Beint í efni

HPV vir­us

Allt að helmingur fólks sýkist af HPV einhvern tímann á ævinni.  Í flestum tilvikum veldur veiran engum skaða þar sem ónæmiskerfi líkamans ræður oftast niðurlögum hennar en í sumum tilfellum hverfur sýkingin ekki og getur leitt til krabbameins.

Til eru margar gerðir HPV-veira. Sumar þeirra valda vörtum. Aðrar gerðir, einkum gerðir 16 og 18, orsaka stundum leghálskrabbamein og aðrar tegundir krabbameins. Þær eru mjög algengar í fullorðnum einstaklingum.

HPV-veirur smitast auðveldlega við kynlífsathafnir og geta leitt til krabbameins í leghálsi, leggöngum og ytri kynfærum kvenna. Einnig geta þær leitt til krabbameins í endaþarmi og koki í bæði körlum og konum og krabbameins í typpi.

Að koma í veg fyrir HPV-veirusýkingu

Með bólusetningu er hægt að koma í veg fyrir sýkingu þeirra gerða HPV-veira sem orsaka um 70% leghálskrabbameins. Bólusetning gagnast þó nær aðeins þeim sem aldrei hafa smitast af veirunni. Af þessum sökum er mælt með því að stúlkur séu bólusettar áður en þær byrja að stunda kynlíf. Líkurnar á að sýkjast af HPV-veiru aukast með auknum fjölda bólfélaga. Smokkanotkun getur dregið úr smiti milli bólfélaga en ekki komið í veg fyrir þau öll. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með að stúlkur séu bólusettar gegn HPV-veirum á aldrinum 9-13 ára. Ástæðan er sú að flestar þeirra fara ekki að stunda kynlíf fyrr en þær eru orðnar eldri og því ólíklegt að þær hafi þegar smitast. Í sumum löndum eru eldri stúlkur og jafnvel ungar konur líka bólusettar, en bólusetningin dugar ekki eins vel ef þær eru byrjaðar að stunda kynlíf.

Sýnt hefur verið fram á að HPV-bólusetning getur komið í veg fyrir sýkingar og sár af völdum HPV-veira á kynfærum drengja. Fram til þessa hefur nær hvergi verið boðið upp á bólusetningar stráka gegn HPV-veirum neins staðar í opinberum heilbrigðisáætlunum í Evrópu vegna kostnaðar sem því fylgir og vegna þess að krabbamein í typpi og í endaþarmi karlmanna af völdum HPV-sýkinga eru sjaldgæf. Eins og er geta foreldrar valið að láta bólusetja unglingssyni sína á eigin kostnað kjósi þau það eftir að hafa ráðfært sig við heimilislækni.

Bólusetning og skimun

Þau bóluefni sem nú eru notuð eru mjög árangursrík hvað varðar að koma í veg fyrir sýkingar HPV-veira af tegund 16 og 18 sem valda einmitt stórum hluta krabbameins í leghálsi og í endaþarmi. Þau koma hins vegar ekki í veg fyrir smit allra tegunda HPV-veira sem geta valdið krabbameini. Mjög mikilvægt er að muna að þó að konur séu bólusettar ættu þær samt að taka þátt í hópleit að forstigsbreytingum krabbameins í leghálsi.

Í sumum löndum Evrópu er ungum konum boðið upp á bólusetningu, en hún dugar þó verr ef viðkomandi eru farnar að stunda kynlíf og er gagnslaus gegn þeim sýkingum sem þær gætu þegar haft. Bólusetning er aðeins gagnleg þeim sem ekki hafa smitast af þeim tegundum HPV-veira sem bóluefnið verndar gegn. Þar sem ómögulegt er að vita af hvaða tegundum hver og ein hefur smitast er ekki hægt að vita fyrirfram hvort bólusetning geri gagn eða ekki.     

Rannsóknir benda til þess að að bólusetning gegn HPV-veirum veiti vernd í a.m.k. 10 ár. Enn er ekki hægt að segja til um hvort bólusetning veiti vörn lengur en sem því nemur.

Bólusetningin er mjög örugg. Yfir 170 milljónir stúlkna hafa þegar verið bólusettar og helstu vandamál sem upp hafa komið eru sársauki í stungustað, hiti, svimi og ógleði. Þetta eru allt skammtímaáhrif og engin alvarleg vandamál hafa verið tengd bólusetningunni. Fylgst er með öryggi hennar hjá heilbrigðisyfirvöldum hvers lands, heilbrigðismálayfirvöldum ESB og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og allt sem gefur tilefni til að valda áhyggjum er rannsakað nákvæmlega.

Best er að ræða við heilsugæslulækni eða aðra heilbrigðisstarfsmenn. Einnig er hægt að skoða vefsíður hjá heilbrigðisyfirvöldum í hverju landi. 

Hér má einnig finna nánari upplýsingar um leghálskrabbamein.