaverkanir sem hafa áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma. Misjafnt er hversu langur tími líður frá því að meðferð lýkur þangað til einkenni koma fram hjá þeim sem fá slíka sjúkdóma í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Hjá mörgum koma einkenni ekki fram fyrr en árum eða áratugum eftir að meðferð lýkur.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að ræða við heimilislækni ef þú hefur fengið krabbameinsmeðferð sem getur haft áhrif á hjarta- og æðakerfið. Einnig er nauðsynlegt að vera meðvitaður um einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og leita sér hjálpar ef slík einkenni koma fram.

Heilbrigður lífsstíll er lykilatriði til þess að draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Ráðlagt er að stunda reglulega hreyfingu, viðhalda hæfilegri líkamsþyngd, forðast reykingar og óhóflega notkun áfengis og fylgjast með að blóðþrýstingurinn sé ekki yfir viðmiðunarmörkum.

Leitaðu strax læknisaðstoðar ef þú upplifir eftirfarandi einkenni

 • Verk, þrýsting eða þyngsli í brjóstkassa
 • Verk, dofa eða óþægindi í efri hluta líkamans, s.s. í baki, handlegg, öxl, hálsi, maga eða kjálka/tönnum
 • Óreglulegan, hægan eða mjög hraðan hjartslátt
 • Mæði
 • Ógleði, uppköst, uppþembu eða brjóstsviða
 • Svita og/eða kaldsveitta húð

Ef þú telur að þú sért að fá hjartaáfall, hringdu strax í 112 og óskaðu eftir sjúkrabíl.

Heimildir

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/hjerte-og-karsykdommer/

Seneffekter etter kreftbehandling (helsedirektoratet.no)

Vidensopsamling på senfølger efter kræft hos voksne - Sundhedsstyrelsen

Krabbameinstengd þreyta

Krabbameinstengdri þreytu má lýsa sem óvenju mikilli og íþyngjandi þreytu. Hún er ólík venjulegri þreytu, leggst mismunandi á fólk og það er ekki hægt að sofa hana úr sér. Sumir upplifa skerta orku á meðan aðrir eru meira og minna rúmliggjandi. Þreytan er jafnframt óáþreifanleg og ógreinanleg með blóðprufum eða öðrum líkamlegum mælingum og orsakir hennar eru ólíkar. Hún getur komið fram vegna krabbameinsmeðferða, verkja, blóðleysis, tilfinningalegs álags, svefnleysis, skertrar næringarinntöku, lyfja, lítillar hreyfingar eða breytinga á hormónastarfsemi líkamans.  Þá geta þreytu einkenni verið meiri og varað lengur hjá eldra fólki en þeim sem yngri eru.

Við skiptum krabbameinstengdri þreytu upp í tvennt, eftir því hve lengi hún stendur yfir:

Tímabundin eða skammvinn krabbameinstengd þreyta sem tengist sjúkdómnum eða krabbameinsmeðferðinni beint. Eftir að meðferð lýkur dregur hægt og rólega úr einkennum.

Langvinn eða síðbúin krabbameinstengd þreyta sem getur komið fram eftir að meðferð lýkur eða enn er til staðar meira en sex mánuðum síðar. Hún getur varað mánuðum eða árum saman og í sumum tilfellum er hún varanleg. 

Krabbameinstengd þreyta er algengasta langvinna eða síðbúna aukaverkunin.

Þar sem krabbameinstengd þreyta er óáþreifanleg, virðast margir hraustari og betur upplagðir en þeir eru í raun og veru. Þetta getur haft í för með sér að fólk upplifi óraunhæfar kröfur frá umhverfinu. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að ræða um líðan sína við fólkið í kringum sig.

Krabbameinsþreytu upplifa margir sem

 • Orku- og úthaldsleysi, syfja, sljóleiki, depurð og leiði
 • Vanlíðan, vera úrvinda, búin á því og finna til vanmáttar
 • Einbeitingarskort, minnistruflanir og þunglyndiseinkenni
 • Erfiðleika við að koma fyrir sig orði
 • Orkuleysi við að takast á við ánægjuleg verkefni
 • Örðugleika við lestur, gleyma jafnóðum því sem búið er að lesa
 • Lengri tíma til að jafna þig eftir líkamlega eða andlega áreynslu
 • Þreytu í ósamræmi við áreynslu
 • Hamlandi, kemur í veg fyrir daglegar venjur eins og að stunda vinnu og verja tíma með vinum og fjölskyldu.

Heimildir

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/traethed/

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/fatigue-utmattelse/

https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/cancer/in-depth/cancer-fatigue/art-20047709

Kynlíf eftir krabbamein

Að greinast með krabbamein getur haft áhrif á alla þætti lífsins, þar á meðal kynlíf. Fyrir flesta er kynlíf mikilvægur hluti af tilverunni, en við krabbameinsgreiningu og meðferðir er eðlilegt að það falli í skuggann til lengri eða skemmri tíma. Orsökin getur verið líffræðileg, sálfræðileg, félagsleg, eða blanda af þessu þrennu.

Hjá konum eru þekktar aukaverkanir eins og verkir við samfarir, ytri kynfærum, leggangaopi eða leggöngum, minnkuð kynlöngun, þurrkur í leggöngum, blæðingar í tengslum við kynlíf og röskun á hormónajafnvægi. 

Hjá körlum eru það meðal annars risvandamál, minni kynlöngun, truflun eða skortur á sáðláti og röskun á hormónajafnvægi. 

Hvað hjálpar hverjum og einum fer eftir eðli vandans. Sleipiefni, hormónalyf, kynlífstæki og stinningarlyf eru dæmi um það sem getur nýst fólki eftir krabbameinsmeðferð.

Sumir upplifa vanlíðan ef löngun og/eða geta til þess að stunda kynlíf minnkar eða hverfur.  Það getur reynst erfitt að tala við maka eða heilbrigðisstarfsfólk um tilfinningar tengdar kynlífi. Þetta er oft falið vandamál sem heilbrigðisstarfsfólk minnist ekki alltaf á í tengslum við krabbameinsmeðferð.

Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að krabbameinssjúklingar fá almennt takmarkaðar upplýsingar um þau áhrif sem krabbameinsmeðferðir geta haft á kynlíf ásamt þeim stuðningi eða úrræði í boði er. Því er mikilvægt að ræða við einhvern, eins og kynfræðing, sálfræðing, lækni eða hjúkrunarfræðing ef fólk upplifir vandamál tengd kynlífi eftir krabbameinsmeðferð.

Kynlíf og sambönd

Krabbamein og krabbameinsmeðferð veldur líkamlegum breytingum og andlegu álagi sem getur reynt mjög á náin sambönd. Í sumum tilfellum styrkjast samböndin, en í öðrum tilfellum veldur álagið vandamálum. Í kjölfar krabbameinsgreiningar og meðferðar finna margir fyrir kvíða, reiði, eirðarleysi og breyttri sjálfsmynd. Þessir þættir geta haft áhrif á samskipti, náin sambönd og kynlíf, óháð því hvort sjúkdómurinn og meðferðin hafi bein áhrif á líkamlega virkni og getu til þess að stunda kynlíf.

Kynlíf eftir krabbamein

Það getur verið stórt skref að byrja að stunda kynlíf aftur eftir krabbameinsmeðferð. Það getur líka tekið tíma að venjast líkama sem er á einhvern hátt öðruvísi en áður. Sumir eru t.d. hræddir við að meiða þegar þeir stunda kynlíf og aðrir eru hræddir við höfnun. Fyrsta skrefið er að vinna með sjálfsmyndina og viðhorfið. Það er mikilvægt að sætta sig við sjálfa/n sig, með þeim ummerkjum sem krabbameinið og meðferðin hefur skilið eftir. Hafa skal í huga að kynlíf getur verið svo margt annað en samfarir. Nánd, snerting, faðmlög og kossar eru fyrir marga ekki síður mikilvæg en samfarir.

Munn- og tannheilsa

Það er ávallt mikilvægt að hlúa að munn- og tannheilsu. Til að draga úr vandamálum þeim tengdum sem geta komið upp í krabbameinsmeðferð er mikilvægt að borða holla fæðu, fara reglulega til tannlæknis og sinna vel tann- og munnhirðu.

Möguleg munn- og tannvandamál í tengslum við krabbameinsmeðferðir

 • Skemmdir á slímhúð, munnvatnskirtlum og beinvef í tengslum við geislameðferð
 • Hægst getur á vexti og endurnýjun fruma í slímhúð sem þekur munninn að innan vegna áhrifa lyfja- og geislameðferða sem hafa það markmið að hægja á eða stöðva vöxt og endurnýjun krabbameinsfruma
 • Bakteríuflóra í munni getur raskast við lyfja- og geislameðferð og leitt til munnsára, sýkinga og tannskemmda.

Mögulegar aukaverkanir á munn- og tannheilsu

 • Munnþurrkur.
 • Eymsli og óþægindi í munni.
 • Kyngingarörðugleikar.
 • Slímhúð í munni getur verið rauð og viðkvæm.
 • Breyting á bragðskyni.
 • Andfýla.
 • Auknar líkur á tannskemmdum.
 • Tennur geta orðið stökkari/brothættari.
 • Skemmdir á kjálkabeini.
 • Vannæring og/eða ofþornun vegna vandamála við inntöku matar eða drykkjar.

Góð ráð við munn- og tannvandamálum

 • Bursta tennur a.m.k. tvisvar sinnum á dag með mjúkum bursta og flúortannkremi
 • Mýkja burstahárin áður en burstað er með því að halda burstanum undir heitu vatni í nokkrar sekúndur
 • Velja sápulaust tannkrem með mildu bragði, sterkt bragð getur valdið óþægindum
 • Tyggja sykurlaust tyggjó eða sykurlausar munnvatnsörvandi bragðtöflur til að örva munnvatnsframleiðslu
 • Nota gervimunnvatn sem fæst í apótekum, en þar er einnig að finna sprey og gel sem vinna gegn munnþurrki
 • Nota tannþráð daglega en forðast að særa viðkvæmt tannholdið.
 • Nota munnskol sem ekki inniheldur alkóhól
 • Bera varasalva eða vaselín á varirnar
 • Borða mat sem þarf að tyggja, það eykur munnvatnsframleiðslu
 • Ekki nota sætindi til að lina munnþurrk, þar sem sætindi auka líkur á tannskemmdum
 • Reykingafólk sem fær höfuð- eða hálskrabbamein ætti að reyna að hætta að reykja. Það getur haft mikið að segja fyrir munn- og tannheilsu

Heimildir

https://www.cancer.gov/about-cancer/treatment/side-effects/mouth-throat/oral-complications-pdq

Munn-/tannproblemer og nedsatt smaksfunksjon - Kreftforeningen

senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf (cancer.dk)

Nýtt krabbamein

Hvað er til ráða?

Fólk sem hefur farið í gegnum krabbameinsmeðferð ætti að hafa samband við lækni ef það upplifir breytingar/einkenni sem vara lengur en 2-3 vikur.

Sum krabbamein má rekja til óheilsusamlegra lifnaðarhátta. Mikilvægt er að huga að heilbrigðum lífsstíl, t.d. stunda hreyfingu, borða hollan mat, forðast reykingar og forðast yfirþyngd.

Heimild

Ny kreftsykdom (sekundær kreft) - Kreftforeningen

Ótti við endurkomu

Áhyggjur og ótti við endurkomu krabbameins á sér eðlilegar skýringar. Ein er sú að eitt af hlutverkum mannsheilans er að vera á verði fyrir mögulegum hættum og tryggja öryggi fólks. Og eftir krabbameinsmeðferð heldur hann sínu striki til að reyna að koma í veg fyrir að slík hætta komi upp aftur. Önnur skýring, þú gætir átt erfitt með að treysta líkama þínum aftur, fundist hann hafa svikið þig þrátt fyrir heilbrigðan lífsstíl.  Eða verið með krabbamein án allra einkenna sem gerði það að verkum að sjúkdómurinn uppgötvaðist seint.

Með tímanum dvínar óttinn við endurkomu krabbameins hjá flestum. Í aðstæðum sem rifja upp fyrri reynslu getur hann skotist fram, eins og:

 • Við eftirlit og eftirfylgniviðtöl
 • Ákveðnar dagsetningar, t.d daginn sem krabbameinið greindist eða aðgerðardag.
 • Þegar þú finnur til einkenna sem eru svipuð þeim sem komu fram fyrir greiningu
 • Heyrir af krabbameinsgreiningu annarra eða fráfalli einhvers sem var með krabbamein.
 • Keyrir fram hjá eða kemur á spítalann þar sem meðferðin fór fram.

Vítahringur ótta

Óttinn við endurkomu er eðlilegt viðbragð við mögulegri hættu, en hann getur orðið að yfirþyrmandi og óyfirstíganlegum vítahring.

Oft er einhver „kveikja” (e.trigger) sem veldur, til dæmis líkamlegir verkir eða að heyra af fólki sem greinist með krabbamein. Þetta getur valdið áhyggjum og þar sem heilinn greinir þetta sem hættuástand fer að bera á óróleika og kvíðaeinkennum. Í kjölfarið er eðlilegt að reyna að ná stjórn á aðstæðum, t.d. með því að skoða líkamann oft, hafa samband við heilbrigðisstarfsfólk, fara í skoðanir og útiloka að eitthvað sé að. Margir finna aftur ró og öryggi eftir slík, en það getur enst stutt þar sem margar aðstæður geta „kveikt” óttaviðbragð á ný.

Þegar fólk upplifir sig fast í vítahring erfiðra hugsana og áhyggna er mikilvægt að leita sér hjálpar.

Ráð til að takast á við ótta um endurkomu

 • Ræða við heilbrigðisstarfsfólk um einkenni sem þú átt að vera vakandi fyrir og gætu bent til þess að krabbameinið sé komið aftur
 • Vita hvað þú getur gert til að efla heilsuna og hvert þú átt að leita ef á þarf að halda
 • Viðurkenna óttann og tala við einhvern um þessar tilfinningar. Oft er auðveldara að sleppa taki af áhyggjum þegar þú hefur náð að setja þær í orð. 
 • Ræða við fjölskyldumeðlimi, vini, annað fólk sem hefur fengið krabbamein eða heilbrigðisstarfsfólk. Ráðgjöf og stuðningur Krabbameinsfélagsins stendur alltaf til boða, þér að kostnaðarlausu.
 • Einbeita þér að því sem þú getur gert til auka vellíðan þína. 
 • Styrkja heilsuna með því að borða heilsusamlegan mat, hreyfa þig reglulega og taka virkan þátt í lífinu ásamt því að reyna að sofa sem best.
 • Hugleiða og gera öndunar- og núvitundaræfingar.

Heimildir

Er du rett for at kreften skal komme tilbake? (kreftforeningen.no)

Er du redd for tilbakefall? - Kreftforeningen

senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf (cancer.dk)

Snemmbúin tíðahvörf

Ef um náttúruleg tíðahvörf er að ræða fer kona í gegnum breytingaskeið þar sem smátt og smátt dregur úr framleiðslu kynhormóna. Þetta ferli getur staðið yfir í nokkur ár. En þegar kona sem ekki hefur farið í gegnum breytingaskeiðið og fer í aðgerð þar sem báðir eggjastokkar eru fjarlægðir eða fær geislameðferð í grindarholi sem skaðar eggjastokka, þá fer hún snögglega í tíðahvörf. Þessi hraða breyting á hormónaframleiðslu getur reynt mjög á líkamann. 

Konur sem hafa ekki farið í gegnum breytingaskeið og taka inn andhormónalyf geta upplifað snemmbúin tíðahvörf, en tíðahvörf af völdum andhormónalyfja geta þó mögulega gengið til baka þegar meðferð lýkur. Andhormónameðferðir hafa það að markmiði að draga úr áhrifum estrógens og slíkar meðferðir geta haft í för með sér ýmsar aukaverkanir.

Möguleg einkenni við snemmbúin tíðahvörf

 • Hitakóf
 • Þurrkur í leggöngum
 • Þvagleki
 • Skapsveiflur
 • Minni kynlöngun
 • Óreglulegar blæðingar eða tíðahvörf
 • Svefntruflanir
 • Verkir í liðum
 • Aukin hætta á beinþynningu
 • Þyngdaraukning

Heimildir

Tidlig overgangsalder hos kvinner - Kreftforeningen

Long-Term Side Effects of Cancer Treatment | Cancer.Net

Aukaverkanir sameiginlegar andhormónalyfjum | Brjóstakrabbamein (brjostakrabbamein.is)

Sogæðabjúgur

Skurðaðgerðir, geislameðferðir og sumar tegundir krabbameinslyfja geta skaðað sogæðakerfið og þannig leitt til sogæðabjúgs. Í þeim tilfellum sem það gerist er misjafnt hvenær bjúgurinn gerir vart við sig. Stundum er það strax eftir krabbameinsmeðferð, en líka löngu eftir að meðferð lýkur. 

Við sogæðabjúg raskast sogæðakerfið en hlutverk þess er aðallega þríþætt. Í fyrsta lagi safna sogæðar umfram millifrumuvökva í vefjum líkamans og skila honum aftur út í blóðrásina. Í öðru lagi taka sogæðar í þörmum við fituefnum og koma þeim í blóðrásina. Í þriðja lagi tekur sogæðakerfið þátt í flutningi ónæmisfruma og mótefna.

Hvað er sogæðabjúgur?

Sogæðabjúgur er vökvasöfnun sem verður vegna skertrar starfsgetu sogæðakerfisins í ákveðnum líkamshluta og er langvinnt ástand. Algengast er að sogæðabjúgur komi fram í handleggjum eða fótleggjum, en hann getur einnig komið fram á öðrum stöðum svo sem brjósti, andliti, hálsi, ytri kynfærum, baki eða kvið. Sogæðabjúgur er ekki hættulegur, en getur valdið miklum óþægindum.

Sogæðabjúgur er algengastur hjá konum sem fá meðferð við brjóstakrabbameini eða krabbameini í kvenlíffærum. Hann getur þó einnig myndast í kjölfar meðferðar krabbameins á höfuð- og hálssvæði auk þess sem karlar geta fengið sogæðabjúg út frá meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli, typpi eða eistum. Engin þekkt lækning er til við sogæðabjúg en ýmsar áhrifamiklar leiðir við að halda einkennum niðri og minnka óþægindi, er til.

Ráð við sogæðabjúg

Mikilvægt er að vera vakandi fyrir einkennum og leita sér fljótt aðstoðar ef sogæðabjúgur gerir vart við sig. 

Ráð við að halda einkennum sogæðabjúgs niðri felast fyrst og fremst í:

 • Æfingum sem auka blóðflæði 
 • Þrýstimeðferð, t.d. með sérstakri þrýstiermi eða þrýstisokk
 • Sogæðanuddi sem örvar sogæðakerfið og getur stýrt flæði sogæðavökvans fram hjá „lokuðu“ svæði, t.d. þar sem eitlar hafa verið fjarlægðir
 • Húðumhirðu og hreinlæti, þar sem sogæðabjúgurinn veldur því að húðin verður þurr og teygjanleiki minnkar sem leiðir til þess að hún rifnar/springur auðveldlega og verður útsettari fyrir sýkingum.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að hreyfing, hollt mataræði og hæfileg líkamsþyngd hafa jákvæð áhrif á blóðflæði líkamans, sem getur aukið virkni sogæðakerfisins.

Heimildir

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/lymfoedem/

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/lymfodem/

https://www.cancerresearchuk.org/about-cancer/coping/physically/lymphoedema-and-cancer/about