Blöðruháls­kirtils­krabbamein

Hvað er blöðruhálskirtilskrabbamein?

Blöðruhálskirtill er líffæri sem er eingöngu hjá körlum. Undir eðlilegum kringumstæðum er kirtillinn á stærð við valhnetu eða golfkúlu. Blöðruhálskirtillinn er fyrir framan endaþarminn, undir þvagblöðrunni og umlykur efri hluta þvagrásarinnar. Hlutverk hans er að framleiða sáðvökva, sem verndar og nærir sáðfrumur. Nokkrar tegundir af frumum finnast í blöðruhálskirtli en krabbameinin eru langoftast af kirtilfrumugerð. Stundum getur krabbameinið vaxið hratt og dreift sér til annarra líffæra en langflest vaxa hægt.

Blöðruhálskirtilsstækkun eða blöðruhálskirtilskrabbamein?

Nokkuð algengt er að frumurnar í kirtlinum stækki hjá eldri mönnum og getur það haft þær afleiðingar að kirtillinn þrengir að þvagrásinni með tilheyrandi einkennum. Þessi einkenni eru oft þau sömu og einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins en góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli er mun algengari sjúkdómur og tengist ekki krabbameini. Bólga í blöðruhálskirtli eða sýking getur einnig valdið svipuðum einkennum.

Fullyrðingar um blöðruhálskirtilskrabbamein sem standast ekki 

Mikið kynlíf, ófrjósemisaðgerð og sjálfsfróun auka ekki líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini. Sömuleiðis tengist stækkaður blöðruhálskirtill ekki aukinni áhættu að fá krabbamein í blöðruhálskirtli.

Helstu einkenni

Oftast eru engin einkenni. Stækki meinið getur það þrýst á þvagrásina og valdið einu eða fleirum einkennum:

  • Þvagtregða, erfiðleikar að byrja þvaglát, kraftlítil þvagbuna, dropar í lok þvagbunu og/eða erfitt að tæma þvagblöðruna.

  • Tíð þvaglát, sérstaklega á næturna.
  • Blöðrubólga, verkur eða óþægindi við þvaglát.
  • Blóð í þvagi eða sáðvökva.Góðkynja sjúkdómar í blöðruhálskirtli eru þó algengasta orsök þessara einkenna.

Einkenni sem ágerast hratt eða koma fram hjá körlum undir fimmtugt þarf alltaf að rannsaka. Hafi krabbameinið dreift sér til annarra líffæra getur það valdið eftirfarandi einkennum:

  • Beinverkir í mjöðmum, mjaðmagrind, hryggsúlu eða lærleggjum.
  • Þreyta.
  • Slappleiki.
  • Þyngdartap.

Áhættuþættir

  • Aldur. Að eldast er stærsti áhættuþáttur blöðruhálskirtilskrabbameins. Rannsóknir benda til þess að allt að 80% af öllum 80 ára og eldri séu með blöðruhálskirtilskrabbamein í einhverri mynd. Flest þessara krabbameina liggja í dvala og munu aldrei valda neinum skaða.
  • Fjölskyldusaga. Að eiga náinn ættingja (föður, bróður, son) sem greinst hefur með blöðruhálskirtilskrabbamein eykur áhættuna að greinast með krabbameinið og eykst áhættan eftir því sem fleiri nánir ættingjar hafa sjúkdóminn.
  • Kynþáttur. Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengast hjá svörtum körlum af afrískum uppruna og sjaldgæfast hjá körlum af asískum uppruna.
  • Stökkbreyting í BRCA2 geni. Karlmenn sem fæðast með stökkbreytingu í BRCA2 geni hafa u.þ.b. fimmfalda áhættu á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli miðað við karla almennt. Þeir greinast yngri og sjúkdómurinn er alvarlegri og lengra genginn við greiningu. Hjá þeim hefur sjúkdómurinn líka hraðari framgang, einnig eftir að tekið hefur verið tillit til þess að hann er lengra genginn við greiningu. Vert er að taka fram að þessi stökkbreyting er sjaldgæf, hún er til staðar í um 2% sjúklinga með blöðruhálskirtilskrabbamein. 

Hverjir ættu að leita til læknis?

  • Þeir karlmenn sem finna fyrir einkennum sem bent gætu til blöðruhálskirtilskrabbameins.
  • Þeir karlmenn sem eiga náinn ættingja (föður, bróður, son) sem greinst hefur með krabbamein í blöðruhálskirtli.
  • Þeir karlmenn sem eru með stökkbreytingu í BRCA2 geni.

Tekið skal fram að þó að þessir ofangreindir þættir eigi ekki við, er hverjum og einum karlmanni samt í sjálfsvald sett að óska eftir skoðun hjá sínum heimilislækni. Við ráðleggjum þó eindregið að menn kynni sér málin vel áður, bæði kosti og galla, til að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Gagnvirkt, rafrænt fræðsluefni sem samhliða felur í sér aðstoð við að taka ákvörðun um þessi mál hefur verið þróað. Það kallast Ákvörðunartækið, smelltu hér til að kynna þér það eða nýta. 

Leit að vísbendingum um krabbamein í blöðruhálskirtli hjá einkennalausum körlum (Skimun)

Því fylgja bæði kostir og gallar þegar vísbendinga um blöðruhálskirtilskrabbamein er leitað hjá einkennalausum mönnum. Slíkar rannsóknir geta gert kleift að greina mein fyrr, þegar meiri líkur eru á vægari sjúkdómi sem hægt er að lækna. Hinsvegar geta þær leitt til ofgreiningar á krabbameinum sem þarfnast ekki meðferðar. 

Þegar leitað er skipulega að meinum hjá ákveðnum hópum er talað um lýðgrundaða skimun (sbr. þegar skimað er fyrir legháls- og brjóstakrabbameini hjá konum). Hvorki er mælt með né á móti lýðgrundaðri skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli hérlendis eða í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einkennalausir karlar, án áhættuþátta, geta óskað eftir leitað sé að vísbendingum fyrir krabbameininu. Til að auðvelda körlum að leggja mat á  hvort það myndi henta þeim eða ekki hefur verið þróað sérstakt gagnvirkt rafrænt fræðsluefni, svokallað Ákvörðunartæki.   Smelltu hér til að nýta þér Ákvörðunartækið.

Greining

  • Þreifing um endaþarm. Ef leitað er til læknis vegna áhyggja af blöðruhálskirtilskrabbameini mun hann að öllum líkindum þreifa blöðruhálskirtilinn um endaþarm til að athuga hvort hann greini hnút eða stækkaðan kirtil.
  • PSA. Eftir aðstæðum mun læknirinn meta hvort ástæða er til að athuga með blóðprufu hvort hækkun sé á PSA (prostate-specific antigen) en það er mótefnavaki sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Hækkað PSA getur verið vísbending um blöðruhálskirtilskrabbamein en er þó ekki afgerandi vísbending þar sem í sumum tilfellum þá eru karlar með lágt PSA-gildi með krabbamein í blöðruhálskirtli og svo getur hækkkað PSA-gildi orsakast af öðrum þáttum, t.d. bólgum eða góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli. 

STUTT FRÆÐSLUMYNDBÖND UM KRABBAMEIN Í BLÖÐRUHÁLSKIRTLI

  • Vefjasýni. Ef skoðun eða PSA-próf bendir til sjúkdómsins mun læknirinn ráðleggja sýnatöku. Langoftast er sýnatakan gerð ómstýrt um endaþarm en stundum þannig að nál er stungið gegnum spöng (húðin milli endaþarms og pungs). Mörg lítil sýni eru tekin frá kirtlinum sem meinafræðingur skoðar í smásjá og skipar æxlinu í Gleason-flokk sem er á bilinu 6 til 10. Lágur Gleason-flokkur þýðir að krabbameinsfrumurnar líkjast eðlilegum blöðruhálskirtilsfrumum og þá er æxlið ólíklegra til að dreifa sér til annarra líffæra. Hár Gleason-flokkur þýðir að krabbameinsfrumurnar eru mjög ólíkar eðlilegum frumum og líklegri til að dreifa sér. Sýnataka er öruggasta leiðin til að greina krabbamein og spá fyrir um hvort það er hægvaxandi eða illvígara. 
  • Myndgreining, svo sem ómskoðun um endaþarm, sneiðmyndataka, segulómun og beinaskann, er eftir atvikum notuð til að kanna útbreiðslu sjúkdómsins. Skoðað er hvort æxlið sé bundið við kirtilinn, hefur vaxið út fyrir hann, í eitla eða til annarra líffæra.
  • Alvarleiki sjúkdóms. Mikill breytileiki er á því hversu hratt æxli í blöðruhálskirtlinum vaxa, stundum getur krabbameinið vaxið hratt og dreift sér til annarra líffæra en langflest vaxa hægt. Horfur sjúklings eru háðar útbreiðslu krabbameinsins.                                                                                                                                                                                                Alvarleiki meins er metinn út frá heildarrannsóknaniðurstöðum (PSA-gildi, Gleason skori og útbreiðslu) og fellur meinið út frá því í ákveðinn áhættuflokk. Hver áhættuflokkur hefur mismunandi horfur og meinin því meðhöndluð á mismunandi hátt.  Alvarleiki fer stigvaxandi því neðar sem dregur á listanum:

           Áhættuflokkar blöðruhálskirtilskrabbameins

              Lág áhætta
              Miðlungsáhætta
              Há áhætta
              Svæðisbundin meinvörp
              Fjarmeinvörp 

Blöðruhálskirtilskrabbamein - bæklingur fyrir þá sem eru nýgreindir með sjúkdóminn

Framför 

Framför er eitt aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins. Það er félag karlmanna með krabbamein í blöðruhálsi og aðstanda þeirra. 

Í félaginu starfa stuðningshóparnir Frískir menn: stuðningshópur fyrir menn sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli en ekki farið í meðferð, Góðir hálsar: fyrir menn sem hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli og farið í meðferð og Traustir makar: stuðningshópur fyrir maka og aðstandendur karlmanna með blöðruhálskirtilskrabbamein.   

Meðferð

  • Virkt eftirlit. Sé sjúkdómurinn staðbundinn kemur undir ákveðnum skilyrðum til greina að fylgjast með viðkomandi og veita ekki meðferð nema sjúkdómurinn ágerist. Sú nálgun er kölluð virkt eftirlit. Regluleg þreifing kirtilsins, PSA-mæling og jafnvel sýnataka úr kirtlinum er notuð til þess að meta framgang sjúkdómsins.
  • Geislameðferð og skurðaðgerð. Hefðbundið er að gefa ytri geislameðferð og/eða fjarlægja kirtilinn með aðgerð.
    Aukaverkanir. Báðar meðferðirnar geta leitt til getuleysis og þvagleka. Það stafar af því að þvaglokan er rétt fyrir neðan blöðruhálskirtilinn og taugar og æðar sem fara niður til getnaðarlims liggja þétt við kirtilinn svo erfitt er að hlífa þeim við aðgerðina.

TAKTU PRÓFIÐ! HVAÐ VEIST ÞÚ UM KRABBAMEIN Í BLÖÐRUHÁLSKIRTLI

  • Andhormónameðferð. Ef sjúkdómurinn er þegar útbreiddur við greiningu eru horfur lakari en við staðbundinn sjúkdóm. Þrátt fyrir það má búast við góðri svörun með svokallaðri andhormónameðferð sem byggist á því að fjarlægja eða hindra virkni karlhormónsins (testósterón) á krabbameinsfrumurnar. Þessi meðferð getur haft í för með sér kyndeyfð og hugsanlega svitakóf en ekki verður nein breyting á útliti karlmanna eða rödd þrátt fyrir meðferðina.

Tölfræði og lífshorfur

Lífshorfur byggjast á því hvort sjúkdómurinn er bundinn við kirtilinn eða hvort hann hafi dreift sér til eitla eða beina. Eins getur gangur hans verið mjög misjafn eftir einstaklingum. Mestar líkur eru á því að hægt sé að uppræta sjúkdóminn ef hann greinist á byrjunarstigi. Í flestum tilvikum er sjúkdómurinn þó hægfara og veldur jafnvel aldrei einkennum, einkum ef hann er staðbundinn hjá eldri einstaklingum. 

Yfirfarið í janúar 2021

Fræðsluefni

Fræðslumyndbönd

Grafískt fræðslumyndband:

Þvagfæralæknar svara 12 mikilvægum spurningum um blöðruhálskirtilskrabbamein.


Ítarefni


Var efnið hjálplegt?