Beint í efni

Bólu­setn­ing og sýk­ingar

Veirur geta valdið krabbameini og hægt er að verjast sumum þeirra.

Fáir tengja smitsjúkdóma við krabbamein þó að staðreyndin sé sú að nær fimmtungur allra krabbameina í heiminum er af völdum sýkla, þar með talinna baktería og veira. Þær sýkingar sem helst tengjast krabbameini eru svokallaðar HPV-veirur (HPV= human papilloma virus) sem valda flestum tilfellum krabbameins í leghálsi og endaþarmsopi auk hluta af krabbameini í munni. Lifrarbólgu B veirur (HBV, hepatitis B virus) og lifrarbólgu C veirur (HCV, hepatitis C virus) valda lifrarkrabbameini. Helicobacter pylori er baktería sem getur orsakað magakrabbamein. Alnæmisveirusýking (HIV, human immunodeficiency virus) veldur ekki krabbameini beint en fólk sem er sýkt af veirunni og af þeim sökum með bælt ónæmiskerfi er líklegra en aðrir til að fá krabbamein. Bólusetning er árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir sumar þessara sýkinga. Mjög öflug bóluefni gegn HBV hafa verið til í nokkra áratugi og í flestum löndum er slík bólusetning hluti af bólusetningaráætlun ungbarnaeftirlits. Bólusetning er einnig mjög áhrifarík forvörn gegn þeim gerðum HPV-veira sem valda meiri hluta leghálskrabbameins.

HPV-veirur

HPV-veirur eru veirur sem valda algengri sýkingu sem berst milli fólks við kynmök. Flestar sýkingar af völdum HPV eru einkennalausar og því er ekki hægt að vita hvort einhver sé sýktur eða ekki. Hér má lesa nánar um HPV-veirur.

Tólf leið­ir til að draga úr lík­um á krabba­meini

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópsku krabbameinssamtökin hafa tekið saman Evrópustaðal sem inniheldur tólf leiðir sem taldar eru geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.