Beint í efni

Skimun fyr­ir krabba­meini í ristli og enda­þarmi

Markmiðið er að fækka þeim sem deyja af völdum krabbameina í ristli og endaþarmi og fækka þeim sem greinast með slík mein.  

Krabbamein í ristli og endaþarmi er eitt þriggja krabbameina sem alþjóðlegar stofnanir mæla með að sé skimað fyrir. Hin eru brjósta- og leghálskrabbamein.

Skimun (eða hópleit) þýðir að leitað er að krabbameini hjá einkennalausum einstaklingum.

Markmið skimunarinnar

Markmið skipulegrar skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi eru annars vegar að fækka þeim sem deyja af völdum sjúkdómsins með því að finna krabbamein á frumstigum þannig að lækning sé frekar möguleg og hins vegar að fækka þeim sem greinast með þessa gerð krabbameina með því að finna og fjarlægja forstig sjúkdómsins (sepa) áður en þau þróast yfir í krabbamein. 

Algeng krabbamein

Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi auk þess sem þessi tegund krabbameina er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Íslandi.

Í slímhúð ristils og endaþarms getur orðið óeðlilegur frumuvöxtur sem veldur því að separ myndast. Áætlað er að þriðjungur einstaklinga eldri en 50 ára sé með slíka sepa. Sumir sepanna geta þróast yfir í krabbamein en það getur tekið mörg ár. Ef slíkir separ uppgötvast í millitíðinni með skimun er hægt að fjarlægja þá áður en þeir verða að krabbameini.

Ristilskimun hafin hérlendis

Nú í ár (2025) hófst innleiðing ristilskimunar hérlendis. Fyrst er 69 ára fólki boðin þátttaka en svo munu fleiri aldurshópar bætast við á næstu misserum. Með tímanum munu allir, óháð kyni, á aldrinum 60 – 74 ára fá boð í skimunina á tveggja ára fresti.

Framkvæmd skimunar - sjálfspróf send heim

Skimunin felst í sjálfsprófi sem gengur út á að kanna hvort blóð sé í hægðum en það getur verið merki um forstig krabbameins eða krabbamein á byrjunarstigi.  

Fyrst fær fólk bréf í gegnum Heilsuveru þar sem því er boðið að taka þátt. Það fær svo sýnatökusett fyrir hægðapróf ásamt leiðbeiningum sent heim. Eftir að sýnið er tekið heima sendir viðkomandi það í pósti eða kemur því á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Ef blóð greinist í sýninu fær viðkomandi boð í ristilspeglun til að kanna nánar ástæður þess. Orsakir geta verið aðrar og saklausari en krabbamein.

Ávinningur og áhætta

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi, bæði hvað varðar að fækka nýjum tilfellum sjúkdómsins og draga úr dauðsföllum af völdum hans. Mikilvægt er þó að fólk átti sig á að skimanir eru aldrei með fullkomið næmi (e. sensitivity) eða sértæki (e. specificity). Það þýðir annars vegar að skimun getur misst af krabbameini og gefið svonefnda falska neikvæða niðurstöðu. Hins vegar getur niðurstaðan verið fölsk jákvæð, þ.e.a.s. að grunur vaknar um krabbamein hjá einstaklingum sem í raun eru heilbrigðir og þurfa þá að gangast undir frekari rannsóknir og meðferð (oft kallað ofgreiningar og oflækningar).