© Mats Wibe Lund

Breiðfirðingar

Krabbameinsfélag Breiðfirðinga var stofnað 19. október 2005 að Laugum í Sælingsdal og eru félagsmenn um 35 talsins. Aðalfundir eru haldnir árlega til skiptis í Reykhólahreppi og Dalabyggð. Formaður félagsins er Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Starfsemi 2016

Aðalfundurinn var haldinn í Rauðakrosshúsinu í Búðardal. Á aðalfundinn ætlaði að koma Þórður Ingólfsson læknir og flytja erindi um krabbamein og fyrirbyggjandi aðgerðir. Því miður þurfti hann að fara í útkall á sama tíma svo fyrirlesturinn féll niður. Við höldum aðalfundina til skiptis í Reykhólahreppi og Dalabyggð. Við kynnum þar ýmsa fræðslubæklinga og myndbönd sem Krabbameinsfélagið gefur út. Einn stjórnarfundur var haldinn á árinu og nokkrir símafundir. Þrúður Kristjánsdóttir mætti á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands sem haldinn var 14. maí 2016. 

Við dreifðum auglýsingu inn á hvert heimili á svæðinu þar sem við kynntum íbúðir fyrir krabbameins-sjúklinga og aðstandendur sem Krabbameinsfélag Íslands á í Reykjavík og jafnframt að við greiðum dvalarkostnað þeirra sem þar dvelja af okkar félagssvæði þegar þeir þurfa á að halda vegna krabbameinsmeðferðar eða rannsókna í Reykjavík. Greidd var húsaleiga í viku fyrir einn aðila á árinu. Einnig greiðum við fyrir fólk sem þarf að vera á sjúkrahóteli Landspítala. 

Við lofuðum 50.000 kr. styrk til hvors grunnskóla á svæðinu til að standa fyrir námskeiði um forvarnir gegn reykingum eða annarri tóbaksnotkun. Af því hefur þó ekki orðið ennþá. Reykhólakirkja var lýst upp með bleiku ljósi í október í fjórða skipti. Þá var einnig Mjólkurstöðin í Búðardal lýst upp með bleikum ljósum og er það í sjötta skipti sem það er gert. 

Til fjáröflunar seljum við jólakort, minningarkort, bleiku slaufuna og ýmsan varning við ýmis tækifæri. Minningarkortin eru jafnframt til sölu í Arion banka í Búðardal og einnig hjá stjórnarmeðlimum. Við seljum vörurnar í Handverkshúsinu Bolla í Búðardal, og í Markaðnum í Króksfjarðarnesi sem Handverksfélagið Assa rekur á sumrin. Á árlegum jólamarkaði í Króksfjarðarnesi í nóvember voru jólakort frá okkur, vörur, og ýmsir jólamunir einnig til sölu. Þá hefur verslunin Hólakaup á Reykhólum selt ýmsa muni fyrir okkur á árinu. Enginn starfsmaður er á launum hjá félaginu. Félagsgjald er 2.000 kr. Eitt kvenfélag er styrktaraðili. 

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir 


Var efnið hjálplegt?