„Ég hef mikla trú á jákvæðri hugsun“
„Það er ótrúlegt hvað það getur skipt miklu máli að finna fyrir því hvað margir eru til staðar fyrir mann ef eitthvað kemur upp. Ég fékk óendanlegan stuðning bæði frá fjölskyldu og vinum, en líka frá samfélaginu heima á Þórshöfn.“
Saga Höllu Dagnýjar Úlfsdóttur
Halla Dagný var 24 ára í febrúar 2018 þegar hún greindist með leghálskrabbamein á 4. stigi. Lyfjameðferð lauk í maí og Halla hefur verið í viðhaldsmeðferð sem mun standa yfir að óbreyttu í nokkuð langan tíma. Hún býr í bænum og stundar nám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands. Móðir hennar dvaldi í bænum í marga mánuði á meðan meðferð stóð yfir og maður hennar og bræður Höllu komu líka. Hún talaði við pabba sinn nánast daglega og hann kom reglulega frá Selfossi: „Það skipti klárlega miklu máli að fjölskyldan skyldi koma, amma og frænkur líka. En á meðan ég var í meðferðinni greindist systir mömmu með brjóstakrabba og fór í aðgerð í sumar.“
„Ég sætti mig nánast strax við þessi hlutskipti og vissi að ég gat ekkert gert til að breyta þessu. Ég hef mikla trú á jákvæðri hugsun og einbeitti mér að uppbyggilegu hlutunum og að reyna að vera í núinu. Það er reyndar nauðsynlegt ef maður vill halda geðheilsunni þegar það ríkir svona mikil óvissa í lífinu. En þegar hausinn var alveg á yfirsnúningi og ekkert virkaði gat ég alltaf leitað til fjölskyldunnar eða vina og annað hvort talað um hlutina eða fengið kærkomna pásu.“
Halla Dagný svaraði meðferð vel og þoldi hana ágætlega: „Ég veit að þetta er ekki búið og ég verð aldrei eins og ég var og það er flókið, skrýtið og erfitt að koma aftur inn í lífið eftir þessa reynslu. Mitt meginmarkmið er gamla góða klisjan að vera besta útgáfan af sjálfri mér og það er eitthvað sem þarf að þjálfa og viðhalda.“
„Þegar ég horfi til baka þá koma mjög fáar slæmar eða neikvæðar tilfinningar upp. Ég var með 4. stigs krabbamein og er enn í meðferð. Þetta var erfitt. Mér leið oft alveg ógeðslega og var að berjast fyrir lífi mínu. En það hefur allt fallið í skuggann af því góða og skemmtilega sem ég hef gert á árinu. Maður getur nefnilega gert margt skemmtilegt og lifað góðu lífi þó maður sé með krabbamein.“
„Fyrir mér er mikilvægt að elska sjálfan sig og það gerir maður með því að rækta líkama og sál, viðhalda og rækta sambönd, vera jákvæður og glaður og taka því sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er svo mikilvægt að líta ekki til baka með eftirsjá eða reiði.“
„Ég hvet kynsystur mínar til þess að mæta í legháls- og/eða brjóstaskoðun þegar þær eru kallaðar inn eða ef einhver einkenni gera vart við sig af því þetta getur komið fyrir alla. Við erum lifandi sönnun þess. Það er rík ástæða fyrir skimuninni og við höfum það tækifæri að geta nýtt okkur hana. Mig langar líka að hvetja kærasta, eiginmenn, feður, bræður, frændur og vini til að vera meðvitaðir um þessa hluti og hvetja konurnar í sínu lífi í skoðun. Þegar krabbamein af þessu tagi er orðinn raunveruleiki kemur það nefnilega öllum við, ekki bara konum.“