Lifrarbólga C
Lifrarbólga C er sjúkdómur sem stafar af sýkingu lifrarbólgu C veirunnar (HCV). Lifrarbólga af völdum þessarar veiru getur skaðað lifrina, leitt til lifrarkrabbameins og dauða.
Sýking getur verið bráð og skammvinn en í meirihluta tilfella, eða hjá 75% einstaklinga sem smitast, er um að ræða langvinna lifrarbólgu sem er einkennalaus þar til lifrin hefur skemmst það mikið að sjúkdómurinn greinist.
Margir sem smitast af lifrarbólgu C (um 75 af hverjum 100 smituðum), fá langvinna lifrarbólgu. Um 15% einstaklinga sem sýkjast geta búist við að greinast með lifrarkrabbamein. Ólíkt lifrarbólgu B eru ekki minni líkur á að einstaklingur þrói með sér langvinna sýkingu þó að hann sýkist ekki fyrr en á fullorðinsaldri. Áfengisneysla, reykingar og samhliða sýking af lifrarbólgu B veirunni veldur auknum líkum á að einstaklingur sem er með langvinna lifrarbólgu af völdum lifrarbólgu C veirunnar fái lifrarkrabbamein.
Dreifing lifrarbólgu C veirunnar
Lifrarbólgu C veiran smitast aðallega með sýktu blóði. Meginsmitleiðir sýkts blóðs milli manna tengjast notkun ólöglegra fíkniefna sem sprautað er í æð, samnýtingu sýktra sprautunála og blóðgjöfum sem framkvæmdar eru við ófullnægjandi aðstæður. Lifrarbólga C getur einnig smitast við samfarir og við almennt samneyti fólks á sama heimili en þó er óalgengari að fólk smitist við slíkar aðstæður samanborið við þær fyrrnefndu. Á tímabilinu frá fjórða áratug tuttugustu aldar og fram á þann áttunda sýktust fjölmargir vegna ófullnægjandi aðstæðna við sprautunotkun í mörgum löndum, þar með talið sumum löndum í Suður- og Austur-Evrópu. Nú á dögum er algengast að fólk sýkist af lifrarbólgu C veiru þegar ólöglegum fíkniefnum er sprautað í æð.
Þeir sem hafa einhvern tímann sprautað eiturlyfjum í æð og skipst á sprautunálum við aðra eða verið stungnir með stungubúnaði sem ekki hefur verið dauðhreinsaður (t.d. við húðflúrun, líkamsgötun fyrir skart eða við nálarstungumeðferð) gætu hafa smitast af lifrarbólgu C veiru. Hið sama á við um þá sem fengu blóðgjöf eða aðrar blóðafurðir fyrir árið 1995. Eftir þann tíma hafa allar blóðafurðir fyrir blóðgjafir eða aðrar læknismeðferðir í Evrópu verið skannaðar á kerfisbundinn hátt fyrir lifrarbólgu C veiru. Einstaklingar sem hafa verið stungnir með nálum við aðstæður þar sem meðhöndlun nálanna hefur verið ábótavant, eru í aukinni hættu á að fá lifrarkrabbamein C. Þetta getur t.d. átt við hafi fólk þegið meðferð sem falist hefur í að fá efni í æð, látið gata húð fyrir líkamsskart, fengið húðflúr eða farið í nálarstungumeðferð. Þetta er algengt í löndum eða á svæðum utan Evrópu sem búa við bágan efnahag og á óróatímum þegar samfélög eru í uppnámi.
Bólusetning gegn lifrarbólgu C
Enn sem komið er engin bólusetning til sem kemur í veg fyrir lifrarbólgu C. Besta leiðin til að forðast smitast af lifrarbólgu C veiru er að forðast óöruggar inndælingar (t.d. blóðgjafir) og allar sprautur, líkamsgötun, húðflúr eða nálarstungumeðferðir þar sem dauðhreinsun stungubúnaðar gæti verið ábótavant. Nýjum tilfellum í Evrópu hefur fækkað mikið síðan farið var að skima blóðgjafa fyrir lifrarbólgu C veirusýkingu, gera veirur í blóðafurðum óvirkar og nota einnota sprautur og sprautunálar. Þrátt fyrir minnkandi líkur á smiti og vegna þess að ekki er öruggt að þessar starfsaðferðir séu viðhafðar í öllum Evrópulöndum er enn ráðlegt að forðast inndælingar eins og hægt er og nýta frekar meðferðir sem byggja á inntöku um munn sé slíkt í boði, einkum þegar ferðast er milli landa. Einnig er mælt með að sleppa líkamsgötun, húðflúrun og nálarstungumeðferðum sé minnsti grunur um að hreinsun stungubúnaðar sé ófullnægjandi.
Möguleg smit
þeir sem eru 50 ára eða eldri, þá aðallega þeir sem hafa búið í Suður- eða Austur-Evrópu þar sem lifrarbólgu C veirusýkingar eru algengastar ættu að ráðfæra sig við lækni varðandi blóðrannsókn vegna mögulegs lifrarbólgu C veirusmits. Margir smituðust á árunum 1930-1990 vegna óöruggrar sprautunotkunar og inndælinga í ýmsum löndum. Blóðprófið gefur nákvæma niðurstöðu. Til er meðferð sem getur unnið á veirunum og þar með lifrarbólgunni og komið í veg fyrir krabbamein. Gruni einhvern að hann hafi fengið inndælingu eða meðferð af einhverju tagi þar sem öryggi hefur verið ábótavant ætti viðkomandi, óháð aldri, að láta rannsaka hvort hann sé með lifrarbólgu C veirusmit. Það sama við um þá sem neyta eða hafa neytt eiturlyfja í æð.
Að greinast með lifrarbólgu C
Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður mun veita ráðleggingar um möguleg meðferðarúrræði. Meðferð getur eytt veirunni og takmarkað eða lagfært skaðann sem lifrin verður fyrir. Þau meðferðarúrræði sem til eru geta verið kostnaðarsöm og haft óþægilegar aukaverkanir. Þau verka misvel í hverju tilviki fyrir sig. Unnið er að þróun nýrra meðferðarmöguleika sem hugsanlega munu nýtast þegar fram í sækir. Til að draga úr líkum á lifrarkrabbameini ætti hvorki að reykja né drekka áfengi. Sé einstaklingur samtímis með lifrarbólgu B veirusýkingu aukast líkurnar á lifrarkrabbameini. Ráðfæra ætti sig við lækni varðandi bólusetningu gegn lifrarbólgu B og önnur úrræði.
Þau meðferðarúrræði sem nú bjóðast gegn lifrarbólgu C standa yfir í nokkra mánuði og geta óþægilegar aukaverkanir fylgt þeim, t.d. þreyta, höfuðverkur, flökurleiki, útbrot og blóðleysi. Unnið er að þróun nýrra meðferðarúrræða sem hugsanlega munu nýtast þegar fram í sækir.
Til að fá frekari upplýsingar um lifrarbólgu C er best að ræða við heimilislækni eða annan heilsugæslustarfsmann. Einnig er hægt að skoða vefsíður heilbrigðisyfirvalda.