Beint í efni
Petrina - vinir

Petr­ína var um­vafin kær­leika: „Já­kvæðni er besta vít­am­ín­ið“

„Ég var umvafin kærleika og jákvæðni og það hjálpaði mér mikið í öllu þessu ferli. Öllum var auðvitað mjög brugðið að fá þessar fréttir en ég var strax ákveðin í að sigrast á krabbameininu. Mikilvægast er að eiga fjölskyldu og vini sem eru jákvæðir og hjálpa til í veikindunum. Ég er heppin, bæði fjölskylda og vinir stóðu eins og klettar við hlið mér í baráttunni við krabbameinið.“

Saga Petrínu Sigurðardóttur

Petrína er gift og á tvö börn. Hún býr í Reykjanesbæ og greindist með brjóstakrabbamein 2015. Var þá búin að finna fyrir hnút í nokkur ár. Hún fór í brjóstnám og svo lyfjameðferð. Uppbyggingarferlið á brjóstinu er enn í gangi.

 Petrína viðurkennir að ferlið hafi á stundum tekið á. En þá hafi verið mikilvægt að vera jákvæður: „Það má gráta, og ég gerði það auðvitað líka, en jákvæðni er besta vítamínið sem við höfum og svo skiptir hjálp frá vinum og fjölskyldu mjög miklu máli. Við sem erum með krabbamein erum þakklát fyrir að þau hjálpi til og séu til staðar.“

Petrína hvetur stelpur og konur til að taka þátt í krabbameinsleit, fara í skoðun og vera jákvæðar ef þær greinast. Fyrir fjölskyldu og vini mælir hún með að vera ekki hrædd að tala við þann sem greinist, því hann þarf á stuðningnum að halda. „Oft getur verið erfitt fyrir fjölskyldu og vini að taka skrefið að heimsækja þann sem er veikur. En það skiptir miklu máli fyrir hinn veika að finna stuðninginn.“

Petrina - vinir

Frá vinstri: Laufey Þorgeirsdóttir, Berglind Daníelsdóttir, Petrína, Guðný Óskarsdóttir, Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, Sigurbjörg og Lára Guðmundsdóttir.

„Ég lít framtíðina björtum augum og er afar þakklát fyrir að hafa komist yfir veikindin mín með góðum stuðningi frá fjölskyldu og vinum.“

Uppfært 16.9.2020.

Petrína hefur það gott í dag. Hún er hress en fer í skimun einu sinni á ári: „Ég er í góðum höndum hjá krabbameinsdeild Landspítalands og ég er líka að vinna. Ég þjálfa Boccia hjá Íþróttafélagi Nes og þjálfa eldri borgara í Reykjanesbæ í Boccia. Lífið er yndislegt.“