Vinkonurnar drógu Sóleyju í brunch fyrir lyfjameðferðina
„Fjölskylda og vinir skipta miklu máli þegar maður fær svona stórar fréttir. Það er nauðsynlegt að hafa einhvern að leita til og geta talað um hluti, grátið og hlegið. Maðurinn minn stóð eins og klettur við hlið mér og það skipti öllu máli, maður var ekki einn. Hvort sem það var knús, að hjálpa manni í gegnum lyfjameðferðina, elda eitthvað góðgæti eða bara að ræða málin. Samt er líka gott að eiga stund með sjálfum sér, átta sig á hlutunum, anda djúpt og hugsa hvernig maður vill tækla svona verkefni.“
Saga Sóleyjar Kristjánsdóttur
Sóley greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017. Hún á mann og þrjú börn, þar af einn stjúpson. Henni finnst veikindin hafa styrkt sambandið við börnin, en dæturnar fengu mikið áfall við fréttirnar og orðið „fjölskyldufundur“ hefur mjög alvarlega merkingu í þeirra huga. Sem fjölskylda hafa þau verið dugleg að eyða tíma saman um helgar, en í dag finnst henni eins og hún geti gert betur varðandi hluti sem skipta máli í lífinu: „Nú er ég til dæmis að bjóða mig fram í alls konar foreldrastarf í skólanum sem ég gerði ekki áður og ég leyfi mér enn meira til að gera fjölskylduminningarnar skemmtilegri.“
Vinirnir voru duglegir að gera mismunandi hluti með Sóley, bæði fyrir og eftir meðferð: „Vinkonurnar drógu mig óvænt í æðislegan brunch áður en ég fór í lyfjameðferðina, sumir fóru með mig í göngutúra eða eitthvað út í náttúruna, aðrir hringdu og spjölluðu eða buðu upp á heimsóknir og einn var duglegur að draga mig í jóga og hugleiðslu, sem mér þótti mjög gott. Og sem vinur er gott að sýna að maður sé til staðar. Það þarf ekki meira en kveðju á samfélagsmiðlum, en stundum er gott að ræða veikindin, þó svo að stundum sé líka bara gott að hlæja og tala um eitthvað allt annað til að gleyma stað og stund.“
„Vinir og fjölskylda stóðu vel við bakið á mér, en mér fannst mjög óþægilegt ef ég fann fyrir vorkunn. Eftir að ég missti hárið í lyfjameðferðinni var það meira áberandi og ég vildi ekki upplifa það af því mér fannst ég vera mjög sterk og vildi ekki að aðrir litu á mig sem sjúkling.“
Orðið krabbamein fær hárin vissulega til að rísa hjá mörgum, en Sóley leggur áherslu á að fólk gefi sér tíma til að átta sig á hlutunum og hugsa jákvætt: „Þetta er ekki dauðadómur og ef þú ert að fara í veikindaleyfi er þetta spurning um hvernig þú ætlar að fara í gegnum það? Það eru fáir dagar sem eru erfiðir en margir dagar þar sem maður er bara nokkuð hress. Ég gerði langan lista yfir hluti sem ég vildi upplifa eða læra og framkvæmdi flest. Hvort sem það var að kynna mér hvað er að gerast í íslensku hipp hoppi, en þar er mikil gróska, fara í Þríhnúkagíg, læra meira í jóga eða bara njóta þess að gera krosssaum, sem mér finnst skemmtilegt að dunda mér við. Kraftur og Ljósið bjóða einnig upp á frábærar tómstundir og námskeið þar sem er hægt að hitta fólk sem er að ganga í gegnum svipað og maður sjálfur.“
Sóley finnst eins og nú sé þetta verkefni að baki. Hún er orkumikil og finnur ekki fyrir miklum aukaverkunum af hormónameðferðinni eða afleiðingum af meðferðunum sem hún fór í gegnum á síðasta ári: „En ég get ekki ítrekað nógu oft að konur þreifi sig og fari í skimun, því það skiptir öllu máli að finna krabbamein snemma því þá þarf ekki eins mikla meðferð. Þessar meðferðir geta nefnilega verið mjög mikið inngrip í líkamann.“
„Framtíðina lít ég björtum augum og finnst þessi reynsla hafi gefið lífinu meiri dýpt. Þetta verkefni hefur verið mikill skóli og mér finnst ég þekkja sjálfa mig og vini mína betur og standa fastari fótum í lífinu og tilverunni.“
Uppfært 16.9.2020.
Frá meðferð hefur Sóley verið í hormónaferð og segir að sem betur fer sé ekkert að frétta af krabbameininu.
„Ég er löngu búin með breytingaskeiðið. Það stóð stutt yfir eins og það gerði hjá mömmu sem fór í gegnum það bara náttúrulega.“
Sóley sat í stjórn Krafts í tvö ár og tók þátt í fjölda verkefna á viðburðarríku afmælisári félagsins árið 2019: „Það er ótrúlega öflugt fólk í brúnni hjá Krafti og það var virkilega gaman að hjálpa til og kynnast starfi þessa stórkostlega félags.“