Anna Margrét Björnsdóttir 26. sep. 2023

"Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Framfara­skref í barátt­unni gegn lungna­krabbameini

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Byltingarkennd nýjung

„VATS-aðgerð, eins og hún er kölluð, þýðir að það er verið að nota brjóstholssjá og fara með sérstaklega hönnuð verkfæri á milli rifbeinanna í gegnum lítil göt í staðinn fyrir að glenna rifin í sundur,“ segir Tómas. „Þegar ég heyrði fyrst af því að hægt væri að beita VATS-aðgerð til að framkvæma blaðnám þá fannst mér það hljóma mjög fjarstæðukennt. Að taka lunga sem getur verið einhverjir lítrar að stærð út um þriggja cm skurð. Ég var líka með efasemdir um hvort þessi aðferðafræði væri jafn örugg. Á Íslandi vorum við þegar að vinna blaðnám í gegnum 12 cm skurð sem er helmingi minni skurður en víða tíðkaðist og árangurinn góður miðað við önnur lönd. Við vorum þar af leiðandi ekki tilbúin að skipta yfir nema þetta væri raunverulega framför.“

Fleiri rannsóknir staðfestu hins vegar að um örugga aðferð væri að ræða og Tómas fór til Gautaborgar fyrir fimm árum síðan og lærði aðferðafræðina af Martin Silverborn, sem var þá búinn að beita aðferðinni í sjö ár. „Það er yfirleitt þannig með skurðlækna að við kynnumst einhverju erlendis í sérnámi og tökum það með okkur heim, en ég er orðinn það gamall hundur að ég þurfti að fara aftur út til að læra þetta. Ég naut góðs af þeirra góða undirbúningi og fékk að gera svona aðgerðir sjálfur úti og fékk svo eftirfylgni frá Martin hér heima. Þetta er ekki einföldustu sjúklingarnir sem maður gerir aðgerðir á, oft með einhverja fylgisjúkdóma og því mikilvægt að fara varlega í svona umfangsmikla breytingu.“

Screenshot-2023-09-20-160235

Skipt um stefnu á einni nóttu

Að því sögðu gekk afar hratt fyrir sig að breyta um aðferðafræði um leið og búið var að staðfesta öryggi hennar og afla kunnáttunnar. „Við erum minnsta hjarta- og lungnaskurðdeildin á Norðurlöndum, langminnsta. En við erum að vinna sömu vinnu og viðhalda sömu gæðum og á stærri skurðdeildum erlendis. Það er fréttnæmt út af fyrir sig,“ segir Tómas. „Kosturinn við smæðina er sá að það eru fáir skurðlæknar sem um ræðir og því mun auðveldara fyrir okkur að breyta um stefnu. Tilfærslan yfir í VATS-aðgerðir gerðist þannig næstum því á einni nóttu.“ Að sögn Tómasar gerir smæðin okkur einnig ákjósanlegan vettvang fyrir samanburðarrannsókn á gæðum mismunandi aðferðafræði.

Verkefnið Nýjungar í skurðmeðferð lungnakrabbameins á Íslandi, sem styrkt er af Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins, gengur einmitt út á slíkan samanburð. Helsta markmið rannsóknarinnar er að bera árangur VATS-aðgerða saman við þær sem gerðar voru með brjóstholsskurði og meta hvort árangur hafi batnað, ekki síst hvað alvarlega fylgikvilla varðar og lifun. Læknanemarnir Viktor Ásbjörnsson, Gyða Jóhannesdóttir og Daníel Meyer mynda rannsóknateymi undir handleiðslu Tómasar og hafa undanfarin tvö ár unnið að gagnavinnslu og gæðaeftirliti með hinni nýju aðferðafræði.

Smæðin kostur

„Kosturinn við það að gera svona samanburð á Íslandi, að bera saman mismunandi aðferðafræði, er að aðstæður eru einsleitari hérlendis heldur en víða erlendis,“ segir Viktor og Tómas tekur undir með honum. „Í flestum tilfellum er sami skurðlæknirinn að framkvæma aðgerðina hérlendis, á sömu stofnun og landið allt undir. Það gerir okkur auðveldara fyrir við útreikninga á svokölluðu skurðhlutfalli, sem er ákveðinn gæðavísir þegar kemur að lungnakrabbameini og metur hversu margir sjúklingar af öllum þeim sem greinast með lungnakrabbamein gangast undir skurðaðgerð. Við búum líka að því að hafa samanburð við mjög stóra rannsókn um árangur af opnum skurðaðgerðum við lungnakrabbameini sem birtist í einu virtasta krabbameinsblaði í heimi, Journal of Thoracic Oncology.“

„Stundum er sagt að maður sé að bera saman epli og appelsínur, af því að það hafa orðið aðrar framfarir samhliða eins og t.d. í svæfingu,“ segir Tómas. „Þarna erum við hins vegar búin að útiloka ýmislegt sem gæti bjagað niðurstöður og teljum okkur þess vegna hafa ansi góðar vísbendingu um árangurinn og framfarirnar.“ Tómas nefnir ávinning eins og lægri dánartíðni og fækkun um helming á alvarlegum fylgikvillum. Legutíminn hefur einnig helmingast miðað við opnar aðgerðir og þá er einnig hægt að framkvæma fleiri aðgerðir með sama fjölda leguplássa. „Það stórkostlegasta er að sjá sjúklingana. Sumir fara heim strax daginn eftir, eða tveimur dögum eftir aðgerð.“

Lungnakrabbamein ekki fengið þá athygli sem það á skilið

Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbameinið á Íslandi hjá konum og þriðja hjá körlum og þótt hægt hafi á nýgengi sjúkdómsins er lungnakrabbamein enn með algengustu dánartíðni meðal krabbameina. Að mati Tómasar á baráttan gegn lungnakrabbameini töluvert inni enn. „Enginn sjúkdómur er mikilvægari en annar, en lungnakrabbamein hefur klárlega ekki fengið þá athygli sem það á skilið og skýringin á því er frekar einföld, held ég. Þetta eru upp til hópa einstaklingar sem reykja, eða hafa reykt, og það er eins og þeir mæti ekki alveg sama skilningi og aðrir sjúklingahópar.“ Tómas bendir jafnframt á að við vitum mun meira um skaðsemi reykinga í dag heldur en við gerðum á árum áður. „Þetta eru einir þakklátustu sjúklingarnir sem ég meðhöndla í mínum störfum og það er afar mikilvægt að við sinnum þessum sjúklingahópi vel, því það er er svo mikið í húfi.“

Rannsókn sem nýtist í víðara samhengi

VATS-rannsóknin íslenska hefur ekki bara sýnt fram á góðan árangur með breyttri aðferðafræði, heldur einnig gefið vísbendingu um aukið skurðhlutfall sem gæti tengst auknum fjölda myndrannsókna á lungum, t.d. í tengslum við Covid-19. Eitt af því sem Tómas og Viktor sjá fyrir sér sem mögulegt framfaraskref í baráttunni við sjúkdóminn er skimun til að auka hlutfall skurðtækra meina, þótt slíkt myndi vissulega fjölga lungnaskurðaðgerðum og auka álag á greiningarferli lungnalækna. „Vandamálið við lungnakrabbameinið er hvað það greinist seint. Það er gríðarlega gott aðgengi að tölvusneiðmyndum á Íslandi, miklu betra heldur en t.d. í Svíþjóð, svo þetta strandar ekki á þeim innviðum,“ segir Tómas.

„Það sem hefur aðeins staðið í fólki varðandi skimanir er að til þess að finna fimm tilfelli lugnakrabbameins þarf kannski að gera 1.000 tölvusneiðmyndir. En við þurfum ekki að skima alla 55 ára og eldri, heldur er til dæmis hægt að skilgreina áhættuhópa og þá fyrst og fremst þá með langa reykingasögu. Þetta á einnig við um einstaklinga sem tilheyra fjölskyldum þar sem vísbendingar eru um erfðatengd mein. Þessi gögn sem Viktor og félagar hafa verið að safna gætu þar af leiðandi verið mikilvægt innlegg í þá umræðu.“

Hvetur fólk til að leggja vísindunum lið

Að mati Tómasar hefur margt jákvætt gerst á undanförnum árum í heimi krabbameinslækninga og undirstrikar hann mikilvægi þess að líka sé sagt frá því sem gengur vel. „Við höfum verið í góðu samstarfi við Krabbameinsfélagið og m.a. nýtt gögn úr Krabbameinsskrá í okkar rannsóknir. Við eigum í rannsóknasamstarfi við hópa erlendis og Decode, sem hefur einnig verið að gera mikilvægar rannsóknir á erfðum sjúkdómsins. Síðast en ekki síst má nefna rausnarlega styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins, sem hafa gert okkur kleift að horfa um öxl og virkilega, vísindalega staðfesta að þetta séu framfarir sem skipta máli. Þannig að það er eitthvað sem ég virkilega vona að fólk geti hugsað sér að styrkja.“

(Viðtalið birtist fyrst í fréttabréfi Krabbameinsfélagsins 20.9.2023)