Beint í efni

Hel­ic­o­bact­er pyl­ori bakt­er­ía

Helicobacter pylori (H. pylori) er baktería sem lifir í maga margra einstaklinga og getur stundum valdið magabólgu, magasári og í sumum tilfellum magakrabbameini (1 af 100 sýktum einstaklingum). Langflest tilfelli magakrabbameina eru af völdum þessarar bakteríu.

H. pylori dreifist almennt með snertingu á milli einstaklinga, einkum innan fjölskyldna. Flestir smitast í æsku, líklega vegna snertingar við aðra í fjölskyldunni en dregið hefur úr tíðni sýkinga og fjölda nýrra tilfella magakrabbameins af völdum H. pylori bakteríu víða í Evrópu, að undanskildum svæðum í Austur-Evrópu og hluta Spánar, Portúgals og Ítalíu.

Ekki er til bóluefni sem kemur í veg fyrir sýkingu af völdum H. pylori bakteríu og engar leiðir þekktar til að hindra smit á milli manna.

Einkenni sýkingar

Sýkingin er oftast einkennalaus en stundum veldur hún magasárum, kviðverk, flökurleika og í einstaka tilfellum magakrabbameini. Fólk með magakrabbamein getur upplifað óvænt þyngdartap, átt erfitt með að kyngja, fengið blæðingu í maga eða þarma, fundið fyrir fyrirferð í kvið eða verið blóðlítið (anemia). Ef eitthvert þessara einkenna gerir vart við sig ætti viðkomandi að leita strax til læknis.

Á ákveðnum svæðum í Evrópu (t.d. Austur-Evrópu, hluta Spánar, Portúgals og Ítalíu) þar sem tíðni magakrabbameins er hærri en annarsstaðar álfunni, mæla sumir heilbrigðisstarfsmenn með því að fólk láti athuga hvort það sé smitað af H. pylori bakteríunni. Engar lýðheilsuáætlanir hafa þó verið settar á fót í Evrópu til að koma í veg fyrir magakrabbamein, meðal annars þar sem áhrif þess að veita miklum fjölda fólks meðferð, þar af mörgum sem eru án einkenna, eru ekki ljós. Unnið er að rannsóknum á þessu sviði.

Meðferð við H. pylori

Til er lyfjameðferð sem læknar sýkinguna. Meðferðin felst í því að ákveðin blanda mismunandi lyfja (m.a. sýklalyfja) er tekin í nokkra daga. Aukaverkanir af völdum meðferðarinnar eru oftast vægar og er oftast hægt að breyta skammtastærðum eða tímasetningum lyfjainntöku til að draga úr óþægindum.

Heimilislæknir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta veitt frekari upplýsingar. Einnig er upplýsingar að finna á vefsíðum heilbrigðisyfirvalda.