Beint í efni
Elín - vinkonur

Elín fór í djúpa sjálfs­skoð­un: „Krabba­mein­ið setti líf­ið í sam­hengi“

„Krabbameinið setti lífið í samhengi og ég áttaði mig á því hvað skiptir mig mestu máli. Það var ómetanlegt að finna stuðning og umhyggju fjölskyldu og vina og svo stækkaði vinahópurinn eftir því sem leið á því krabbamein tengir fólk saman.“

Saga Elínar Skúladóttur

Elín greindist í apríl 2017 með brjóstakrabbamein. Bæði brjóstin voru fjarlægð sem og eitlar úr holhönd. Nú stendur yfir brjóstauppbyggingarferli og andhormónameðferð. Hún nýtti sér þjónustu allra þeirra sem hún taldi að gætu hjálpað, bæði hefðbundið og óhefðbundið og í miðju ferlinu ákvað hún að gerast vegan: „Það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið fyrir sjálfa mig.“

„Í huga mér er fyrst og fremst þakklæti. Ég ákvað snemma í ferlinu að einbeita mér að því hvernig ég ætlaði mér að lifa lífinu og fór í djúpa sjálfsskoðun með það að markmiði að verða betri manneskja. Sjálfsskoðun og sjálfsefling er bæði erfitt og gefandi ferli sem endar í sjálfu sér aldrei. En ég er á réttri leið - og eins undarlegt og það kann að hljóma þá vakti krabbameinið mig.“

Elín er gift og er þriggja barna móðir. Hún á tíu ára strák, fjögurra ára stelpu og 16 ára stjúpson sem missti móður sína ungur úr krabbameini. Hún vinnur hjá Fjármálaeftirlitinu, kennir jóga í Hress og er gjaldkeri Krafts.

„Ég lít björtum augum til framtíðar. Það er eins og neikvæði ritskoðarinn hafi látist í einhverri lyfjameðferðinni. Eða kannski lærði ég að hlusta ekki á hann. Og ég er hægt og rólega að læra að eyða meiri tíma í núinu og standa með sjálfri mér. Það skiptir mig mestu máli því núið er stórkostlegur staður að vera á!“

Öðrum konum sem eru að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð ráðleggur Elín að hugsa vel um sig: „Lífsstíll getur spilað stóran þátt meðferð og bata. Verið ykkar eigin besta vinkona.“

Elín - vinkonur

Á mynd frá vinstri: Aldís Sigurðardóttir, Sigrún Jóna Guðmundsdóttir Eydal, Anna María Ingvarsdóttir, Elín, Guðrún Sigurjónsdóttir, Brynja Sif Bjarnadóttir og Eva Hrund Guðmarsdóttir.