Beint í efni

Lifr­ar­bólga B

Lifrarbólga B er sjúkdómur sem stafar af sýkingu af völdum lifrarbólgu B veirunnar (HBV). Sýkingin getur valdið örvefsmyndun í lifur (skorpulifur), lifrarbilun, lifrarkrabbameini og dauða.

Meðal einkenna lifrarbólgu B eru ógleði, lystarleysi, flensulík einkenni eins og þreyta, beinverkir og höfuðverkir auk gulnunar húðar og augna (gula). Í fullorðnum er lifrarbólga B yfirleitt bráð, kemur skyndilega og varir stutt. Í sumum tilfellum er hún þó langvarandi og án einkenna. Langvinn lifrarbólga er hinsvegar algengari þegar ungbörn og börn yngri en 5-10 ára sýkjast.

Veiran sem veldur lifrarbólgu B skaðar lifrina. Því lengur sem sýkingin varir eru meiri líkur á að lifrarkrabbamein myndist. Líkurnar á að lifrarkrabbamein myndist í einstaklingi með langvinna lifrarbólgu B sýkingu aukast verulega með áfengisneyslu og ef viðkomandi er einnig sýktur af lifrarbólgu C.

Í flestum Evrópulöndum er minna en 1% íbúa (einn af hverjum 100 íbúum) með langvinna lifrarbólgu B sýkingu. Hæsta hlutfallið er skráð í Grikklandi (3,4% íbúa) og Rúmeníu (5,6% íbúa).

Dreifing lifrarbólgu B

Aðalsmitleið veirunnar sem veldur lifrarbólgu B er með sýktu blóði eða öðrum sýktum líkamsvessum. Smit berst ekki milli einstaklinga í lofti, fæðu eða vatni. Barn getur smitast í fæðingu sé móðirin sýkt. Einnig getur veiran smitast frá einu barni til annars við nána snertingu og milli fullorðinni einstaklinga við kynmök eða með samnýtingu sýktra sprautunála. Aðrar mögulegar smitleiðir eru læknismeðferðir í löndum þar sem smitaðar nálar eða sýkt blóð gæti verið notað.

Sérstaklega mikilvægt er að koma í veg fyrir dreifingu veirunnar frá móður til barns og milli barna, þar sem langvarandi sýking af völdum lifrarbólgu B veiru, sem eykur líkur á lifrarkrabbameini, er mun algengari ef smit hefur átt sér stað á fyrstu fimm til tíu árum ævinnar.

Bólusetning gegn lifrarbólgu B

Bóluefnið gegn lifrarbólgu B er talið eitt öruggasta bóluefnið. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) leggur til að börn fái fyrsta skammtinn af bóluefni innan sólarhrings frá fæðingu, sé þess kostur, slíkt dregur úr líkum á að barn fái lifrarkrabbamein. Meirihluti landa innan Evrópu hafa áætlun um að bólusetja alla nýbura gegn lifrarbólgu B.

Í nokkrum löndum Evrópu (Bretlandi og sumum Norðurlandanna) er bólusetning gegn lifrarbólgu B aðeins í boði fyrir þau nýfæddu börn sem teljast í mikilli áhættu (börn mæðra sem eru með lifrarbólgu B). Í þessum löndum geta foreldrar ákveðið í samráði við heimilislækni að láta bólusetja börn sín á eigin kostnað.

Einstaklingur sem bólusettur var gegn veirunni sem barn getur fengið lifrarkrabbamein síðar á ævinni vegna þess að það getur einnig orsakast af öðrum þáttum eins og áfengisneyslu eða lifrarbólgu C veirusýkingu. Einnig vegna þess að bóluefni gegn lifrarbólgu B virkar ekki fullkomlega fyrir alla (eins og öll bóluefni) þó það verndi meira en 95% bólusettra.

Mesti ávinningur gegn lifrarkrabbameini er meðal barna yngri en 10 ára en bólusetning gegn lifrarbólgu B verndar barn óháð aldri gegn lifrarbólgu B sýkingum í framtíðinni.

Fullorðnir geta fengið bólusetningu og er sérstaklega mælt með því ef fólk er mjög útsett fyrir smiti (sjá næsta kaflahluta). Bólusetning dregur úr líkum á að eintaklingur sýkist af bráðri lifrarbólgu B. Fólk getur samt verið sýkt án þess að vita af því.

Líkur á sýkingu af lifrarbólgu B

Einstaklingar geta sýkst af lifrarbólgu B hafi þeir ekki fengið hana áður eða ekki verið bólusettir gegn henni. Líkurnar fara eftir því hversu marga bólfélaga viðkomandi hefur átt og hversu líklegt er að þeir hafi verið sýktir. Líkurnar á að vera sýktur af lifrarbólgu B aukast einnig ef notaðar hafa verið óhreinar sprautunálar eða manneskjan verið í öðrum aðstæðum þar sem óhreinar (sýktar) sprautunálar eða blóð gætu hafa verið notuð, til dæmis ef nauðsynlegt hefur verið að þiggja heilbrigðisþjónustu í sumum löndum. Lifrarbólga B er líka algengari í tilteknum evrópskum löndum (t.d. Grikklandi, Rúmeníu, Ítalíu og Spáni) samanborið við önnur og hafi einstaklingur dvalið í einhverju þeirra um tíma er meiri líkur á að hann hafi sýkst af lifrarbólgu B.

Hafi fólk verið mjög útsett fyrir lifrarbólgu B smiti (sjá kafla að ofan) er mikilvægt að það leiti til heimilislæknis til að fá rannsakað hvort um slíkt smit sé að ræða. Reynist einstaklingur vera með langvinna lifrarbólgu B sýkingu, gefur læknirinn ráð um möguleg meðferðarúrræði sem dregið geta úr líkunum á lifrarkrabbameini.

Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður metur hvort nánari rannsókna sé þörf, einnig hvort meðferð sé nauðsynleg og hvaða meðferð henti þá best. Til að draga úr líkunum á myndun lifrarkrabbameins ætti hvorki að reykja né drekka áfengi. Enn fremur er hægt að reyna að lágmarka hættuna á að fá lifrarbólgu C veirusýkingu.

Meðferð við lifrarbólgu B

 Meðferðin dregur úr líkum þess að einstaklingurinn fái lifrarkrabbamein. Hún dregur einnig úr líkum á öðrum lifrarskaða svo sem langvinnri lifrarbólgu og skorpulifur.

Til eru mismunandi meðferðarúrræði og fara aukaverkanir eftir því hvaða meðferð um ræðir. Sum lyf þarf að taka alla ævi. Nánari upplýsingar um sjúkdóminn og mögulegar aukaverkanir meðferðar ætti að fá hjá lækni.

Ráðlegt er að panta viðtalstíma hjá heimilislækni eða öðru heilbrigðisstarfsfólki og skoða einnig vefsíður heilbrigðisyfirvalda.